Hjálparstarf í kapphlaupi við tímann

Gunnar Hersvein

29. sep. 2004

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 19. september 2004.

Huld Ingimarsdóttir og Sólveig Ólafsdóttir sendifulltrúar fyrir Alþjóða Rauða krossinn og Rauða hálfmánann.

Á jeppa merktum Alþjóða Rauða krossinum og Rauða hálfmánanum snemma kvölds í Harare í Zimbabve nemum við staðar við lokað hlið. Þar standa tveir öryggisverðir. Umferðin er lítil því bensínið var uppurið. Einu biðraðirnar voru við bensínstöðvar, þar sátu þolinmóðir bílstjórar undir stýri og vonuðu að olíubílar kæmu í nótt eða fyrramálið til að fylla á tanka stöðvanna. Vökvinn myndi svo klárast um morguninn, þannig að best var að bíða í röðinni.

Öryggisverðirnir gæta húsaþyrpingar innan girðingar og hleypa engum inn nema þeim sem eiga erindi. Huld Ingimarsdóttir, sendifulltrúi Alþjóða Rauða krossins, rennir niður bílrúðunni og tilkynnir að við ætlum að heimsækja Sólveigu Ólafsdóttur.

Sólveig tekur á móti okkur í fallegri íbúð sem hún leigir. "Ég ákvað fljótlega eftir að ég flutti til Zimbabve í september 2001 að kaupa mér innbú," segir Sólveig og að Zimbabveþjóðin sé sérlega listfeng. Húsgögn einkennast af járni og viði. Járn er mikið notað bæði í hagnýta hluti sem listmuni.

Sólveig bjó í höfuðborginni Harare í þrjú ár og naut þess mjög. Hún starfar eins og Huld fyrir Alþjóða Rauða krossinn og Rauða hálfmánann (IFRC; International Federation of Red Cross and Red Crescent), var upplýsingafulltrúi á svæðisskrifstofu IFRC í Harare. Sólveig hefur nýlokið störfum þar og starfar nú í Genf, var m.a. send í hjálparstörf á eyjunni Grenada í Karíbahafi þar sem fellibylurinn Ívan grimmi gekk yfir.

KERTALJÓS En þetta kvöld í Harare ætlaði ég að borða með þeim við kertaljós í stofunni hennar: kjúklingarétt Sólveigar. Ég sest hjá henni í eldhúsið á meðan Huld sinnir öðrum gestum.

Það er mótsagnakennt að sinna störfum eins og þær, því það er á svo mörgum sviðum. Ég býst við að margir þrái að starfa í framandi löndum og gera gagn, þar sameinast ævintýraþráin og löngunin til að verða að liði. Starfið er mjög gefandi og erfitt og í því takast á tilfinningar sem stangast á, eins og gleði og sorg. Enginn starfsmaður má láta erfiðleikana bera sigurorð af gleðinni sem býr í brjóstinu.

Starfsmaðurinn þarf að gefa sig alveg að starfinu og sinna því vel, en hann má ekki verða of gagntekinn af því. Hann má ekki taka sig of alvarlega eða telja sjálfan sig ómissandi, eða tala bara um erfiðleika. Húmor og gleði er nauðsynlegt mótefni til að takast á við það erfiða sem einstaklingar og þjóðir þurfa að glíma við.
"Helstu verkefnin í sunnanverðri Afríku eru tengd matvælum og heilbrigði," segir Sólveig, "byggja þarf vatnsbrunna, dreifa matvælum, kenna fólki að yrkja jörðina og nota hreint vatn, minnka líkurnar á að það smitist af HIV-veirunni, malaríu og kóleru."

Verkefni Alþjóða Rauða krossins eru viðamikil og starfsemin er þannig skipulögð að spár eru gerðar fram í tímann. Líti út fyrir hungursneyð t.d. vegna skorts á útsæði eða uppskeru eru neyðaráætlanir settar í gang. "Við vinnum að almannavörnum til að virkja og styrkja byggðir," segir Sólveig, "þegar hætta er á hamförum, t.d. þegar það hækkar í ám á regntímabilinu. Þá er mjög mikilvægt að samfélagið viti hvernig það eigi að bregðast við."

