Pakistan - lífsauðs gætt í grjótinu

Sólveigu Ólafsdóttur í Balakot

15. nóv. 2005

Um 80% íbúa Balakot fórust í jarðskjálftunum. Þar og í næstu þorpum í fjallahéraðinu er næstum ekkert eftir.
Sólveig Ólafsdóttir fjölmiðlafræðingur er sendifulltrúi í Pakistan. Hún vinnur sem upplýsingafulltrúi Alþjóða Rauða krossins.


Það er lítið eftir af hinum iðandi bæ Balakot - staður sem er vel þekktur meðal göngumanna og ferðamanna. Staðurinn er við botn dalsins Kaghan og umlukinn indverska fjallgarðinum Kush. Balakot og þorpin í nágrenninu voru nánast lögð í rúst í jarðskjálftanum 8. október. Talið er að um 80% þeirra 35 þúsund manna sem bjuggu í þorpinu hafi farist. Flest þorpin í fjöllunum fyrir ofan þorpið voru einnig jöfnuð við jörðu.

Samfélagið í kringum dalinn lifir í erfiðu umhverfi þar sem harðneskjulegt fjallaloftslagið ræður ríkjum. Fólkið er vant því að lifa við erfið skilyrði en þarf meira en þrautseigjuna eina til að lifa af nú og til langframa. Rauða kross hreyfingin reynir að hjálpa þessu fólki til að lifa veturinn af. Í þeim þorpum sem hæst liggja getur frostið farið niður í 15 gráður í nóvember og því skiptir miklu máli að grípa til viðeigandi ráðstafana sem fyrst.

?Það leikur enginn vafi á því að þetta er ein flóknasta hjálparaðgerðin sem ráðist hefur verið í. Það sem við höfum gert hefur leyst mörg vandamál sem stafa af slæmu veðri, aurskriðum, eftirskjálftum og erfiðu loftslagi en þessi vandamál verða stærri þegar veturinn gengur í garð,? segir Markku Niskala aðalritari Alþjóða Rauða krossins en hann hefur heimsótt svæðið sem varð fyrir áhrifum jarðskjálftans í Pakistan. ?Ég hvet einstaklinga og stjórnvöld um allan heim til að styðja okkur í þessari vinnu.?

Það er erfitt verkefni framundan. Alþjóða Rauði krossinn hefur beðið um jafnvirði ríflega sjö milljarða króna til að aðstoða um 570 þúsund fórnarlömb skjálftans en aðeins hefur náðst að afla tæplega helming þessarar upphæðar. Þrátt fyrir það og slæm veðurskilyrði hefur verið settur aukinn kraftur í dreifingu hjálpargagna. Það hefur kallað á nýjar og óhefðbundnar aðgerðir að koma tjöldum, teppum og ábreiðum til fórnarlambanna.

Alþjóða Rauði krossinn hefur m.a. flutt hjálparlið með þyrlum til einangraðra þorpa og litlir jeppar, múldýr og stundum fólk hefur verið nýtt til að bera hjálpargögn upp fjöllin til afskekktra þorpa. Þessir jeppar hafa verið notaðir í allt að 30 ferðir á dag til að við náum því markmiði að dreifa allt að 250 tjöldum og ábreiðum frá hverri dreifingarstöð. Þar hefur sérstakt hjálparlið frá Suður- og Suðaustur-Asíu verið mjög virkt og náðst hefur til allt að 30 þúsund manns í hverri viku.

Siddique Muhammad beið í tvær vikur meðan vegir voru opnaður og hjálparlið frá Rauða krossinum komst í hið einangraða þorp Hangrai, sem er ofarlega í dalnum Kaghan. Biðin hafði verið löng fyrir hann þar sem kona hans og fjórir synir hafa aðeins haft ábreiður og plastlök sem skjól fyrir kuldanum. Heimili hans eyðilagðist gjörsamlega rétt eins og önnur hús í Hangrai. Um 150 manns fórstu í þessu litla samfélagi þar sem aðeins búa nokkur þúsund manns. ?Allt eyðilagðist í einu vetfangi,? segir Siddique þegar hann er spurður út í jarðskjálftann. „Maður heyrði fólk gráta allan daginn. Svo fór að rigna um kvöldið. Þetta var hræðilegt."

Eftir að hafa með erfiðismunum borið tjaldið frá dreifingarmiðstöð Rauða krossins í Jabra upp fjallið að staðnum þar sem húsið hans stóð er ekki beðið boðanna. Með aðstoð vina og fjölskyldunnar kemur Siddique upp tjaldinu við hliðina á rústunum af húsi sínu. Undir grjóthruninu liggja persónulegir munir hans og hann vill bjarga eins miklu og hægt er meðan veður leyfir. Framtíðin er enn ótrygg.

„Ef veður leyfir verðum við hér uppi. Ef það verður of kalt verður við að flytja okkur neðar í dalinn ? til Balakot eða annarra nágrannabæja," segir hann. Það sem hann vill þó mest af öllu er að vera sem næst þeim stað þar sem lífsauður hans liggur grafinn.