Geðheilbrigði í Írak

Guðbjörgu Sveinsdóttur

28. jún. 2003

 

Bagdad 28. júní 2003

 

Gedsjúkir á geðsjúkrahúsinu í Bagdad. Þar var öllu steini léttara stolið í kjölfar yfirtöku Bandaríkjamanna.
Nú hef ég dvalið hér í rúmar 4 vikur. Umfang Rauða krossins hefur þrefaldast hér síðan stríðinu lauk en mest er að gera í verndardeildinni. Enn er verið að leita að fólki sem hvarf í stríði Írana og Íraka og öllum hinum stríðunum sem á eftir komu. Ég vinn með hluta af heibrigðisstarfsmönnunum en þeim hefur fækkað síðan ég kom. Verið er að meta sjúkrahús og heilsugæslustöðvar og gera áætlanir um önnur verkefni. Svo er líka verið að dreifa sjúkragögnum og lyfjum þó að dregið hafi úr því. Heilbrigðisþjónustan í Baghdad er þó töluverð, þar eru 33 opinber sjúkrahús (auk margra einkasjúkrahúsa) og um 200 heilsugæslustöðvar.

 

Það má segja að uppsöfnuð áhrif þriggja stríða, ógnarstjórnar og 12 ára viðskiptabanns séu að opinber þjónusta, sérstaklega heilbrigðiskerfi, vatns- og frárennsliskerfi, rafmagn og skólakerfi, hefur gersamlega hrunið en fyrir 1990 var hún í nokkuð góðu lagi.  Sem dæmi má nefna að heilbrigðisráðuneyti landsins hafði árið 2002 til ráðstöfunar 5% af því fé sem það hafði fyrir 1990 en á sama tíma hefur fólki fjölgað um 15% samkvæmt tölum frá Alþjóða heilbrigðisstofnuninni. Launin eru hræðilega lág; læknar fá um 220 krónur á mánuði og hjúkrunarfólk um 150 krónur. Læknarnir drýgja tekjurnar með einkarekstri og hjúkrunarkonurnar á almennu deildunum fá borgað aukalega fyrir ýmis verk, s.s. að skipta um sáraumbúðir og sprauta sjúklinga. Auk lágra launa hefur menntun verið léleg og möguleikar til endurmenntunar engir síðasta áratuginn. 

 

Hjúkrun er starf fyrir lágstéttir og það hefur gengið illa að fá konur í þau störf. Ástæðan er að hluta til sú að það er ekki sæmandi konum að vinna við þetta, þær mega ekki koma við ókunnuga karla (af trúarástæðum) og eiga á hættu að geta ekki gifst. Reyndar er það svo að allir sjúklingar koma með fjölskyldumeðlim með sér sem sér um að þvo, mata og hugsa um grunnþarfirnar.

 

Geðsjúkdómar ekki "alvöru sjúkdómar"

Ég hef verið að skoða geðheilbrigðiskerfið og það er hvorki yfirgripsmikið né gott. Ástæðurnar eru að hluta til menningarlegar aðstæður. 70% sjúklinga fer til trúarlækna áður en þeir fara til geðlæknis þar sem menn trúa enn að geðsjúkdómar séu afleiðingar illra anda og að það sé verið að hegna fjölskyldunni með þeim. Þessir trúarlæknar reyna oft að lemja hið illa úr fólki, stundum með hræðilegum afleiðingum. Í heilbrigðiskerfinu er ekki litið á geðsjúkdóma sem alvöru sjúkdóma. Svo bætist við að lélegustu launin og vinnuaðstaðan er í geðheilbrigðiskerfinu en sumt starfsfólk er að vinna þar vegna þess að það hefur gert eitthvað af sér.

 

Þessir fordómar gegn geðrænum vandamálum gera það að verkum að ástandið er orðið alvarlegt þegar leitað er hjálpar þar sem sjúkdómurinn er falinn eins lengi og hægt er. Þá er skortur á geðlæknum ekki til að bæta ástandið. Geðlæknar voru 100 í landinu 1990 en nuna eru þeir aðeins 25-30. Margir hafa flúið og fyrrverandi forseti Íraks áleit það ekki mikilvægt að þeir væru fleiri. "Í Írak eru allir heilir á geði og því þarf ekki geðlækna eða geðdeildir," var hans mottó. Að hans mati var t.d. þunglyndi vestrænn sjúkdómur.