Sólveig segir að hún hafi t.d. verið send til Mózambik með öðrum starfsmönnum til að bera út skilaboð til byggða um væntanlegan fellibyl. Hún hafði haft samband við fréttastofur og íbúar hafi getað undirbúið sig fyrir þessar hamfarir. Hún var einnig í starfinu vegna flóðanna í Namibíu í maí 2003 og 2004.

MÓTSAGNIR Sólveig vann jafnframt við þjálfun upplýsingafulltrúa í landsfélögum IFRC í sunnanverðri Afríku - að kenna þeim að byggja upp samband við fjölmiðla. Hún hefur farið til Botsvana, Malavi, Mozambik, Namibíu, Suður-Afríku, Zambiu, Zimbabve og Swasilands.

Háværar drunur berast að utan og rúðurnar í íbúð Sólveigar nötra. Úti er svarta myrkur fyrir utan nýlegan glampa. Hérna megin á jarðarkringlunni eru engin daufleg sýnishorn af þrumum og eldingum heldur verulega glannalegar himinhræringar sem geta staðið lengi. Ég hélt að árás hefði verið gerð á hús Sólveigar en þetta var bara þruma sem bankaði létt á gluggann.

Sunnanverð Afríka er rík álfa af auðlindum þótt áhöld séu um nýtinguna. Rauðvín frá Suður-Afríku eru til að mynda afbragð og eintök af slíkum flöskum voru á borðum Sólveigar. Létt stemning færist yfir og gestirnir gæða sér nú á réttinum, en eru þó svo forvitnir að gestgjafinn heldur áfram að segja frá reynslu sinni.
"Stundum velti ég því fyrir mér hvers vegna mér fallast ekki bara hendur," segir Sólveig. Gestunum nægir tilhugsunin um útbreiðslu HIV-veirunnar til að verða óstöðugir. Tölurnar eru ógnvekjandi, í Botsvana eru 40% fólks á aldrinum 15-49 ára smituð, í Svazilandi 38% og í Zimbabve 33%, svo dæmi sé tekið.

VONARLANDIÐ Uppgjöf kemur að sjálfsögðu ekki til greina í starfi Alþjóða Rauða krossins og Rauða hálfmánans, og það heldur linnulaust áfram. Núna mest í gegnum sjálfaboðaliða hjá landsskrifstofunum á hverjum stað.

Stjórn Mugabe hefur ekki safnað afrekum undanfarið. Zimbabve var vonarland sunnanverðrar Afríku árið 1997, núna sígur hraðast þar á ógæfuhliðina. Landbúnaður og iðnaður, verslun og viðskipti hafa hrunið, sökum óstjórnar. En stjórnmál eru ekki og mega ekki vera viðfangsefni sendifulltrúa Rauða krossins, heldur felst það í mannúðarstarfi. "Starfið er mest unnið í gegnum sjálfboðaliða landsfélaga RK," segir Sólveig.

Sólveig er menntaður blaðamaður og hefur m.a. starfað sem fréttamaður hjá Sjónvarpinu. Hún skrifar á vefinn hjá Alþjóða Rauða krossinum (www.ifrc.org), það er því óneitanlega framandi að vera blaðamaður í landi þar sem frjálsir fjölmiðlar eru bannaðir. "Það eru engir sjálfstæðir fjölmiðar hér," segir hún. "Síðasta alvöru stjórnarandstöðublaðinu var lokað á liðnu ári og allir erlendir fréttaritarar eru farnir úr landi."

Mugabe var nýlega spurður af blaðamanni hjá The East African Standard dagblaðinu hvort það væri satt að ríkisstjórn Zimbabve hafi þaggað niður í pressunni? Hann svaraði að lög hefðu verið samþykkt um að ekki megi bera ljúgvitni gegn náunga sínum og þessi hafi verið sótt í boðorðin tíu í Mósebók. "Ef þú lýgur aftur og aftur og ert ef til vill félagi í samtökum, þá annaðhvort handtökum við þig fyrir róg eða við einfaldlega bönnum samtökin."

