Jólin í Úganda

Áslaugu Arnoldsdóttur

10. jan. 2006

Áslaug Arnoldsdóttir hjúkrunarfræðingur hefur verið í eitt ár í Úganda þar sem hún starfar við heilsugæslu og í flóttamannabúðum á vegum Alþjóðaráðs Rauða krossins. Hún skrifar um reynslu sína af að halda jólin í Úganda með öðrum hjálparstarfsmönnum sem koma frá öllum heimshornum.

Jólin komu líka til Úganda þó stemningin hafi verið önnur en ég er von. Einstaka kaupmenn í Gulu voru með jólaskraut á boðstólum, en annars var ekki margt sem minnti á jólin á aðventunni. Hér er nú heitasti tími ársins enda erum við öfugu megin við miðbaug og börn í sumarfríi.

Á Þorláksmessu var jólaboð Alþjóða Rauða krossins með innlendu starfsfólki. Við ákváðum að vera með happadrætti með jafn mörgum vinningum og starfsfólkið er svo allir fengju nú eitthvað. Ég eyddi heilum vinnudegi í að pakka inn vinningunum, með DO NOT ENTER skilti á hurðinni, allt voðalega leyndardómsfullt. Starfsmenn mínir gerðu sér upp alls kyns erindi til að koma og tala við mig til að fá að berja dýrðina augum.

Inn um gluggann heyrði ég í geitinni sem átti að slátra þá um kvöldið. Þegar til koma gat ég ekki hugsað mér að borða kjötið.

Vikuna fyrir jól fór yfirmaður minn hér til höfuðborgarinnar, Kampala, á fund og var sendur með langan innkaupalista fyrir jólavarningi. Hann kom til baka á aðfangadag með kynstrin öll af mat og nú var hægt að fara að hlakka til jólanna.

Á aðfangadag ?leit ég við? á hinum ýmsu heimilum í Reykjavík til að kanna jólastemninguna. Ég fann næstum rjúpnalyktina alla leiðina hingað til Gulu í gegn um símann og ég tók loforð af fjölskyldunni að geyma allavega eina handa mér. Jólastemningin náði hámarki þegar ég sá nágranna minn rogast heim með runna sem hann hafði slitið upp með rótum. Hann sagði mér að þetta væri jólatréð hans og yrði skreytt með klósettpappír og bómull og sagði mér stoltur að hann hefði komist yfir nokkrar blöðrur sem hann ætlaði að hafa á trénu.

Ég og Grace (húshjálpin okkar) tókum svo til í húsinu enda tiltekt fastur liður í mínum jólaundirbúningi hvar sem ég er í heiminum?. Hún Grace blessunin er örugglega latasta manneskja sem ég þekki og svo át hún næstum allar piparkökurnar sem mér höfðu verið sendar alla leiðina frá Íslandi en þar sem jólin eru tími fyrirgefningar?.

Á aðfangadagskvöld var veisla hjá Læknum án landamæra (MFS). Þar voru fyrir allra þjóða kvikindi, fólk sem heldur upp á aðfangadag og fólk sem heldur upp á jóladag. Það var því frekar skrýtin stemning en á endanum varð úr hið fínasta partý.

Svo var það jóladagur. Það er aðaldagurinn hér í Úganda sem var til skamms tíma bresk nýlenda og hafa tekið upp marga siði þaðan. Ég á fætur klukkan 8 til að ná í kalkúninn sem átti að elda. Hann hafði látist daginn áður og var geymdur á skrifstofunni. Fór bara á náttfötunum. Það var skrýtið að keyra um Gulu bæ, allir í sínu fínasta pússi á leiðinni  frá kirkju. Fólk leiddi á eftir sér geitur eða var með hænsni á bögglaberanum, eflaust jólamáltíðin.

Svo var hafist handa við að elda. Á okkar heimili eldar húsfélagi minn 80%af tímanum, svo förum við inn á milli út að borða eða ég hendi pasta í pott. Verkaskiptingin um jólin var önnur enda uppskriftir allar komnar frá Íslandi, þökk sé móður minni, svo ég var settí eldamennskuna.

Þegar fuglinn var kominn inn í ofninn var kominn tími til að skreyta tréð (metershátt plastjólatré) með íslenskri seríu og afrísku skrauti og svo voru pakkar opnaðir með kollegum. Pakkarnir sem við gáfum hvort öðru voru hryllilega fyndnir enda allir keyptir í sömu búðinni, þeirri einu sem selur ?gjafavöru? hér í Gulu.

Um eittleytið fóru gestirnir okkar að koma, ég sveitt að gera fyllingu og baða fuglinn á hálftíma fresti (á þeim tímapunkti hafði húsfélagi minn, kokkurinn ákveðið að taka að sér grænmetið, sá að ég var ekki alveg að höndla þetta). Hvað um það, maturinn var góður, vínið rann ljúflega niður og félagsskapurinn frábær. Seinna um daginn komu fleiri gestir, farið í leiki, sem ég auðvitað tapaði í, og svo var 101 Reykjavík sýnd sem jólamyndin í ár. Það er lítið jólalegt við myndina þó hluti hennar gerist á jólunum en fólk skemmti sér hið besta og nú vilja allir koma til Íslands.

Annan jóladag ætlaði ég að hafa það rólegt og lesa Arnald (sem ég fékk frá Rauða krossi Íslands) og borða kaldan kalkún. Því miður tók herinn upp á þeim óskunda að skjóta á óbreytta borgara og því varð ég að fara í sjúkraflutninga á 15 manns frá flóttamannabúðum í um klukkutíma fjarlægð frá Gulu. Hér er engin sjúkrabílaþjónusta svo þetta er eina leiðin að koma svo mörgum á sjúkrahús í einu. Ekki beint jólalegt en svona er nú lífið hér stundum. Um jólin er neysla áfengis mikil og samband íbúa flóttamannabúðanna við herinn ekki alltaf gott. Áfengi og byssur fara aldrei vel saman og því gerast svona hlutir stundum.

Svona voru jólin mín í Úganda árið 2005.