 

Eina bráðageðsjúkrahús landsins er hér í Baghdad og er með 70 rúm og göngudeild. Svo hafa nokkur svæðissjúkrahús geðdeildir, svo og hersjúkrahús, og ef það er talið með eru um 200 rúm fyrir bráðveika í þessu 26 milljón manna landi. Hjúkrun er ekki beint í hæsta gæðaflokki hér, það er eins og að vera kominn 100 ár aftur í tímann. Hjúkrunarkonurnar sitja fyrir framan deildirnar sem eru lokaðar, bíða eftir læknunum, gefa lyfin eftir tilmælum þeirra og hjálpa til við raflækningarnar sem fyrir utan lyfin er eina meðferðin sem boðið er upp á. Það má líka nefna það að raflækningar hér eru gefnar án svæfingar svo þetta líkist meira pyntingum.

 

Geðsjúkir í fangelsum

Börn fá enga þjónustu hér. Reyndar var opnuð lítil göngudeild á bráðageðsjúkrahúsinu fyrir börn en þjónustan þar var af skornum skammti og fagleg kunnátta og færni lítil. Það er ljóst að börnin þurfa gríðarlega hjálp. Þau hafa liðið mikið, þjást mörg hver af áfallastreitu og búa nú við mikið óöryggi og erfið kjör.

 

Örlög margra geðsjúkra er að enda á geðsjúkrahúsi fyrir lífstíð, á götunni eða það sem verst er í fangelsum víðs vegar um landið. Í Erbil (Kurdistan) eru 40 geðsjúkir geymdir í einum stórum klefa fangelsisins. Þetta fólk býr við hryllilegar aðstæður og ekkert af því hefur brotið af sér. Alþjóðaráð Rauða krossins tekur vonandi vel í tillögu mína um að gera upp húsnæði á sjúkrahúsinu til að koma þeim þangað.

 

Af þessu má sjá að landið þarf virkilega á hjálp að halda við að byggja upp heilbrigðiskerfið en það þarf að bíða með að hleypa nýjum verkefnum af stokkunum þangað til einhvers konar stjornvöld eru komin til starfa. Vandamálið er að andúð og andstaða við bandaríska og breska herinn fer vaxandi en eftirleikur stríðsins hafði greinilega ekki verið nægilega vel undirbúinn. Það vantar ýmislegt, t.d. öryggi, vatn og allar grundvallarþarfir fólks. Fólk sem hefur vinnu mætir útkeyrt og þráðurinn er stuttur vegna svefnleysis (sem orsakast af miklum hita). Það er líka ótrúlega niðurdrepandi að sjá hvaða áhrif þetta ástand hefur á vinnuandann. Spennan hér er að aukast eins og heyrst hefur í fréttum, hitinn úti eykst með hverjum deginum sem líður og maður getur rétt ímyndað sér hvernig það er að hafa hvorki almennilegt rafmagn né vatn. Í fátækasta hluta borgarinnar standa konur í gríðarlega langri biðröð í hitanum eftir gasi og karlarnir rétt hjá í biðröð eftir bensíni.

 

Fólk er óþolinmótt að bíða  eftir að einhvers konar ríkisstjórn hefji störf hér og geti farið að taka ákvarðanir um ýmis mál sem brenna á þjóðinni. Hersetuliðið segir hins vegar að það verði að tryggja öryggið fyrst þannig að þetta er í raun vítahringur.

 

Á hverjum degi er himinninn svartur af reyk frá bensínstöðvum eða opinberum byggingum sem sumar hafa brunnið 2-3 sinnum áður og þegar maður sér margar þyrlur fljúga yfir í einu veit maður að eitthvað hefur gerst. Fyrir utan þetta heyrir maður reglulega skothvelli. Í gær fór ég t.d. ásamt nokkrum öðrum að kaupa mat og við urðum að vera inni í búðinni heillengi meðan skothríð gekk yfir ofar í götunni.  Fólk hefur ekki fengið laun ef það hefur vinnu, mörg lyf eru ófáanleg og betl fer vaxandi, svo ekki sé minnst á mannrán, nauðganir og ýmis ofbeldisverk sem áður voru fátíð hér.

