Eftir mánuð í Indónesíu

Sigurður Ingi Pálsson.

13. sep. 2005

Sigurður Ingi Pálsson kerfisfræðingur fór til Banda Aech í Indónesíu í júlí 2005 þar sem hann mun starfa í sex mánuði við umsjón tölvu- og fjarskiptamála. Hann skrifaði pistil eftir mánaðarvinnu á svæðinu.

Nú er liðinn rétt tæpur mánuður síðan ég kom til Indónesíu og ég ætla að reyna að taka saman helstu atburði.

Í Banda Aceh er miðstöð aðgerða Rauða krossins fyrir flóðasvæðin í Indónesíu sem eru að mestu leyti í Ache héraði sem er það nyrsta á eyjunni Súmötru. Eins eru flóða- og áfallasvæði á ýmsum eyjum vestur af Súmötru, t.d. á eyjunni Nias sem fór afar illa í jarskjálftunum 26.des 2004 og 28. mars 2005. Þótt ótrúlegt sé þá urðu nánast engin flóð á Nias, sem er örstutt frá uptökum skjálftanna, en hins vegar lyftist eyjan um 1,5 til 2 metra á sumum svæðum á vesturströndinni og fór sem því nemur niður á austurströndinni. Þetta hefur hræðileg áhrif á öll mannvirki nærri strandlínunni. Hafnir eru ýmist á kafi eða standa á þurru!

Ég starfa fyrir Federation (International Federation of Red Cross and Red Crescent Societies eða IFRC) sem IT / Telecom delegate (Information Technology and Telecom). Okkar hlutverk (Federation) er að styðja við bæði indónesíska Rauða krossinn annars vegar en hins vegar að styðja öll þau landsfélög Rauða krossins sem starfa á svæðinu. T.d. þá eru Bandaríkin með tugi sendifullrúa hér á svæðinu, UK með tugi, Þjóðverjar, Japanir, Ástralir ásamt tugum annara landsfélaga Rauða krossins. Federation sér um samhæfingu aðgerða allra félaganna, samninga og samvinnu við stjórnvöld (sem hefur reynst það allra, allra erfiðasta hingað til), útvegar landsfélögum skrifstofuaðstöðu með öllu tilheyrandi og margt, margt fleira. Mín deild (IT Telecom) sér um allar talstöðvar í Aceh héraði (þar sem Federation starfar, sem eru c.a. 10 staðir), öll tölvunet, prentara, internet tengingar og það sem því við kemur, uppsetningar á tölvum, talstöðvum, gerfihnattasímum ofl. sem og inkaup á öllu skíttinu. Viðhald og umsjón á hugbúnaði netþjóna og útstöðva. Allt þetta og meira til á c.a. 10 stöðum í Aceh héraði. Við erum 2 sendifulltrúar og einn aðstoðarmaður. Deildarstjóri (coordinator) er væntanlegur um miðjan mánuðinn. Við erum, líkt og allir aðrir starfsmenn Federation (c.a. 32 í Banda Aceh) gersamlega ofhlaðnir verkefnum.

Nú verður stiklað á stóru. Ég kom 10. júlí til Jakarta og dagin eftir flaug ég til Banda Aceh um Medan. Tveimur dögum seinna var ég sendur um Medan til Meulaboh (á vesturströnd Aceh héraðs) til þess að fást við bilaða Internettengingu um gerfihnött. Danski Rauði krossinn rekur þar massívar tjaldbúðir (base camp). Gisti þar í 5 nætur í tjaldi rétt við frumskóginn sem virðist fyrst vakna til lífsins þegar rökkvar! Þá fór ég aftur til baka. 5 dögum síðar var ég sendur til Nias þar sem Federation rekur tjaldbúðir í Binaka nærri Gunungsitoli. Aftur internet vandræði um gerfihnött ásamt öðru smávægilegu. Tvo daga í Binaka í tjaldi en síðan suður til Teluk Delam á suðurodda Nias þar sem ég var í tvo daga. Annan daginn tók ég frí og fór með nokkrum sendifulltrúum á baðströnd. 3 frá spænska RK, 1 frá belgíska, 1 hollenska, 4 infæddir og 4 danir sem voru að taka upp heimildarmynd fyrir einkafyrirtæki. 45 mín akstur yfir á vesturströndina og þvílík strönd! Beint úr ferðabæklingi eða æfintýri. Aldrei séð annað eins! Og ekki sála á 2 km langri ströndinni. Grilluðum fisk og humar, ferskur ananas og bananar í eftirrétt. Mmmmmmm!

Daginn eftir hófst 6 tíma ferðalag til baka til Banda Aceh. 3 1/2 tími akstur til Binaka, 1 klst. flug með Susi Air (lítil 15 sæta Cesna 208 sem Federation legir) til Medan og með þotu til BA (50 mín). Í raun tók þetta 10 tíma.

