Syngjandi englar í Soweto

Susan Martin

7. maí 2003

Susan Martin, sendifulltrúi Rauða kross Íslands og starfandi fjármálaráðgjafi Alþjóðasambands Rauða kross félaga í Angóla.

Þetta var fyrsta heimsókn mín til Suður-Afríku, til að taka þátt í námskeiði þar sem kynntar voru leiðir til fjáröflunar og sjálfbærs reksturs. Fulltrúar frá öllum tíu landsfélögunum í sunnanverðri Afríku deildu reynslu sinni af fjölbreyttum fjáröflunarleiðum og misarðbærum rektrarformum eins og útleigu húseigna (mjög vinsælt!), rekstri verslana, lyfjabúða og veitingahúsa, hinni hefðbundnu skyndihjálparkennslu svo aðeins fátt sé nefnt.  Hugmyndir sem ganga vel í einu landi og illa í öðru og svo nýju fjáröflunarhugmyndirnar sem komu fram, til dæmis árleg fegurðarsamkeppni í Zambíu og golfkeppni í Suður-Afríku. Margar tilraunir hafa skilað meiri höfuðverk en ágóða og ljóst að við getum lært mikið af hvert öðru með því að koma saman reglulega og bera saman bækur okkar. Hafa landsfélögin því myndað með sér félagsskap gagngert til þess að styðja við bakið á hvert öðru og er mikill hugur í mönnum að nýta samstarfið til fulls með heimsóknum og reglulegum netsamskiptum. Já, Internetið hefur fengið góðar viðtökur í Afríku og öruggt að sú tækni mun hraða framförum innan þessarar þjáðu álfu.


Markmið allra landsfélaga er að öðlast meira sjálfstæði og geta sinnt hlutverki sínu gagnvart þeim sem minnst mega sín í samfélaginu, án þess vera undir stjórnvöldum eða erlendum stuðningsaðilum komin. Landsfélögin í sunnanverðri Afríkuálfu eiga mikið verk fyrir höndum við að byggja upp rekstur sinn og má leiða líkum að því að árangur þeirra muni endurspeglast í þeim efnahagslífsbata sem verður í löndunum næstu árin og áratugina. 

Eftir vel heppnað námskeið í Jóhannesarborg var mér boðið í heimsókn til Rauða kross deildarinnar í Soweto, sem þjónar samfélagi þar sem áætlað er að rúmar fjórar milljónir manna deili saman hlutskipti þeirra sem eru utangarðs og örbirgða. Sá bati sem hefur átt sér stað í efnahagslífi Suður-Afríku hefur ekki enn skilað sér til fátækustu héraðanna og eru öfgarnar mjög áberandi í lífsstíl þeirra sem hafa eitthvað á milli handanna og þeirra sem enn bíða eftir framtíðinni, þegar ekið er frá Jóhannesarborg til Soweto.

Það var tekið á móti okkur með kostum og kynjum, boðið upp á kaffi og kynningu á starfsemi þessarar litlu deildar, sem hefur aðeins tvo starfsmenn á launum. Tveir starfsmenn sem hafa það mikla hlutverk að hvetja íbúa eins fátækasta svæðis í landinu til að bjóða fram krafta sína til aðstoðar þeim, sem búa við bágari kjör en þeir sjálfir! Þvílíkri hjartagæsku og hugrekki hef ég aldrei kynnst eins hjá þessum orkumiklu konum, sem sjá björtu hliðarnar á öllu og kasta kímnigáfunni yfir sársaukann, sem ég veit að þær finna fyrir vegna þeirrar takmörkuðu aðstoðar sem hægt er að veita. Hvernig er hægt að neita svöngum og örvæntingarfullum mæðrum um matargjöf sem ætluð er öðrum sem eru veikari eða eiga fleiri börn en þær?

