Póstkort frá Hófi í Banda Aceh

Hólmfríði Garðarsdóttur

21. mar. 2005

Hólmfríður Garðarsdóttir ljósmóðir er sendifulltrúi í Banda Aceh

Hólmfríður að störfum í tjaldsjúkrahúsinu
Frá því í byrjun febrúar hef ég notið þeirra forréttinda að starfa í tjaldsjúkrahúsi Rauða krossins í Banda Aceh á Sumötru. Við veitum þjónustu til íbúa héraðsins sem flestir eru fórnarlömb flóðanna sem urðu í lok desember. Ég starfa sem ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur á kvennadeildinni þar sem tekið er á móti barnshafandi konum sem koma í mæðraeftirlit eða til að fæða. Þær dvelja síðan eftir fæðinguna til að jafna sig.

Konurnar koma víða að. Til dæmis kom hingað ung kona að fæða sitt fyrsta barn og þurfti hún að ferðast sjóleiðis í þrjár klukkustundir og síðan langan veg í bíl. Hún var með hríðar og fæddi myndarstrák. Hún kemur til með að dvelja hjá okkur í nokkra daga þar til þau eru tilbúin að fara aftur heim á leið í ferðalagið langa.

Hér kom kona sem var líka að fæða sitt fyrst barn. Hún gifti sig í maí á síðasta ári en eignmaðurinn fórst í flóðunum ásamt foreldrum sínum og systkinum. Hún kom með móður sinni sem var hennar stoð og stytta þá viku sem hún dvaldi hér. Í heiminn kom heilbrigður drengur sem ber nafn látins föður.

Hólmfríður eignaðist nöfnur og nafna. Þessi unga stúlka ber nafnið Natassa Hofi.
Það kom ung kona sem missti manninn sinn og eina barn þeirra í flóðunum. Hún fæddi dóttur með keisaraskurði. Konan var kvíðin, þreytt og döpur en á þriðja degi eftir fæðinguna kom brosið og vonin um framtíð til að takast á við með dótturinni.

Það er þrátt fyrir allt stutt í brosin og litlu krílin láta í sér heyra og vilja sitt dag og nótt. Hitinn er mikill en það er engin lognmolla yfir deildinni, vinir og fjölskylda koma í heimsókn og stundum er fullt út úr dyrum. Ég hef hlotið þann heiður að eignast nöfnur og nafna í þessu fjarlæga landi og er mjög stolt yfir því. Sjaldan hef ég upplifað jafn mikið þakklæti og einlægni og frá konunum í Aceh.

Aðstoðin sem Rauði krossinn veitir hér skiptir máli, við reynum að taka vel á móti fólki og veita bestu mögulega þjónustu við frumstæðar aðstæður og það er góð tilfinning að upplifa hversu vel aðstoðin er þegin.