Undanfarna daga hef ég verið að reyna að koma mér fyrir og taka upp úr töskum enda hafði ég tæpast tíma til þess fyrr en nú! Ég hef verið að kynnast mannskapnum, bæði sendifulltrúum og infæddum starfsmönnum. Einn þeirra, Bushra, bauð mér í gær með á mótorhjólinu niður að strönd til að veiða. Á leiðinni fórum við í gegn um gereyðilagt svæði, margra kílómetra breitt og 1000 m til 1500 m inn í land, þar sem aðeins sést stöku hús á stangli innan um grunna þar sem áður voru hús! Það er engin leið að koma þessu inn í hausinn á mér. Ég bara gapi. Veiðiferðin var þó stórfín og við veiddum tvö smá kvikindi.

Síðan ég kom hef ég verið að spyrja menn hvar og hvernig ég geti spilað badminton en það hefur reynst erfitt. Í vikunni hljóp þó snuðra á þráðinn þegar ég frétti af hóp sendifulltrúa og indónesa (4 - 6) sem eru að spila. Miðlungs spilarar (jafnvel slakir) en ég var að vonast til að komast í sterkan hóp þar sem Indónesar eru jú þektir fyrir styrk sinn þegar það kemur að Badminton. Það á þó sennilega helst við á eyjunni Java þar sem fjöldinn er. Hvað um það, ég var hinn ánægðasti og heimsótti einn þessara spilara. Fínt, ekkert mál mættu kl. 19:00 á morgun, laugardag í hús sem kallað er P.U. Ég tók upp kort og bað um kross til staðsetningar. Til öryggis ákvað ég að fara í björtu og finna húsið því það er komið myrkur kl. sjö á kvöldin. Fann húsið sem rúmar nákvæmlega einn völl, seinsteypt gólf, hátt til lofts, sæmileg lýsing, engin loftkæling og 30 - 34°C hiti, takk fyrir!! Leit inn og sagði hæ. Bara Indónesar að spila. Blessaður, viltu spila? Ertu þokkalegur? Við verðum hér næstu þrjá tímana, vertu með! Held það nú, sótti draslið og byrjaði að spila. Allir eldri en ég og fáir á mínum aldri. C.a. 12-16 að spila svo að ég spila einn leik en bíð í tvo eftir næsta leik. Þetta eru hörku jaxlar og ég smellpassa inn í hópinn, sumir eru sterkari en ég en aðrir slakari. Við spilum þrisvar í viku og mættu bara. Fínt! Nú er ég búinn að spila tvisvar, á föstudaginn og nú í morgun sunnudag. Ég hef aldrei svitnað eins mikið á eins skömmum tíma á æfinni!! Ég drakk 3,5 til 4 lítra af vatni í morgun! Var aldrei uppþemdur af þessari drykkju og fanst ég hreinlega þjást af vökvaskorti. Meira að segja 30 mínutum eftir leik runnu svitataumar niður skrokkin á mér. Er ekki full mikil bjartsýni að búast við því að ég geti ?vanist" þessu??

Nú eftir heilan mánuð er ég rétt að venjast loftslaginu, svona dags daglega, en að keppa í 33°C hita og hitabeltisraka! Það verður athygglisvert að sjá hvernig gengur. Auðvitað spila ég áfram, hvað heldur þú!! Svo lengi sem ég verð ekki á ferðinni starfsins vegna.

Ég bý í einbýlishúsi með 3 öðrum sendifulltrúum. Morten er norskur bifvélavirki 2 metrar á hæð, hægverskur, fámáll en léttlyndur. Jenett sem er sænsk, óárennileg, kerfisbundin, ferköntuð með stóran DMZ radíus (DeMiliterized Zone), en almennileg þrátt fyrir allt og starfar við fræðslu í WatSan (Water Sanitazion). Loks Andreas sem er austurrískur umsjónarmaður bílaflotans hér, almennilegur náungi sem er að fást við vandræði í einkalífinu, framhjáhald með dömu sem var hér í húsinu og fór um það leiti sem ég kom. Nokkrum dögum seinna mætti eiginkonan frá Austurríki til að ?redda málunum" og bjó hér í nokkra daga. Svolítið skrýtið, satt best að segja. Virðist þó ætla að ganga, hann er nú í tvær vikur í Austurríki og kemur til baka með eiginkonuna og börn. Þau munu búa í Medan þar sem ekki fæst leyfi fyrir þau til búsetu í Aceh héraði þar sem hér ríkir jú minniháttar borgarastríð. Hann flýgur síðan á milli um helgar, held ég. Flestir þeir sem hér eru (Federation eða landsfélaga sendifulltrúar) hafa gert 6 mánaða ráðningarsamning, sumir 3 mánuði eða skemur en fáir heilt ár eða lengra. Sumir framlengja áður en samningi lýkur.

Ætli ég láti þetta ekki duga í bili. Hugmyndin er síðan að nota þennan vef sem blogg vef og skrá pistla reglulega þegar er er að fást við hlutina vonandi ekki með meira en viku millibili.

Skrifað 8. ágúst 2005