Lífið í Banda Aceh þremur vikum eftir flóðin

Robin Bovey í Aceh, Indónesíu

24. jan. 2005

Robin Bovey er sendifulltrúi í Banda Aceh Indónesíu.

Með hjálp Alþjóða Rauða krossins var þessi litli drengur, Farizal Bin Saruuanm, sameinaður fjölskyldu sinni á ný. 
Það er mjög erfitt að ímynda sér hvernig fólki líður í dag í Banda Aceh, í norðurhluta Aceh-héraðs í Indónesíu. Bærinn var aðeins 400 kílómetrum frá miðju jarðskjálftans sem orsakaði flóðbylgjuna. Um helgina var Idul Adha ? mikilvægur íslamskur frídagur hér í Aceh sem fjölskyldur halda yfirleitt upp á saman. Í staðinn eru þessar sömu fjölskyldur að horfast í augu við þá staðreynd að höggvin hafa verið skörð í nánast allar fjölskyldur bæjarins. Eins ótrúlegt og það hljómar þá er það engu að síður staðreynd að af 224 þúsund íbúum bæjarins (sem er nálægt íbúafjölda Íslendinga), er yfir 72 þúsund enn saknað og eru þeir nánast örugglega látnir og 32.500 til viðbótar þegar verið grafnir. Þetta þýðir að yfir 45% íbúa bæjarins eru annaðhvort látnir eða er saknað. Ímyndið ykkur þessa stöðu hér á Íslandi.

Ómögulegt er að bera kennsl á þau lík sem nú finnast svo að ástvinir margra einstaklinga munu aldrei finnast eða þekkjast. Þó er enn smá von og ein fjölskylda gladdist mjög nýlega. Lítill fjögurra ára strákur, sem var í heimsókn í Banda Aceh ásamt móður sinni þegar flóðbylgjan reið yfir og hafði verið talinn látinn síðan kom til fjölskyldu sinnar á ný. Björgunarstarfsmenn höfðu fundið hann grátandi í vatninu eftir flóðbylgjuna og var hann fluttur á heilsugæslustöð þar sem hann var slasaður. Starfsfólki heilsugæslustöðvarinnar komst að nafninu hans ö Farizal Bin Saruuanm og bað alþjóðaráð Rauða krossins að skrá hann sem barn án fjölskyldu. Fyrir tilviljun tóku sjónvarpsmenn myndir af veggspjaldi frá alþjóðaráðinu með myndum af þessum börnum og vinur frænda barnsins sá myndina í sjónvarpi. Í kjölfarið hitti frændinn strákinn fyrir skömmu. Það er því enn von, en því miður er ekki hægt að segja margar svona sögur.

Nú hefur alþjóðaráðið opnað sjúkrahús með 100 rúmum og er það óðum að fyllast. Alþjóðaráðið vinnur nú að því hörðum höndum að sameina fjölskyldur, tryggja að vatn sé drykkjarhæft og dreifa ýmsum nauðsynjum á borð við teppi, tjöld og sápur til þeirra sem eru í búðum sem ætluð eru fórnarlömbum hörmunganna. Þetta krefst gríðarlegs skipulags. Ímyndið ykkur flugvöll sem yfirleitt tekur við fimm flugferðum á dag, en tekur nú við 150 ferðum. Koma þarf aðstöðunni í notkun sem er í slæmu ástandi eftir flóðin og laga þarf öll mælitæki. En þrátt fyrir þessa erfiðleika gengur starf alþjóðaráðsins vel og er ætlunin að ljúka dreifingu hjálpargagna á tíu dögum.

Eins og flestir sem starfa hér fyrir alþjóðaráðið hef ég nánast engan tíma til að ímynda mér hvernig það er að hafa tapað svona miklu. Á næstu dögum vona ég að ég geti gefið mér tíma til að hugsa um hvernig það er að missa 45% af lífi mínu ? vinum, fjölskyldu og samfélagi.