Ekki fyrir ferðamenn

Áslaugu Arnoldsdóttur

7. okt. 2005

Áslaug Arnoldsdóttir hjúkrunarfræðingur hefur starfað sem sendifulltrúi í norðurhluta Úganda frá því í janúar sl. og verður þar í eitt ár. Hún starfar við heilsugæslu og í flóttamannabúðum á vegum Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC).

Þegar ég frétti að ég ætti að fara til starfa fyrir Alþjóða Rauða krossinn í Norður- Úganda, nánar tiltekið til Gulu, var ég fljót að setja bók um Úganda á óskalistann minn fyrir síðustu jól. Skyldurækin fjölskylda varð að ósk minni og á aðfangadagskvöld las ég eftirfarandi klausu um mitt nýja heimili. ?Á meðan stríðið í norðanverðu Úganda stendur yfir er engin ástæða fyrir ferðamenn til að fara til Gulu. Það eru hinsvegar margar ástæður til að fara ekki þangað.?

Concy Lamwaka með dóttur sinni. Fjölskyldan var neydd til að flytja í Rackoko flóttamannabúðirnar þegar Andspyurnuher Drottins réðist á þorpið þeirra.

?Ég hef aldrei áður séð aðra eins gommu af reiðhjólum?. Þessar laglínur Stuðmanna var eitt af því fyrsta sem ég fór í gegnum huga minn þegar ég kom til Gulu í janúar, því þarfasti þjónninn hér er án efa reiðhjólið. Það er til dæmis notað til sjúkraflutninga og er þá kerra fest aftan við hjólið sem sjúklingurinn! liggur í. Oft þarf að hjóla marga kílómetra á næstu heilsugæslustöð eða sjúkrahús.

Leigu?hjól? eða Boda Boda eins og það kallast hér sjá um almenningssamgöngur. Samkeppnin er hörð og margir hafa sett mjúkt sæti á bögglaberann til þægindaauka fyrir viðskiptavininn. Þeir allra framsæknustu hafa skilti á hjólinu til að gefa til kynna þá þjónustu sem er í boði. ?Gulu hraðferð? eða ?Sestu við þjótum af stað,? eru algeng slagorð sem notuð eru til að lokka viðskiptavini.

Barn í mislingasprautu.
Átökin í norðurhluta Úganda hafa varað í 19 ár. Skæruliðar í svokölluðum Andspyrnuher Drottins, sem hafa það markmið eitt að landinu sé stjórnað eftir boðorðunum 10, berjast á móti stjórnarher Úganda. ?Ég skil ekki ennþá um hvað stríðið snýst,? sagði innlendur kollegi minn við mig. Ég skil það ekki heldur en afleiðingarnar eru ógnvænlegar og fara ekki framhjá neinum sem fer um svæðið.

Talið er að um 1.6 milljón manna eða um 90% íbúanna búi nú í um 100 flóttamannabúðum víðsvegar um norðurhluta landsins við ömurlegar aðstæður. Heilsugæsla er í molum og í mörgum búðanna eru engir skólar. Langflestir íbúanna eru atvinnulausir og af öryggisástæðum er næstum ekkert land ræktað nema innan viss radíus frá búðunum. Dánartíðni er há, sjúkdómar eins og eyðni, berklar og malaría taka sinn toll daglega.

Frá klukkan fimm á daginn til níu á morgnana fær enginn að ferðast utan flóttamannabúðanna nema herinn, sama þó um neyðartilfelli sé að ræða. ?Verði einhver veikur er eins gott að hann verði það á milli níu og fimm,? sagði við mig kona í einum búðanna þar sem engin heilsugæsla er. ?Annars deyr fólk bara.? Það er talið að meðalaldur karla hér í norðurhluta landsins sé 39 ár en kvenna 41 ár.

Sjálfboðaliði frá Ghana hughreystir börnin áður en þau fara í bólusetningu.

Alþjóða Rauði krossinn vinnur að uppbyggingu heilsugæslu í 10 flóttamannabúðum hér í norðurhluta landsins, nánar tiltekið í Gulu og Pader. Eitt af stóru verkefnunum er að fyrirbyggja malaríusmit. Við dreifum moskítónetum til almennings og veitum fræðslu um notkun þeirra og um einkenni og smitleiðir sjúkdómsins.

Við fræðum almenning um meðferð vatns og um mikilvægi hreinlætis því mikil hætta er á Kólerufaraldri ef ekkert er að gert. Sníkjudýr í meltingarvegi eru algeng hér og því höfum við skipulagt ormahreinsun í meltingarfærum barna.

Rauði krossinn heldur námskeið í skyndihjálp fyrir heilbrigðisstarfsfólk og kennir því um notkun lyfja og um meðferðir við algengum sjúkdómum. Við dreifum líka lyfjum og hjúkrunarvörum til þeirra þriggja sjúkrahúsa sem starfrækt eru á svæðinu. Skurðlæknar Rauða krossins starfa hér líka og sinna særðum og sjúkum ásamt því að leiðbeina innlendum læknum um meðferð sjúklinganna.

Fyrir íslenskan gjörgæsluhjúkrunarfræðing ganga hlutirnir stundum hægt fyrir sig. Það er ekki hægt að koma bara á staðinn og hefjast handa því fyrst þarf að setjast niður undir eitthverju mangótré og ræða málin við fyrirmenn í búðunum.

Það eru pínulítil óþægindi að fá mislingasprautu en hún er vörn út lífið.
Þetta hefur þó sinn sjarma og oft gott að vera einhvers staðar þar sem tempóið er hægara en á Íslandi. Börnin koma líka og skoða mig úr fjarlægð. Þau eru hrædd við þessa skrýtnu konu með ljósa hárið, en forvitnin er hræðslunni yfirsterkari og oftar en ekki hafa margar litlar hendur farið um hár mitt áður en fundi undir mangótré lýkur.

Það er rétt sem stendur í bókinni um Úganda sem ég las um síðustu jól; fyrir hinn almenna bakpokaferðalang er engin ástæða til að fara til Gulu. Fyrir alþjóðlegar hjálparstofnanir eins og Rauða krossinn eru þær hinsvegar margar. Þó þetta allt of langa stríð sé ekki á forsíðum dagblaða heimsins er það engu að síður veruleiki.

Fólk hér vonast eftir að friður komist á sem fyrst þó tilfinningar séu blendnar. ?Tíminn eftir að stríðinu lýkur verður líka erfiður, alla vega fyrst um sinn? segir fyrrnefndur kollegi minn mér. Þá munu allir reyna að komast heim til sín á ný en hver veit hvað bíður þeirra þar? Aðeins tíminn getur sagt til um það og af honum hafa norðanmenn í Úganda nóg.


Myndirnar sem fylgja eru teknar af vef Alþjóða Rauða krossins. 
Hægt er að lesa meira um starf Rauða krossins á vefnum.