Sorg og missir á skjálftasvæðum í Íran

Guðbjörgu Sveinsdóttur

19. maí 2004

Guðbjörg Sveinsdóttir, sendifulltrúi Rauða kross Íslands skrifar

Eftir nokkurra daga dvöl á jarðskjálftasvæðinu er margt sem hefur komið á óvart. Það er mjög sérstakt að horfa upp á eyðilegginguna því múrsteinshús hafa hrunið eins og spilaborgir. Sums staðar er fólk enn að krafsa í rústunum eftir einhverju nýtilegu. Íranski Rauði hálfmáninn er ótrúlega vel skipulagður og fyrsta áfallahjálparteymi félagsins var komið á staðinn daginn eftir jarðskjálftann.

Jarðskjálftinn 26. desember skildi Bam borg og nærliggjandi þorp eftir sem rústir einar. Af um 110 þúsund íbúum svæðisins eru líklega á milli 30 og 40 þúsund manns látnir. Af 20 þúsund manns sem slösuðust voru 18 þúsund flutt á brott. Um 69 þúsund manns eru heimilislausir og sú tala á eftir að hækka þegar fólk kemur til baka eftir að hafa búið hjá ættingjum og vinum annars staðar í landinu um hríð. Eyðileggingin er með ólíkindum því 25 þúsund byggingar eru ónýtar, þar af 180 skólar, þrír háskólar, tvö sjúkrahús og fimm aðrar heilbrigðisstofnanir.    

Eins og nærri má geta er þörf á sálrænum stuðningi gífurleg. Flestir hafa misst náinn ættingja. Eftir fyrsta áfallið fór mikill kraftur og virkni í að leita að ástvinum og veraldlegum eigum í rústunum. Síðan einkenndust viðbrögðin af dofa og streitu. Margir sitja í tjöldum sínum og fara ekki út, ríghalda í börnin sín og geta ekki séð af þeim, gráta stöðugt eða eru alveg frosnir. Á sjúkrahús Alþjóða Rauða krossins og Rauða hálfmánans koma sífellt fleiri með óljós einkenni sem líkjast mjög áfallastreitu.    

Fyrir okkur útlendingana hefur verið afar áhugavert að fylgjast með vinnu íranska teymisins sem við störfum mest með. Um er að ræða hreyfanleg sex manna teymi sem reyna að fara á þrjá til fjóra staði á dag. Þegar komið er á staðinn skipta þau með sér verkum og kalla saman börn á staðnum. Börnin eru látin teikna og syngja sitjandi saman í hring. Farið er með þau í alls kyns leiki og að lokum er útdeilt leikföngum, skriffærum og skriftarbókum. Það er stórkostlegt að sjá hvernig fjölgar í hópnum og hvað þeim líður vel með að fá leyfi til að leika sér og hlæja. Fullorðnir karlar standa álengdar og fylgjast með og brosa þegar þeir sjá börnin að leik.    

Vinna okkar sem erum að meta ástandið og þarfirnar hefur hingað til falist í að fara á ýmsa staði og tala við þolendur jarðskjálftans og við heimamenn og útlendinga sem eru að sinna hjálparstarfi. Á næstu dögum munum við gera áætlun til næstu sex mánaða, sem líklega mun felast í því að útbúa tvö tjöld fyrir sálrænan stuðning á hverju hinna ellefu svæða sem borginni er skipt í. Okkur er að verða ljósara hversu mikilvægt er að hafa erlenda sérfræðinga á staðnum til þess að ýta á ýmsa hluti og styðja við það góða starf sem íranskir starfsfélagar okkar eru að inna af hendi.    

Við kynnumst því æ betur hvernig menningin og trúarbrögðin hjálpa fólki til að takast á við áfall sem þetta. Fjölskyldutengslin eru mjög sterk, samfélagið samheldið og í ákveðnum skorðum og í trúarbrögðunum er mikið af sorgarúrvinnsluþáttum sem við höfum ekki áður kynnst. Það er alveg ljóst að þeir sem vinna beint með fólkinu þurfa að þekkja vel til siða, menningu og trúarbragða. Menn frá tyrkneska Rauða hálfmánanum komu hingað og setti upp tvær tjaldbúðir. Daginn eftir báðu þeir okkur um ráðleggingar og við lögðum til að komið yrði upp stóru tjaldi þar sem konurnar á staðnum hefðu aðstöðu til að elda eitthvað saman. Tveimur dögum síðar var komið upp stærðar tjald, teppi á gólfið og stærðar pottur. Konur á staðnum stjórna nú aðgerðum í tjaldinu, þar sem þær elda ?halva?, sem er sætt gums. Þær búa þetta til saman og hræra nokkra hringi og fara með bænir til þeirra látnu og gráta saman. Þetta er ótrúlega sterk upplifun.    

Hinir tyrknesku starfsfélagar okkar hafa líka komið upp fjórum tjöldum fyrir skóla. Þeir fundu húsgögn úr skóla sem hrundi í nágrenninu og skólastjóra sem hafði misst alla fjölskylduna en vildi halda áfram að gera eitthvað gagnlegt til að hjálpa öðrum. Þegar við vorum í heimsókn kom kona sem leit inn í tjaldið og fór að gráta. Í ljós kom að hún hafði misst fjögur börn. Sársaukinn var mikill að horfa á skólabekkina sem brátt myndu fyllast af börnum, bara ekki hennar. Maður getur ekki ímyndað sér þennan sorg og missi.    

Við í áfallahjálparteyminu búum í stórum tjaldbúðum sem hefur verið komið upp á svæði þar sem áður var haldinn útimarkaður. Við höfum ágætis vinnutjald með tveimur plastborðum og sex plaststólum. Það er heitt á daginn en kólnar á næturnar þó ekki sé lengur næturfrost eins og fyrstu dagana eftir að skjálftinn reið yfir. Matur hefur verið af skornum skammti en nú á að fara að bjóða upp á heitan mat á kvöldin og nóg vatn er á flöskum svo við höfum ekki yfir neinu að kvarta.    

Af því fólki sem kemur á sjúkrahús er um helmingur með einkenni áfallastreitu. Fólk kvartar undan því að sums staðar gangi illa að sinna frumþörfunum. Mikil þörf er fyrir upplýsingar. Fólk kvíðir framtíðinni og spyr, ?hvernig verður þetta, hver hugsar um okkur?? og svo framvegis. Meðal þess sem við höfum lagt til er að sérstakt tjald verði á sjúkrahússvæðinu fyrir sálrænan stuðning og fræðslu.    

Bam, 16. janúar 2004.