800 þúsund leita til Rauða krossins í sárri neyð

Ómar Valdimarsson, Nairobi

4. apr. 2006

 
Móðir og börn í Eþíópíu á heimleið eftir að hafa náð í vatn í vatnsbirgðastöð Rauða krossins.
Það þarf ekki að fara langt frá Naíróbí, höfuðborg Kenýa, til að sjá áhrif þurrkanna sem geisað hafa í stórum hluta Austur-Afríku og stefnt lífi og velferð milljóna manna í hættu.

Þegar tekið er í gegnum þjóðgarðinn í Naíróbí, sem er innan við 10 km frá miðbænum, hættir maður fljótlega að telja dauðu sebrahestana. Það er ekki mikið af dýrum á vappi ? ljónin dvelja í skugganum og fílarnir sjást hvergi á meðan gíraffarnir ganga letilega meðfram vegunum og slóðunum og narta í það sem er þokkalega grænt á litinn.

Öll lönd Austur-Afríku eru í svipaðir stöðu, misslæmri þó, vegna þurrka og uppskerubrests.

Í þessum kofa býr móðir með fjögur börn sín. Hún hefur misst mann sinn og dýr og hefur í engin hús að venda.
Og nú þegar milljónir íbúa Austur-Afríku berjast daglega harðri baráttu fyrir lífi sínu og hungursneyð blasir við, vinna Alþjóða Rauði krossinn og landsfélög að því allan sólarhringinn að óvissa í öflun matvæla breytist í almennan skort með hörmulegum afleiðingum.

Alþjóða Rauði krossinn hefur nú sent út nokkrar beiðnir um fjárstuðning fyrir alls 20 milljónir svissneska franka (um 1,1 milljarð króna) til að geta útvegað mat, vatn og lífsviðurværi fyrir tæplega 800 þúsund manns í þeim fimm löndum sem verst hafa orðið úti ? Kenýa, Rúanda, Tansaníu, Búrúndí og Eþíópíu.

?Þurrkarnir gera stöðu sem þegar er orðin slæm í mörgum löndum enn verri því fátæktin er mikil fyrir auk þess sem átök og ófullnægjandi aðgangur að heilbrigðisþjónustu og hreinlætisaðstöðu hjálpar ekki upp á sakirnar,? segir Steve Penny sem starfar fyrir Alþjóða Rauða krossinn í Austur-Afríku.

Vatn er sjaldgjæf sjón ? en það litla sem til er er ódrykkjarhæft eins og sést í þessum bolla.

Þó að eitthvað hafi rignt í Kenýa síðustu 2-3 vikurnar þegar rigningatíminn gekk í garð er það engan veginn nægjanlegt til að uppskeran verði sú sem hún þarf að vera í júní og júlí. Á meðan halda bændur, hirðingjar og aðrir hópar sem veikir eru fyrir áfram að verða fyrir búsifjum. Þurrkurinn hefur haft mikil áhrif á einstök héruð og margir hafa flutt sig yfir landamæri í leit að mat, vatni, vinnu og heilbrigðisþjónustu.

Í Búrúndí þar sem yfir tvær milljónir manna hafa orðið fyrir einhvers konar skakkaföllum af völdum þurrkanna er regnskortur aðeins hluti af vandanum. Margir sem lögðu á flótta frá landinu vegna stríðsátaka hafa snúið aftur frá flóttamannabúðum í Tansaníu og Kongó. Þetta er það fólk sem Rauði krossinn hefur metið sem svo að þurfi á aðstoð að halda, ásamt fjölskyldum þar sem kona er aðal fyrirvinnan.

Kameldýrin eru þyrst.
Síðasta beiðnin af fimm frá Alþjóða Rauða krossinum vegna neyðaraðstoðar í Austur-Afríku er til stuðnings þessu fólki frá Búrúndí. Takmarkið er að útvega þeim skjól, heilbrigðisþjónustu, vatn, hreinlætisaðstöðu og mat, ásamt því að reyna að styrkja Rauða kross Búrúndí til að fást við mannúðaraðstoð um allt land.

Til að aðstoða við þetta gríðarstóra verkefni hefur verið sett upp miðstöð í Naíróbí sem mun hafa yfirumsjón með allri aðstoð. Þar verður m.a. heilbrigðisaðstoðarhópur, vatns- og hreinlætishópur og aðgerðarstjóri. Þá hefur hópur sérfræðinga lokið við að meta stöðuna í þeim löndum sem hafa orðið verst úti og nýjasta beiðnin um neyðaraðstoð er byggð á vinnu þess hóps ásamt mati stofnana og stjórnvalda og öðrum upplýsingum.