Götubörn í Mósambík

Hjördísi Guðbjörnsdóttur

3. nóv. 2004

Mósambík er eitt af fátækustu löndum heims og ekki nema 12 ár síðan þjóðin losnaði undan áralöngum stríðshremmingum. Framfarir hafa orðið miklar á undanförnum árum í Mosambík og ekkert sem bendir til annars en að þær haldi áfram. Hinar miklu náttúruhamfarir sem gengu  yfir landið árið 2000 og aftur 2001 drógu þó úr framförunum tímabundið og þurrkar 2002 og 2003 hafa einnig haft áhrif. 

Rauði krossinn í Mósambík er sterkt Rauða kross félag og hefur mjög góða ímynd meðal landsmanna. Félagið stóð að umfangsmikilli neyðaraðstoð meðan á styrjöld stóð og æ síðan ef hamfarir hafa dunið yfir landið hefur Mósambíski Rauði krossinn verið fremstur í flokki við hjálparstörfin.

Nú er Mósambíski Rauði krossinn að hasla sér völl í lengri tíma uppbygginga- og þróunarstarfi og hefur miðað vel. Þau verkefni Mósambíska Rauða krossins sem Rauði kross Íslands hefur stutt eftir að stíði lauk eru; heilsugæsluverkefni í Maputo héraði með þátttöku Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, vatnsverkefni þ.e. uppbygging vatnsbóla, einnig í Maputo héraði með stuðningi Spænska Rauða krossins, uppbygging HIV/AIDS verkefnis  og svo stuðningur við götubarnaverkefni í höfuðborginni Maputo og hafnarborginni Beira.

Boa Esperança 
Rauði kross Íslands hefur styrkt götubarnaverkefnin í Beira og Maputo höfuðborg Mósambík frá því um 1996. Verkefnin hófust um það bil sem stríðinu var að ljúka og mikið var af vegalausum börnum á götum borga og bæja. Þau höfðu flúið dreifbýlið og komið til bæjanna í leit að betra lífi. Sum höfðu orðið vitni að hörmulegu ofbeldi, misst foreldra eða ættingja og jafnvel þvinguð til að taka þátt í skærunum. Á síðustu árum hafa breytingar orðið töluverðar og færri börn eru á götum bæja og borga, en hins vegar hefur aukist að börn þurfi stuðning vegna ýmissa vandamála sem orsakast af mikilli fátækt.

Heimilin fyrir götubörn hafa með tímanum breyst í heimili fyrir börn sem búa við félags- og efnahagslega erfiðleika. Þar fá þau umhyggju, mat, heilbrigðisþjónustu, aðstoð við heimanám og ýmiss konar iðnþjálfun eins og kennslu í saumaskap, húsgagnasmíði og fleira. Um 400 börn fá aðstoð árlega á báðum þessum stöðum.

Æ fleiri munaðarlaus börn koma til heimilanna og eru það oftar en ekki börn sem hafa misst annað eða báða foreldra sína úr alnæmi. Heimilin reyna að finna þeim fósturfjölskyldur og styðja við bakið á þeim eftir megni.

Heimilið í Maputo, Boa Esperança  (?góð von?) er rekið af miklum myndarbrag og er í umsjá forstöðukonunnar Maria Jose, en heyrir undir stjórn Rauða kross deildarinnar í Maputo borg. Grunnrekstur er nokkurn veginn tryggður með framlögum frá hinum ýmsu félögum eins og til dæmis Rauða krossi Íslands, en ávallt vantar fé til sérstakra verkefna eins og viðhalds húsnæðis og búnaðar og til sérverkefna fyrir börnin.

Sérverkefni í Boa Esperança
Hárgreiðslu og snyrtinámskeið

Þar sem æ fleiri börn þurfa aðstoð á borð við þá sem veitt er í Boa Esperança var mikil þörf á að ?útskrifa? elstu börnin svo taka mætti fleiri börn inn. Maria Jose settist því niður með elstu börnunum til að fá hugmyndir frá þeim um hvað þau hefðu hug á að gera í framtíðinni. Í ljós kom á margar stúlknanna höfðu áhuga á að læra hárgreiðslu og snyrtingu. Konur í Mosambík og þá sérstaklega höfuðborginni Maputo þar sem Boa Esperança er, eru vel til hafðar og alls kyns fléttur og flóknar hárgreiðslur mjög vinsælar og því vantar alltaf hárgreiðslukonur.  Maria Jose settist niður með sínu fólki og bjó til verkefni sem sent var til Rauða kross Íslands með beiðni um fjárstuðning upp á rúma 6.000 US$.  Gefa skyldi níu unglingsstúlkum tækifæri til 2ja mánaða starfsþjálfunnar í hárgreiðslu- og snyrtingu. Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands brást við þessari beiðni og nú hafa sjö stúlkur lokið námi, hafa fengið sín skírteini og stafsleyfi auk þess sem þær fengu allan grunn búnað sem þurfti, til að opna sínar eigin stofur. Maria Jose hafði eftirlit með námi stúlkanna og mun fylgja þeim eftir í sex mánuði til eitt ár. 


Matreiðslunámskeið
Þar sem Rauði kross Íslands hafði brugðist svona vel við beiðninni um aðstoð við hárgreiðslu og snyrtinámskeiðið og þörf var að frekari starfsmenntun fyrir unglinga á Boa Esperança, ákvað Maria Jose og hennar fólk eftir samtöl við unglingana að óska eftir frekari stuðningi.  Að þessu sinni var áhugi á að veita 12 ungmennum af báðum kynjum starfsmenntun á sviði eldamennsku og bökunnar. Þetta krafðist fjárstuðnings upp á rúma 8.000 US$. Ungmenni þessi skyldu hljóta tveggja mánaða þjálfun og svo eftirfylgni í sex mánuði til eitt ár og fá skírteini, starfsleyfi og búnað til að hefja sinn eigin atvinnurekstur.  Þessi beiðni frá Boa Esperança hlaut einnig jákvæðar viðtökur frá Rauða krossi Íslands og nú eru þessi ungmenni í sinni starfsþjálfun.

Landbúnaðarverkefni
Og nú síðast hefur sú hugmynd komið upp hjá börnum og starfsfólki á Boa Esperança sem og á Tinotenda heimilinu í Beira að koma af stað garðræktar- og búfjárverkefni. Það felst í því að elstu unglingarnir og starfsfólkið rækta í sameiningu grænmeti og halda búfé. Tilgangur þess er margþættur;
-að afla börnunum á heimilinu hollrar fæðu, 
-selja það sem umfram er og afla heimilinu og verkefninu tekna,
-unglingarnir læri vinnubrögðin og möguleikar þeirra til að finna launaða vinnu síðar meir aukist.

Nú er verið að vinna að nákvæmri verkefnalýsingu fyrir þetta verkefni. Kostnaður er svipaður og við tvö hin fyrri verkefnin. Sex til átta þúsund US$ eru sjálfsagt ekki mikið fé í augum Íslendinga en stórt framlag í landi eins og Mósambík. Vonandi munu þessi ungmenni geta séð um sig og sínar fjölskyldur í framtíðinni með hjálp ykkar og annarra sem hafa hug á að styðja krakkana á heimilum Rauða krossins í Mósambík.