Sendifulltrúar Rauða krossins í Kúrdistan

14. jan. 2015

Nýjustu sendifulltrúar Rauða krossins á Íslandi eru komnir til Ebril, höfuðborgar Kúrdistan í norðurhluta Íraks, þær María Ólafsdóttir heimilislæknir og Hrönn Håkansson hjúkrunarfræðingur. Er þetta fyrsta sendiför Maríu fyrir Rauða krossinn en Hrönn hefur áður starfað á vegum Rauða krossins á Filippseyjum eftir að ofurfellibylurinn Haiyan olli þar gífurlegri eyðileggingu og manntjóni.

Þær María og Hrönn verða í Kúrdistan næstkomandi þrjá mánuði þar sem þær vinna að því að koma á laggirnar færanlegum heilsugæslustöðvum, eða „heilsugæslu á hjólum.“ Starfið fer að mestu fram í flóttamannabúðum í Dohuk-héraði en þar eru um þessar mundir um 800 þúsund flóttamenn. Mikið álag hefur verið á heilbrigðisstarfsfólki á svæðinu vegna flóttamannastraumsins sem liggur til Dohuk bæði frá Sýrlandi og frá héröðum Íraks sem hafa orðið fyrir barðinu á árásum hryðjuverkamanna.

María og Hrönn starfa fyrir Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) og eru miklar vonir bundnar við störf þeirra á næstu mánuðum. Rauði krossinn á Íslandi óskar Maríu og Hrönn farsældar í sendiför sinni. Þær sýna báðar mikla fórnfýsi og hugrekki og eiga þær vafalaust eftir að láta gott af sér leiða við erfiðar aðstæður.