10. júní síðastliðinn var enn eitt dagblaðið bannað af yfirvöldum í Zimbabve, það var vikublaðið The Tribute. Opinber ástæða er sögð að skipt hafi verið um eigendur án leyfis fjölmiðlanefndar ríkisins (zwnews.com).

FRÉTTAFLUTNINGUR Hlutverk Sólveigar er, þrátt fyrir þetta, að miðla fréttum og frásögnum af aðstæðum fólks í landinu og koma þeim til umheimsins. Hún er því í tengslum við fréttafólk, aðallega í Bretlandi og Suður-Afríku.

Fyrr þennan dag, hafði hún t.d haft samband við BBC vegna mögulegrar fréttar um HIV-smitaðar mæður. Tvær konur voru reiðubúnar til að fara í viðtal; fréttin var um að smitaðar mæður séu með börnin á brjósti, jafnvel þótt hætta sé á að veira berist til barnanna með móðurmjólkinni. Ástæðan er annars vegar sú að þær hafa ekki efni á þurrmjólk og hins vegar ótti við fordóma í samfélaginu gagnvart þessum sjúkdómi. Starfsmenn Alþjóða Rauða krossins mega ekki vera hlutdrægir. Stjórnvöld í Zimbabve fylgjast með starfinu og leynilögreglan er víða, t.d. á skrifstofu Rauða krossins - þótt enginn viti hvaða starfsmenn það eru. Upplýsingafulltrúar þurfa því að fara gætilega.

Sólveig býður gestum sínum upp á kjúklingaréttinn sinn og afrískt vín: Skál. Sólveig og Huld segja gestunum sögur af íbúum í Harare. Eitt af því sem þær hikuðu báðar við í upphafi var að kaupa sér húshjálp, því lítil hefð er fyrir því á Íslandi. Reynslan sýndi þó að þær gátu stutt það fólk sem vann hjá þeim með margvíslegum hætti, jafnvel til náms.

"Mér líkar mjög vel í Harare," segir Huld en hún var áður í Jóhannesarborg í Suður-Afríku, "mér líkar ofboðslega vel við fólkið, og ég dáist að því hvað það er afslappað þrátt fyrir skuggalegt ástand í efnahagsmálum," segir hún.

Í Zimbabve er margt af því flottasta í heiminum hvort sem það er af náttúrunnar eða mannanna hendi. Viktoríufossar eru stundum taldir með sjö mestu undrum náttúrunnar og þar er villiflóran fjölbreytt. Huld segir viðmót fólks alúðlegt og fólkið verða þolinmótt, þrátt fyrir mikla stéttaskiptingu. "Hér er mikill auður og mikil fátækt. Þjóðin hefur alla burði til að standa á eigin fótum, hér eru gull- og demantanámur, frjór jarðvegur og hægt að rækta allt með áveitukerfi," segir hún og að ferðaþjónustan geti blómstrað.

"Það er sorglegt að nýlendurnar í Afríku sem voru í ánauð þurfi að sökkva svo langt niður áður en lýðræðið fær þrifist í þeim," segir Huld.

