• 12195778_716177561846478_6363816547382505999_n

Íslenskur sendifulltrúi til Jemen

26. jún. 2015

Páll Biering, dósent í geðhjúkrunarfræði við Háskóla Íslands, er lagður af stað í sendiför til Jemen og Djibútí á vegum Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC). Páll ferðast til hafnarborgarinnar Aden í gegnum Djibútí þar sem hann mun hafa vinnuaðstöðu. Verkefni Páls er að veita sendifulltrúum og starfsfólki Alþjóðaráðsins í Jemen sálrænan stuðning. Auk þess er honum ætlað að meta þörf starfsfólksins fyrir sálfélagaslegan stuðning og setja fram tillögur til að efla slíkt starf.

Hörð átök hafa geisað í Jemen síðan í mars á þessu ári þegar borgarastríð braust út. Í stórborgum á borð við Sana og Aden hafa átökin snert fleiri en deilandi aðila og fjölmargir saklausir borgarar hafa þurft að súpa seyðið af stríðsrekstrinum. Sameinuðu þjóðirnar telja að 2584 manns hafi þegar fallið í átökunum en þar af eru 1362 saklausir borgarar.

Sendifulltrúar Rauða krossins hafa unnið gríðarlegt hjálparstarf við einstaklega erfiðar aðstæður allt frá upphafi átakanna. Páll er þriðji íslenski sendifulltrúinn sem fer til Jemen. Í apríl fóru Elín Jakobína Oddsdóttir skurðhjúkrunarfræðingur og Jón Magnús Kristjánsson bráðalæknir, einnig til Aden.

Er þetta önnur sendiför Páls á vegum Rauða krossins. Árið 2012 vann hann að svipuðum verkefnum í Nígeríu á vegum Alþjóðaráðs Rauða krossins.