Skelfingin býr enn í hjörtum þeirra sem eftir lifa

Hlé Guðjónsson

28. jan. 2005

Hlér Guðjónsson er sendifulltrúi Rauða kross Íslands í Sri Lanka.

Börn njóta umönnunar á neyðarsjúkrahúsi Finnska Rauða krossins í Komari.
Höfuðstöðvar Alþjóðasambands Rauða krossins í Sri Lanka eru í Colombo, höfuðborg Sri Lanka. Sífelldur straumur flugvéla lendir á flugvellinum dag hvern með hundruð tonna af hjálpargögnum innanborðs. Þeir sendifulltrúar sem sjá um að taka á móti varningnum og koma honum í vöruhús og áfram á hamfarasvæðin, njóta engrar hvíldar, enda leyfa aðstæður fórnarlamba hamfaranna enga bið. Lítil neyðarteymi fara á þá staði þar sem neyðin er mest til að reyna að gera sér skýra grein fyrir þörfum fólksins. Í hitamollunni á skrifstofu stjórnstöðvar vinna nokkrir sendifulltrúar langt fram á kvöld að stjórnun og samhæfingu aðgerða, svara fyrirspurnum og gefa skýrslur um framgang mála.

Í miðbæ Colombo á vesturströnd eyjarinnar er fátt sem bendir til þess að mestu náttúruhamfarir í sögu landsins hafi nýlega átt sér stað, enda skall flóðbylgjan af mestum krafti á austurströnd Sri Lanka. Það er ys og þys í bænum, bílarnir flauta og reyna að brjóta sér leið í umferðinni meðan fólkið flýtir sér í vinnuna eins og ekkert hafi í skorist.

Þegar komið er á verstu hamfarasvæðin blasir við allt annar veruleiki. Á svæði sem nær hér um bil kílómetra inn í land meðfram allri suður-, norður- og austurhlið Sri Lanka er ástandið skelfilegra en orð fá lýst. Þessi strönd er nú þakin rústum gistihúsa og heimila fiskimanna. Flóðbylgjan fór víða kílómetra eða lengra inn í land og eyðilagði allt sem á vegi hennar varð. Það munu líða mörg ár áður en búið verður að hreinsa til og endurreisa byggðina. 

Um leið má sjá græna skóga teygja sig inn í landið upp um fjöll og hæðir eins langt og augað eygir. Kirkjur og fagurlega skreytt Búddamusteri standa enn eins og þau hafa gert um hundruð eða þúsund ára í öruggri fjarlægð frá hafinu.           

Neyðarsjúkrahús Franska Rauðakrossins í Pottuvil.
En meðal rústanna af því sem áður var rómuð Paradís ferðamanna sitja heimilislausar fjölskyldur í vegköntum og vita ekki hvað þær eiga til bragðs að taka. Sumir kveikja í því sem eftir er af húsum þeirra til að losna við ónýtt spýtnabrakið og horfa á eldana með tárin í augunum. Aðrir teygja hendur sínar til himins í örvæntingarfullri von um hjálp. Snúnir járnbrautarteinar og brotnar brýr segja það sem segja þarf um eyðileggingarmátt flóðbylgjunnar.

Margt af fólkinu hefst við í musterum, kirkjum og skólum. Starfsmenn Alþjóða Rauða krossins hafa komið fyrir stórum dælum og tönkum til að sjá því fyrir hreinu drykkjarvatni. Þeir hafa einnig dreift matvælum og öðrum hjálpargögnum, en Rauði krossinn og aðrar hjálparstofnanir eiga ennþá gífurlegt starf fyrir höndum.

?Við komum hingað með Alþjóðaráði Rauða krossins til að hjálpa fólkinu hérna?, segir Rukshan, ungur sjálfboðaliði frá Rauða krossi Sri Lanka. ?Við reynum það sem við getum til að hafa uppi á týndu fólki og stundum ber leitin árangur.? Hann er með klút bundinn fyrir vit sér.

Þegar myrkrið hvelfist yfir rústirnar verður rotnunarþefurinn á ströndinni næstum því óbærilegur. Líkin af hundruðum manna eru enn grafin undir spýtnabrakinu og gefa frá sér yfirþyrmandi daun. Skuggana af skipum og bátum sem öldurnar hafa kastað langt inn í land  ber enn við stjörnubjartan himinn. Enginn veit hver hafa orðið örlög eigendanna.

Sumt af fólkinu reynir að koma sér fyrir í rústunum af húsum sínum. Það hlustar á sjávarniðinn í myrkrinu og það fer skelfingarhrollur um marga þegar óvenju háværar öldur skella á ströndinni. Óttinn við hafið á eftir að sitja í hjörtum bæjarbúa um langa hríð. 

Til að lesa skýrslur og fréttir af hamförunum í Sri Lanka sjá eftirfarandi vefi:
www.ifrc.org
www.lk.undp.org/ndmc/