NAUTGRIPIR Zimbabve var helsta nautgripaland til útflutnings til Evrópusambandsins, en fórnin sem þjóðin hefur mátt færa vegna aðferðarinnar við að koma nautgriparæktinni til blakkra varð of mikill. Innfæddir hvítir eru nú útilokaðir og hafa einnig þurft að velja á milli Zimbabve og breskra vegabréfa, en bann var sett á tvöfaldan ríkisborgararétt. Áður voru 270 þúsund hvítir en eru nú um 40 þúsund og hafa fæstir kosningarétt. Gæðingar stjórnarinnar fengu nautgripabúin á silfurfati en þá skorti þekkinguna til að reka þau og hafa misst tökin á þeim. Gin- og klaufaveiki hefur komið fram og allur útflutningur hefur stöðvast.
"Hér er mjög listfengið fólk, sem gerir fallega muni," segir Huld, "mér finnst einstakt hvað það framleiðir mikið af fallegum hlutum. Stíllinn er líka sérstakur og fínlegur." Löng listahefð er í landinu og hvar sem við fórum voru listmunir til sölu, í búðum eða við þjóðvegi. Listrænir hæfileikar búa augljóslega með þjóðinni og eru þeir efnilegustu sem vinna list sína á götunni valdir og kostaðir í nám. Efnið sem unnið er með er m.a. steinn, viður, járn og endurunnið fílatað auk efnis sem notað er í klæðnað og teppi. Þjóðin er þekkt fyrir munstur í kartöflur sem notaðar eru sem stimplar, t.d. á teppi og kodda.

Sólveig segir að skólakerfið hafi lengi verið stolt þjóðarinnar í Zimbabve og metnaður foreldra fyrir hönd barna sinna varðandi nám er greinilegur. En Zimbabve er þriðja heims land - og þar búa flestir þröngt - en þar er einnig rík millistétt og launamunurinn er ægilegur. Margfalda má laun verkamanns þrjúhundruð og fimmtíuþúsund sinnum til að fá út laun forstjóra í Harare. Opinbert atvinnuleysi er um 70% í landinu - en sú tala er sem betur fer lægri því margir sjá sér farborða með því að selja t.d. afurðir eins og grænmeti sem þeir rækta, eða listmuni sem þeir skapa.

TÓNLIST Huld segir fólkið vinsamlegt og skemmtilegt. Sólveig segir að henni líki sérlega vel við fólkið. "Maður finnur ekki fyrir spennu þótt maður sé með annað litarhaft en innfæddir, og maður er ekki litinn hornauga," segir hún og að tímaskynið sé annað. "Að gera eitthvað núna (now) merkir að gera það einhvern tíma í framtíðinni. Að gera eitthvað rétt í þessu (just now) merkir bráðlega. Að gera eitthvað núna-núna (now-now) merkir að gera það núna."
Hún segir að "deadline" eða síðustu forvöð séu aðeins viðmið. "Maður þarf að vera ansi frekur til að fá hlutina gerða. Við fluttum bækistöðvarnar í þetta hús í september 2003, en það tók hálfan mánuð að fá hingað tæknimann frá símanum til að tengja síma og Net. Íslensk fyrirtæki og stofnanir hefðu ekki þolað slíka bið," segir hún.

Öll erlendu fyrirtækin eru eða hafa þegar lokað og hvítir nautgripabændur hafa misst jarðirnar sínar. Maís er aðalfæðan, en hann er erfiður í ræktun og matvælaverkefni Rauða krossins felur m.a. í sér að minnka áherslu á maísrækt og taka upp auðræktanlegra kornmeti.

Eftir máltíðina þetta kvöld í Harare ákváðum við að keyra á skemmtistað sem heitir einfaldlega Bókakaffi. Við stóðum hvít í röðinni og dyravörðurinn hikaði við að hleypa okkur inn. "Tónleikarnir eru að klárast, það tekur því ekki fyrir ykkur að fara inn," sagði hann. Við suðuðum í honum og fengum loks að kaupa miða. Hann hafði sennilega ályktað að okkur myndi bara leiðast; tónlistin var hefðbundin Zimbabve-tónlist og engir hvítir sóttu staðinn. Hann ályktaði rangt því hljómsveitin Mbira DzeNharira lék tónlist sem enginn gat hlustað á nema með því að dansa um leið. Hljóðfærið mbira er í öndvegi en það á sér þúsund ára sess í sögu Shona-fólksins í Zimbabve.

