• P-NPL0421

Augnabliksmyndir af vettvangi hjálparstarfs í Nepal

21. maí 2015

Ríkarður Már Pétursson rafiðnfræðingur er sendifulltrúi Rauða krossins í Nepal. Hann sendi þessa frásögn.

Þann 25. apríl s.l. reið jarðskjálfti yfir Nepal að styrkleika 7.8 á Richter. Átta dögum síðar var norska ERUteymið búið að koma upp neyðarsjúkrahúsi á fótboltavelli í Chautara í norðurhluta Nepal. Í neyðarhjálparteyminu frá Noregi eru 35 manns að mér meðtöldum. Að auki vinna um 50 manns af svæðinu við ýmislegt sem tengist þessu verkefni.

Þessi hluti Nepal varð illa úti í fyrrgreindum jarðskjálfta. Talið er að rúmlega 200 þúsund íbúar af um 300.000 íbúum svæðisins séu heimilislausir og rúmlega 2.000 látnir. Rúmum tveimur vikum eftir skjálftann hafði fólk hreiðrað um sig í hálfföllnum húsum og var í óða önn að fóta sig í breyttum veruleika. Verslanir höfðu verið opnaðar aftur og daglegt líf fólks var að komast í fastar skorður. Á sjúkrahúsinu hjá okkur var stöðugur straumur sjúklinga og hvert pláss skipað en um 1000 sjúklingar höfðu þegar verið meðhöndlaðir á þessum tímapunkti.

Þann 12. maí kom síðan eftirskjálfti sem mældist 7.3 stig á Richter. Þá vorum við þrír sendifulltrúar staddir í vinnubúðunum ásamt Saru sem vinnur hjá okkur við uppþvott en hún var einmitt í uppvaskinu er skjálftinn varð. Þegar skjálftinn hófst fannst manni þetta dálítið spennandi. Er hann svo ágerðist, skemmd hús eftir fyrri skjálftann tóku að hrynja til grunna og neyðaróp heyrðust þá gerði maður sér grein fyrir að þetta var alvara. Þetta var afdrifaríkari atburður heldur en ég hef nokkurn tíma upplifað. Saru hrópaði og grét í senn og skalf af örvinglan. Við vissum að hún átti tvö börn heima í einu húsanna sem staðið hafði af sér fyrri skjálftann. Í geymslutjaldinu þar sem ég hef aðstöðu var einn af innfæddu starfsmönnunum okkar. Hann heitir Rasid og sér um að skrá efni og vörur sem koma inn og fara út. Rasid var nýbyrjaður að vinna hjá okkur. Hann er lamaður fyrir neðan mitti vegna lömunarveiki sem hann fékk ungur og styðst við tvær hækjur. Um leið og jarðskjálftinn byrjaði reyndi Rasid að komast á fætur en tókst ekki í hrinunni og hrópaði: ,,Móðir mín, faðir minn, systir mín.“ Hann gerði þá tilraun til að hringja úr farsímanum sínum en það bar engan árangur.

Skjálftinn stóð yfir í tæpa mínútu. Um leið og honum linnti hlupu allir starfmenn út með sjúkrabörur, haka og skóflur til að grafa fólk úr rústunum. Strax eftir hamfarirnar kom slasað fólk á sjúkrahúsið og varð örtröð. Fyrst voru teknir inn þeir sem virtust mest slasaðir. 15 mínútum eftir að skjálftanum lauk var komið með fyrsta líkið sem hafði verið grafið upp úr rústunum.

Þar sem Rasid hafði ekki enn náð sambandi við fjölskyldu sína, vildi hann drífa sig heim en við fengum hann ofan af því og reyndum að róa hann. Að lokum tókst honum samt að ná tali af fólkinu sínu og komst að því að það var óskaddað en húsið þeirra var ónýtt. Rasid svaf í geymslutjaldinu um nóttina.

Daginn eftir komu foreldrar hans og systir til okkar. Systirin reyndist tala þessa fínu ensku og var ráðin á staðnum sem túlkur. Hún vinnur nú hér á næturvakt við að túlka. Bæði systkinin eru í sinni fyrstu launuðu vinnu.

Saru uppþvottastúlka kom daginn eftir til vinnu með átta ára dóttur sína. Bæði börn hennar sluppu ómeidd úr hamförunum en hús fjölskyldunnar hrundi til grunna. Saru gekk til vinnu sinnar brosandi. Hún hafði ekki augun af dóttur sinni en óttinn leyndi sér ekki í augum hennar.

Rauði krossinn minnir á að neyðarsöfnun fyrir Nepal er í fullum gangi. Hægt er að styrkja með því að hringja í símanúmerin 904 1500, 904 2500 og 904 5500. Síðustu fjórir tölustafirnir er gjafaupphæðin sem bætist við næsta símareikning. Einnig er hægt að borga með kreditkorti eða leggja inn á reikning 0342-26-12, kt. 530269-2649. 

Rikardur_Nepal