Fulltrúi Rauða krossins hjá SÞ segir að vopnahlé verði að komast á í Líbanon

Brján Jónasson

3. ágú. 2006

Ísland beiti sér í mannúðarmálum

ÍSLAND ætti að beita sér fyrir aukinni áherslu á mannúðarmál innan öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, nái landið kjöri til tveggja ára tímabundinnar setu í ráðinu á árunum 2009-2010, að sögn eins áheyrnarfulltrúa Rauða krossins innan ráðsins. Hann segir erfitt að meta hvort alþjóðasamfélagið sé að gera nóg í málefnum Líbanons, en vopnahlé verði að koma til svo Rauði krossinn og aðrir geti sinnt mannúðarstörfum á svæðinu.

Michael Schulz hefur fylgst náið með störfum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna undanfarið ár, en hann er fulltrúi í sendinefnd Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans í New York, sendur á vegum Rauða kross Íslands. Hann hefur verið áheyrnarfulltrúi í öryggisráðinu fyrir hönd nefndarinnar.

"Ég held að alþjóðasamfélagið vilji gera meira í málefnum Líbanons en gert er í dag, en spurningin er hvernig það er hægt við þær aðstæður sem uppi eru. Þetta er alltaf spurning um aðgengi. Við verðum að fá aðgengi að fórnarlömbunum og þau að okkur, og í augnablikinu er þetta ekki tryggt. Það eru einhverjar leiðir til að veita mannúðaraðstoð, en það sem raunverulega þarf til er vopnahlé milli stríðandi aðila til að hægt sé að hjálpa þúsundum saklausra borgara að komast frá átakasvæðinu," segir Schulz.

Hann segir margar ástæður geta verið fyrir því að fólk hafi enn ekki getað komið sér burtu frá átakasvæðunum. Fólk sé augljóslega tregt til að yfirgefa heimili sín og skilja aleiguna og framfærslumöguleika eftir. Sumir kjósi að vera um kyrrt, aðrir hafi ekki möguleika á að koma sér í burtu. ?Eins og staðan er í dag er ekki mögulegt að skipuleggja stórfellda fólksflutninga burtu frá átakasvæðunum, til þess þarf vopnahlé," segir Schulz.

"Okkar verkefni er að veita neyðaraðstoð, í Líbanon hefur orðið gríðarleg eyðilegging og um ein milljón manns hefur þurft að yfirgefa heimili sín. Þetta fólk þarf einhvers staðar að vera og nú þegar búið er að leggja stóran hluta innviða samfélagsins í rúst verður að bregðast við. Fólk þarf vatn, mat, hreinlætisaðstöðu og læknisaðstoð," segir Schulz.

"Eftir átök undanfarinna ára og áratuga í Líbanon hafa líbönsk stjórnvöld ekki möguleika á að takast á við þessar hörmungar og verða því að reiða sig á aðstoð hjálparstofnana. Fyrst neyðaraðstoð, en svo aðstoð við uppbyggingu, og jafnvel þróunaraðstoð í kjölfarið."

Í dag vinna bæði Alþjóðaráð Rauða krossins og Rauði krossinn í Líbanon að hjálparstarfi við mjög erfið skilyrði í Líbanon. Þar starfa teymi sjúkraflutningamanna og heilbrigðisstarfsfólks Rauða krossins allan sólarhringinn við að flytja særða á sjúkrahús.

Rauði krossinn í Líbanon rekur 50 heilsugæslustöðvar og tugi sjúkrabíla og hafa þúsundir sjálfboðaliða og starfsmanna lagt sig í lífshættu við að veita neyðaraðstoð, en bæði sjúkrabílar og bílalestir með vistir á vegum Rauða krossins hafa orðið fyrir árásum. Þrátt fyrir þetta hefur tekist að koma aðstoð til nauðstaddra og enn sem komið er hefur enginn starfsmaður eða sjálfboðaliði á vegum Rauða krossins látist eða slasast alvarlega í átökunum, að sögn Schulz.