NEYÐARKALL Eftir dansinn fórum við á rólegri stað beint á móti og héldum spjallinu áfram. Huld vann áður í Jóhannesarborg í Suður-Afríku fyrir Alþjóða Rauða krossinn. Aðvörun um uppskerubrest í sunnanverðri Afríku, var gefin út hjá Alþjóða matvælastofnuninni snemma árs 2002. Alþjóða Rauði krossinn sendi frá sér skýrslu um stöðuna í hverju landi, hvað þyrfti að gera og hve mikið fé þyrfti til að koma í veg fyrir hungursneyð. Neyðarkall um aðstoð var sent út til allra aðildarlanda Rauða krossins til að bregðast við vandanum, en safna þurfti 90 milljónum svissneskra franka.

"Neyðarkallinu var geysivel tekið og fljótlega varð ljóst að það myndi takast að safna þessu fé sem nota þyrfti til að kaupa og dreifa matvælum, útvega útsæði og kaupa landbúnaðartæki," segir Huld.

Löndin þar sem hungursneyðin var yfirvofandi voru Zimbabve, Swasiland, Lesotó, Malawí og Zambía. "Þetta er viðamesta neyðarverkefni sem Alþjóða Rauði krossinn hefur sinnt frá því í Balkanstríðinu," segir Huld og að ákveðið hafi verið að höfuðstöðvar verkefnisins væru í Jóhannesarborg því tiltölulega auðvelt væri að starfa þar m.a. vegna alþjóðlegs flugvallar.

Hlutverk Huldar var að hafa fjármálalega yfirumsjón með þessu verkefni fyrir Alþjóða Rauða krossinn og Rauða hálfmánann. Hún segir að gerður hafi verið samningur við World Food Program um að dreifa hluta af matvælunum í gegnum kerfi WFP eða til afskekktra staða þar. Norski RK útvegaði 220 bandaríska trukka til þessa hluta verkefnisins.

HLUTUR ÍSLANDS Verkefnið stóð í eitt ár og tókst að afstýra hungursneyðinni. Fé til þess kom frá milli 70 og 80 aðilum og þurfti að standa skil á því gagnvart hverjum og einum, t.d. gat legið sú kvöð á peningagjöf að féð færi aðeins í fæðiskaup í Svasilandi eða aðeins í vatnsbrunnakerfið. "Íslenski Rauði krossinn sendi okkur um 550 þúsund svissneska franka eða u.þ.b. 30 milljónir ísl. krónur," segir Huld og að hún hefði sagt frá því stolt á fundi um verkefnið hversu hátt hlutfall kæmi frá Íslandi, og að fé hefði verið safnað með landssöfnun: Gengið til góðs, en það er mjög sjaldgæft form. Auk þess kostaði Íslenski Rauði krossinn tvo sendifulltrúa til að sinna þessu verkefni. "Andlitið datt hreinlega af fundarmönnum við þessar fréttir, þeim fannst þetta einstakt sem það er," segir Huld.
Huld hóf störf fyrir Alþjóða Rauða krossinn árið 2000 sem sendifulltrúi á vegum íslenska Rauða krossins en hún hafði áður verið fjárreiðustjóri hjá Toyota bifreiðaumboðinu. Fyrsta verkefnið hennar var í Kósovó og fór hún þangað í lok september og starfaði þar í 18 mánuði. Verkefnið hennar í Jóhannesarborg hófst í ágúst 2002.

Skemmtistaðurinn sem við erum á núna er blandaður hvítum og svörtum eins og eðlilegt er og á sviðinu er hefðbundin alþjóðleg hljómsveit, söngkonan syngur aðallega vestræn lög, jafnvel Knockin' on Heaven's door eftir Dylan.

HJÁLP "Verkefnið átti að standa til júlíloka 2003 en jafnframt var ljóst að því yrði að halda áfram," segir Huld og að ákveðið hafi verið að fylgja verkefninu eftir í hverju landi fyrir sig. Fæðudreifing er alltaf neyðarhjálp, langtímaverkefnið er að hjálpa fólki til að hjálpa sér sjálft. Harare í Zimbabve varð bækistöð þessa verkefnis og því flutti Huld þangað til að sjá um reksturinn og festa verkefnin í sessi í hverju landi. Verkefnið heppnaðist, því það tókst að koma í veg fyrir hungursneyð í sunnanverðri Afríku.

