Tekist á við malaríu í Sierra Leone

18. ágú. 2006

Hlín er sendifulltrúi í Sierra Leone. Hún tekur þátt í verkefnum kanadíska Rauða krossins sem snýr að forvörnum gegn malaríu.

Sierra Leone er líklega best þekkt fyrir borgarastyrjöld sem lauk ekki alls fyrir löngu. Ein aðferð uppreisnarmannanna var að klæðast sem lögreglu- eða friðargæslumenn og gífurlega hátt hlutfall landsmanna missti útlimi og má þakka fyrir að hafa haldið lífi. Þúsundir voru drepnar fyrir það eitt að vera á röngum stað á röngum tíma.

Þegar loks tókst að semja frið, árið 2002, hófst gríðarlega umfangsmikið uppbyggingarstarf. Þó að það hafi nú staðið í fjögur ár og ótalinn fjöldi hjálparstofnana hafi tekið þátt í því, er enn langt í land.

  Víðast hvar í Sierra Leone eru kjörsvæði fyrir moskítóflugur.

Eins og víðar í Afríku er menntun og heilbrigðismálum mjög ábótavant í Sierra Leone. Í landinu búa yfir 5 milljónir manna, þar af eru 17% börn yngri en fimm ára. Meira en fjórðungur fæddra barna, eða 286 af hverjum þúsund, deyr ungbarnadauða. Þetta er eitthvert hæsta hlutfall í heimi, en í 38,2% dauðsfalla barna yngri en fimm ára, kemur malaría við sögu. 


Ég kom til Freetown Í Sierra Leone í júní síðastliðnum sem fjármálastjóri á vegum kanadíska Rauða krossins. Kanadíski Rauði krossinn styður heilbrigðismálaráðuneyti Sierra Leone, í samstarfi við Barnahjálp SÞ (UNICEF) og Alþjóða heilbrigðismálastofnunina (WHO) en í nóvember nk. hefst herferð gegn mislingum og malaríu á landsvísu. Ætlunin er að bólusetja öll börn yngri en fimm ára gegn mislingum og jafnframt að gefa þeim (þ.e. 875.000 börnum) moskítónet (hámark tvö net fyrir hverja fjölskyldu). Það er kanadíski Rauði krossinn sem gefur netin og sér um dreifingu á þeim, en þau eru keypt fyrir fé frá Þróunarstofnun Kanada. Rauði krossinn í Sierra Leone tekur þátt í verkefninu og yfir 4000 sjálfboðaliðar munu taka þátt í dreifingunni.          

     17% þjóðarinnar eru börn undir 5 ára, en meðalaldur er aðeins 43 ár.

Í landinu verða settar upp 857 dreifingarstöðvar þar sem heilsugæslustarfsfólk og sjálfboðaliðar Rauða krossins sjá um framkvæmdir. Hlutverk mitt sem fjármálastjóra er að sjá um öll fjármál; greiðslu fyrir flutning og dreifingu; að ógleymdu því að hvetja sjálfboðaliðana til dáða. Það sem gerir verkefnið bæði erfitt og athyglisvert er að hér í landi eru samgöngur lélegar og vegir torfærir; til dæmis þarf að dreifa yfir 10.000 netum með bátum; bankaútibú eru fá og oft langt á milli dreifingarstöðva.

Reynsla mín eftir þessar fyrstu vikur í landinu er mjög góð, allt samstarfsfólkið er mjög hæft og jákvætt. Í Freetown er allt það að finna sem þörf er á, þó svo að rafmagn sé af mjög skornum skammti (annan hvern dag milli kl.19 – 07) og þó að júlí og ágúst séu mestu regnmánuðirnir hefur verið alvarlegur vatnsskortur í borginni.

Dreifing moskítónetanna er bara fyrsti hlutinn í baráttunni við sjúkdóminn því malaría er efst á listanum yfir dánarorsök ungbarna, ekki bara í Sierra Leone, heldur flestum Afríkulöndum. Í rauninni er vernd gegn malaríu nokkuð auðveld þar sem vitneskjan um að forðast bit moskítóflugna, verja sig gegn flugunum á næturnar og þekking á einkennum, dugir til að fækka dauðsföllum um þúsundir. Alþjóða Rauða krossinn mun því halda áfram að fjármagna kennslu og upplýsingagjöf til almennings næsta árið með það fyrir augum að draga úr áhrifum og helst koma í veg fyrir þennan ógnvald, einn af mörgum sem hindrar framþróun í þessu landi. 

Freetown 13. ágúst 2006
Hlín Baldvinsdóttir