Sendifulltrúar Rauða krossins segja frá störfum sínum á hamfarasvæðum á Filippseyjum

5. feb. 2014


 
Orri Gunnarsson
 
Hrönn Håkansson
 

  Elín Jónasdóttir
 


Rauði krossinn efnir til hádegisfundar fimmtudaginn 6. febrúar kl. 12:00 í húsi Rauða krossins að Efstaleiti 9, þar sem þrír sendifulltrúar fjalla um störf sín á vettvangi á hamfarasvæðunum á Filippseyjum. Fundurinn er öllum opinn, og þeir sem hafa áhuga á hjálparstarfi eru hvattir til að mæta.

Alls söfnuðust um 55 milljónir króna í söfnun Rauða krossins á Íslandi vegna hamfaranna.  Fyrirtæki lögðu fram um 24 milljónir, þar af komu 22 milljónir króna frá CCP sem framlag spilara tölvuleiksins Eve Online, utanríkisráðuneytið lagði fram 20 milljónir, og almenningur og Félag Filippseyinga Ice-Phil lögðu til 11 milljónir.

Auk fjárframlaga voru sjö sendifulltrúar sendir til hjálparstarfa á Filippseyjum. Tveir tæknimenn og þrír hjúkrunarfræðingar störfuðu við tvö tjaldsjúkrahús Rauða krossins á Samareyju. Þá var sérfræðingur í áfallahjálp fenginn í neyðarsveit Alþjóða Rauða krossins til að skipuleggja sálrænan stuðning vegna hamfaranna, og öryggismálasérfræðingur Alþjóða Rauða krossins, sem hefur lengi starfað fyrir Rauða krossinn á Íslandi, hafði yfirumsjón með uppsetningu öryggisferla í neyðaraðgerðunum.

Þeir sem greina frá störfum sínum á vettvangi eru þau Orri Gunnarsson verkfræðingur, Hrönn Håkansson hjúkrunarfræðingur og Elín Jónasdóttir sálfræðingur.

Orri var í hópi fyrstu alþjóðlegu hjálparstarfsmanna sem sendir voru á vettvang. Hann var fulltrúi Rauða krossins á Íslandi í neyðarsveit sem setti upp tjaldsjúkrahús í Basey á eyjunni Samar. Þar gekk fellibylurinn fyrst á land og eyðileggingin var gríðarleg. Þetta var fyrsta verkefni Orra með Rauða krossinum.

Hrönn Håkansson hélt til starfa á Filippseyjum í byrjun desember. Hrönn vann á tjaldsjúkrahúsi við mæðravernd og ungbarnaeftirlit í bænum Balangiga sem einnig er á Samareyju. Hún vann einnig á færanlegri sjúkrastöð sem sinnti heilsugæslu í afskekktum byggðum í nágrenni Balangiga. Hrönn var einnig í fyrsta sinn að störfum á vettvangi fyrir Rauða krossinn.
 
Elín Jónasdóttir sálfræðingur starfaði með neyðarsveit Alþjóða Rauða krossins með hópi sérfræðinga sem fengnir voru til að skipuleggja hjálparstarf í kjölfar hamfaranna. Elín fékk það hlutverk að skipuleggja áfallahjálp og sálrænan stuðning sérstaklega fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða Rauða krossins sem vinna við mjög erfiðar aðstæður til að vinna úr þeim áföllum sem mæta þeim í starfi. Elín er margreyndur sendifulltrúi Rauða krossins í áfallahjálp, og vann að svipuðu verkefni á Sri Lanka í kjölfar flóðbylgjunnar miklu í Suður- og Suðaustur Asíu árið 2005.

Aðrir sendifulltrúar Rauða krossins sem unnu við hjálparstarf á Filippseyjum voru þær Magna Björk Ólafsdóttir og Lilja Óskarsdóttir, hjúkrunarfræðingar, sem báðar hafa mikla reynslu af störfum á vettvangi, og Aleksandar Knezevic rafvirki, sem er margreyndur í hjálparstarfi fyrir Rauða krossinn Þá var Karl Sæberg Júlísson einnig við hjálparstörf á hamfarasvæðinu. Karl er einn reyndasti öryggismálasérfræðingur Alþjóða Rauða krossins og hafði yfirumsjón með uppsetningu öryggisferla í neyðaraðgerðunum. Lilja og Aleksandar eru enn að störfum.

Allir velkomnir!  

Aleksandar Knezevic, Magna Björk Ólafsdóttir og Orri Gunnarsson.