Við fórum að heimsækja nokkrar þeirra, unglingsmæður sem hafa smitast af alnæmi og búa við átakanlegar aðstæður. Fáfræðin sem hjúpar þennan vágest hefur umbylt þeirri sterku fjölskyldusamstöðu sem einkennir samfélög í Afríku og hafa alnæmissmitaðir einstaklingar verið úthýstir og búa í hrörlegum bárujárnskofum á baklóð heimilanna. Sjálfboðaliðar Rauða krossins skipta með sér hverfum og ganga hús úr húsi til að upplýsa íbúanna um sjúkdóminn og bjóða fram aðstoð sína. Ef fjölskyldan samþykkir, þá fær sjálfboðaliðinn, sem er vel þjálfaður í skyndihjálp og almennri heilsugæslu, aðgang að íbúunum í kofunum sem sjást ekki frá götunni.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um aðbúnaðinn sem þetta veika fólk býr við, og þó að rafmagn sé komið á í flestum héruðum landsins er það eingöngu nýtt til lýsingar og í mesta lagi tengt við útvarp sem stillt er nógu hátt til þess að allir heyri. Íbúarnir hafa ekki ráð á því að borga rafmagnsreikninginn og því elda menn ennþá með kolum eða olíu.

Mörgum kemur vafalaust á óvart að heyra að vetur er nú að ganga í garð í Suður-Afríku, þegar hitastigið getur farið niður í frostmark á nóttunni í fjölmennustu héruðunum. Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að sjá hvaða áhrif næturkuldarnir hafa á þá sem búa við verstu kjörin, fólkið reynir að klæða af sér kuldann og þá kemur sér vel að sofa þétt saman á gólfi bárujárnskofanna. Ein fjölskyldan sem við heimsóttum á fimm börn, báðir foreldrarnir og yngsta barnið, 10 mánaða gamalt, smituð af alnæmi. Kofinn þeirra var um tveir metrar í þvermál og mér var um megn að sjá hvernig þau rúmuðust öll fyrir í þessu agnarlitla plássi til að sofa.   

Rauði krossinn í Soweto hefur yfir að ráða litlum sendibíl sem rúmar sex farþega og eru sjúklingar keyrðir alla daga til næstu heilsugæslustöðvar til að fá lyfjagjöf. Einnig heimsækja sjálfboðaliðar berklasjúklinga og gefa þeim lyfin sín daglega. Ég spurði verkefnastjórann, hina bjartsýnu og hjartastóru Mantshadi, sem er hjúkrunarkona og hefur starfað með Rauða krossinum í fimm ár, hvernig þau sjá til þess að sjúklingarnir gleypi töflunar, en eins og margir vita, þá getur reynst erfitt að sannfæra alla um að lyfin séu þeim lífsnauðsynleg. Mantshadi hefur gott ráð við þessu vandamáli, hún kennir sjálfboðaliðunum að spjalla við sjúklingana nógu lengi eftir að þeir stinga töflunum í munninn, að ef þeir gleypa þær ekki, þá leysast þær upp í munnvatninu og lyfið kemst sína leið!

Við trufluðum námskeið sem sjálfboðaliðarnir, flestir ungir og atvinnulausir Sowetobúar, halda mánaðarlega til að rifja upp og læra nýjar aðferðir í mannúðarstarfinu. Rauða kross deildin er mjög dugleg við að sannfæra sérfræðinga frá heilbrigðisgeiranum og öðrum mannúðarstofnunum um að gefa af tíma sínum og þekkingu til þess að mennta sjálfboðaliðana. Áhuginn og gleðin var áberandi í hópnum sem taldi rúmlega tuttugu manns. Eftir hádegismatinn, sem er eina framlag deildarinnar til þeirra sem leggja starfinu lið, safnaðist hópurinn saman og hóf að syngja. Undirrituð gat ekki haldið aftur af tárunum sem safnast höfðu upp allan morguninn, þegar "englarnir í Soweto" hófu upp raust sína og glöddu alla þá sem hópuðust inn í garðinn fyrir utan litlu bygginguna sem hýsir þessa merku starfsemi.

Ég tel mig afar lánsama að hafa tækifæri til þess að kynnast fólki sem lifir og starfar í anda Rauða krossins um heim allan. Við þyrftum öll að fá að njóta þeirrar jákvæðu og staðföstu trúar sem fær sjálfboðaliða til að ráðast á garðinn hæstan og gefast aldrei upp þótt illa líti út með að aðstæðurnar batni á næstunni. Við hefðum öll gott af því að finna fyrir kærleikanum sem streymir til þeirra sem hafa til lítils annars að hlakka en vikulegrar heimsóknar sjálfboðaliða sem stundum geta ekkert gert annað en að sitja smástund og spjalla. Ég er stolt af því að tilheyra Rauða kross Íslands og þjóð sem með stuðningi sínum, gerir fólki eins og Mantshadi og "englunum" hennar, kleift að sýna mannúð í verki.  Bið að heilsa heim í vorið.