Verkefni Huldar var mjög viðamikið og þurfti hún að hnýta ótal hnúta áður en hún gat lokið verkefninu endanlega; 60-70 alþjóðastarfsmenn tengdust verkefninu, 2-3 starfsmenn á hverjum stað sem voru með 80-200 ökumenn í vinnu og aðra 400-500 heimamenn, halda alþjóðaútboð um matvælaverkefnið, semja um tilboð, gera upp við aðila o.s.frv.

"Þessi vinna er kapphlaup við tímann og því þýðir ekkert hangs og dagarnir geta orðið langir," segir Huld og að fáir endist í mörg ár í þessari vinnu og að það viti aldrei hvert næsta verkefni verði eða hvort það verði verkefni. Fjölskyldufólk er t.d. ekki ráðið í neyðarverkefni, það verður að geta helgað sig alfarið starfinu.
Afríka hefur heillað Huld og Sólveigu algerlega, þótt löndin séu auðvitað ólík innbyrðis og erfitt að fullyrða eitthvað eitt um þau öll, en þau eiga einstaka náttúru og magnað dýralíf sameiginlegt.

Eftir miðnætti í Harare Zimbabve ljúkum við kvöldinu. Sólveig fer heim til sín en við fylgjum Huld. Umferðin er ekki mikil frekar en fyrr um kvöldið og sumir bílstjórar ætla að bíða nóttina á enda eftir að bensínstöðvar opni á ný. Kannski koma olíubílar og fylla tankana.

FRAMTÍÐ Huld og Sólveig komu heim í sumar en hafa nú haldið aftur starfa. Verkefni Huldar á þessu misseri er að vera fjármálastjóri stöðvarinnar í Harare sem er jafnframt aðalskrifstofa Alþjóða Rauða krossins í sunnanverðri Afríku. Hún hefur fjármálalega umsjón með u.þ.b. 40 verkefnum sem eru rekin í Zimbabve og í öðrum löndum sunnanverðrar Afríku þar sem RK er ekki með bækistöðvar. Þessu verkefni Huldar lýkur í desember 2004. "Þá er planið að koma heim," segir hún.
Sólveig hefur kvatt Zimbabve, en áður en hún gerði það var hún kölluð út vegna flóða í Namibíu, þeim verstu í 50 ár. "Sem betur fer er strjálbýlt þarna við undirlendi Zambezi-fljótsins, en 20 þúsund manns voru í hættu og fimm þúsund þurfti að flytja í búðir því heimili þeirra voru undir vatni," segir Sólveig. Þetta neyðarstarf var alfarið unnið með starfsmönnum namibíska RK, Swasilands RK og Svæðisskrifstofu RK og Hálfmánans.

Starfið hefur vissulega verið fjölbreytt. "Ég var síðari hluta apríl í Namibíu í flóðverkefni, og fór á einum degi í þyrlu út í eyju í Zambezi, þaðan með bát til Botswana, þar sem bíll mætti mér og keyrði mig til Viktoríufossa, þar sem ég tók svo flugvél til Harare. Daginn eftir sýndi ég magadans í Harare og tveimur dögum síðar fór ég til Höfðaborgar til að aðstofa suður-afríska Rauða krossinn við undirbúning við heimsókn Ástríðar prinsessu af Belgíu, sem jafnframt er formaður belgíska RK," segir hún.

Sólveig starfar nú hjá Alþjóðasambandi Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Genf. Hún er upplýsingafulltrúi Neyðaraðstoðar og forvarna, og í sérstöku verkefni um loftslagsbreytingar og hlutverk IFRC varðandi þennan málaflokk. "Ég starfa í nánu sambandi við loftlagsbreytingastofnun Rauða krossins í Haag," segir Sólveig og bætir við: "Ég er semsagt hin nýja veðurstúlka Rauða krossins."

Fátæk börn sem búa í sveitinni rétt utan Harare.

Sólveig og Huld með samstarfskonum í Harare: Teresa, Lusy, Sólveig, Huld og Shorari.