Mannúðarsjónarmið undir í öryggisráðinu

Það er erfitt að meta hvort alþjóðasamfélagið geri nóg í því að þrýsta á stríðandi aðila í Líbanon til að fá þá til að fallast á vopnahlé, segir Schulz. "Stjórnmálamenn eru á ferð um Mið-Austurlönd og samningafundir fara fram bak við luktar dyr. Ég tel að almenningur skilji hvað er í húfi og beiti stjórnmálamenn þrýstingi. En eins og allir vita er erfitt að þrýsta á stjórnmálamenn, svo það á eftir að koma í ljós hvort öryggisráðið samþykki ályktun um málið í vikunni sem tryggi okkur fullt aðgengi að fólki í neyð."

Schulz segir pólitík og hagsmuni aðildarríkjanna alltaf ráða miklu í starfi SÞ, og þar með í starfi öryggisráðsins.  "Öryggisráðið fjallar fyrst og fremst um átök og öryggismál, og í því samhengi finnst mér mannúðarsjónarmiðum ekki gert nægilega hátt undir höfði. Oft er öryggi gert hærra undir höfði en mannúðarsjónarmiðum, sem er eitthvað sem vonandi breytist ef gerðar verða umbætur á Sameinuðu þjóðunum á næstu árum."

Ísland getur ekki vikist undan ábyrgð

Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að bjóða landið fram til tímabundinnar setu í öryggisráðinu árin 2009 og 2010. Schulz fagnar því frumkvæði og segist afar vongóður um að landið nái kjöri í ráðið. Hann segist vonast til þess að Ísland, í samstarfi við Rauða krossinn, verði eitt þeirra ríkja sem auki áherslu öryggisráðsins á mannúðarmál.

"Sem aðildarríki öryggisráðsins gæti Ísland vakið athygli á mannúðarmálum og þannig aukið sýnileika þessa málaflokks, sem skiptir gríðarlega miklu máli. Ísland hefur sterka stöðu til að vekja máls á því sem úrskeiðis fer í mannúðarmálum í heiminum," segir Schulz. Hann bendir á að íslensk stjórnvöld hafi starfað náið með Rauða krossi Íslands og tekið þátt í baráttu gegn alnæmi, auk þess sem þau hafi beitt sér fyrir mannréttindum, sér í lagi réttindum barna og kvenna.

Schulz segist ekki sjá neinar neikvæðar hliðar á mögulegri setu Íslands í öryggisráðinu. "Jafnvel þó einhverjir sjái einhverja áhættu við setu í öryggisráðinu getur Ísland ekki vikið sér undan ábyrgðinni. Auðvitað þurfi landið að blanda sér í viðkvæm deilumál, en í sífellt minnkandi heimi sé slíkt óhjákvæmilegt. Ekki sé hægt að sitja á hliðarlínunni án þess að taka afstöðu til hnattrænna vandamála eins og stríðsátaka, fátæktar, flóttamannavanda o.fl."

Miklar vangaveltur eru þegar hafnar innan SÞ um mögulegan eftirmann Kofi Annan, sem hefur gegnt embætti framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1997, en síðara tímabili hans í embætti lýkur í lok árs 2006.

Schulz segir það ekki eiga að skipta Rauða krossinn máli hvaða einstaklingur gegni embætti framkvæmdastjóra SÞ. Miklu skipti hins vegar hvernig takist til við umbreytingu á SÞ, öryggisráðinu o.fl., sem nú sé til skoðunar. "Maður verður að vera jákvæður, Sameinuðu þjóðirnar eru einu samtökin sem nær öll ríki heims eiga aðild að og við verðum að reiða okkur á þau til að vinna að friði, upprætingu fátæktar, upprætingu sjúkdóma eins og alnæmis og annarra stórra málefna sem snerta heiminn allan."