Þrír hjúkrunarfræðingar til Íraks

5. okt. 2011

Hólmfríður Garðarsdóttir hjúkrunarfræðingur Rauða kross Íslands hefur hafið störf á vegum Rauða krossins í kúrdahéruðum í Írak. Nú eru þrír íslenskir hjúkrunarfræðingar við störf í landinu. Auk Hólmfríðar eru Áslaug Arnoldsdóttir og Magna Björk Ólafsdóttir við verkefni í Írak á vegum Rauða krossins.

Hólmfríður er einn reynslumesti sendifulltrúi Rauða kross Íslands. Hún hefur meðal annars starfað. á vegum Rauða krossins í Afganistan, Bosníu-Hersegovínu, Tansaníu, Norður-Kóreu, Súdan, Íran, Indónesíu, Mósambík og Malaví. Hún hefur meistaragráðu í lýðheilsu í þróunarlöndum

Meginverkefni Hólmfríðar í Írak verða að fylgjast með frumheilsugæslu á svæðinu ásamt því að heimsækja fangelsi og huga að velferð fanga.

Á síðasta ári heimsóttu starfsmenn Alþjóða Rauða krossins 23.000 fanga í haldi yfirvalda í Írak og 3.500 í haldi stjórnvalda í kúrdahéruðum. Þá hefur Rauði krossinn þjálfað hundruð lækna og hjúkrunarfræðinga í landinu.