 

Hryðjuverk og glæpir

Hryðjuverkum fer fjölgandi, svo og glæpum og þeir eru að verða skipulegri. Hér var milljón manna her (í hann fór allur peningurinn) og fólk var og er vopnað. Ekki bætir úr skák að fólk segir að hersetuliðið sé heldur þröngsýnt menningarlega séð og það sjáist á umgengni þeirra við fólk. Hér gilda strangar öryggisreglur sem maður fer eftir eins og þræll, útgöngubann er kl. 21:00 og ekki má fara inn á bannsvæði né vera á stöðum sem hermenn sækja, s.s. internetkaffihúsum og veitingastöðum. Sennilega eiga reglurnar eftir að herðast frekar en hitt.

 

Flestar opinberar byggingar og hallir fyrrverandi forseta eru sprengdar og hér er stundum fljót af klóaki á götunum. Í sveitunum hér í kring notar fólk vatnið úr Tigris til allra nota en grunur leikur á að nokkrar tunnur af úrani hafi tæmst í vatnið skömmu eftir stríð. Sum sjúkrahúsin eru mjög illa leikin eftir skemmdarverk og stuld. Alls staðar fær fólk niðurgang og öndunarfærasýkingu og svo má ekki gleyma skotsárum og missi útlima eftir ósprengdar sprengjur sem liggja víða.

 

Það var eins og að koma til annars lands þegar ég kom til Kúrdistan. Allt var rólegt og jafnvel hreint, áhrif stríðsins á svæðinu urðu nánast engin en alls staðar eru yfirgefin fangelsi og herstöðvar írakska hersins svo og skriðdrekar í röðum. Á skiltum stendur gjarnan "thank you mr. Bush". Þeir eru sælir með sig og tekst vonandi að sneiða framhjá innbyrðis deilum sem hafa þjakað þá. Þar var ástandið reyndar svipað í geðheilbrigðismálum en þar er þó farið að gera ýmislegt. T.d. var kvennaathvarf stofnað þar fyrir 4 árum og þar vinna 4 konur ótrúlegt starf, vinna með konunum að bættu lífi, öryggi og sjálfsákvörðunarrétti og vinna einnig með fjölskyldunum og umhverfi kvennanna þvert á andúð og fordóma. Þær fylgja konunum eftir og eiga nú gott samstarf við aðra í heilbrigðiskerfinu. Það var virkilega gefandi að hitta þær mitt í þessari eyðimörk!

 

Spenna í Suður-Írak

Suður-Írak og Basrah, sem eru aðalvígi Shia-múslima, hafa orðið harðast úti, bæði í öllum stríðunum og vegna fyrrverandi stjórnar. Fátæktin er gífurleg og skortur er á öllu. Áður var þar mikil velsæld því þetta er ríkt svæði en nú minnti það helst á draugaborg. Þar er farið að bera á andófi gegn hersetunni. Ýmsum búðum sem höfðu vestrænan varning á boðstólum hefur verið lokað og konur þurfa að hylja sig. Það var greinilega mikil spenna, andúðin var líka að aukast gagnvart öðrum útlendingum og ég var hálf fegin að fara þaðan.

 

Það er greinilegt að þetta svæði má muna sinn fífil fegurri. Sums staðar, eins og í Kerbala, eru svo fagrar moskur að maður stendur á öndinni, mósaíkið, gullið og turkisbláu litirnir er engu líkt. Markaðarnir eru sums staðar mjög litríkir, grænmetið, döðlurnar, hneturnar, kjötið af nýslátruðu lambi og svo allt fólkið. Það úir og grúir af svartklæddum konum að kaupa í matinn og oftar en ekki bera þær fenginn á höfðinu og eru með mörg börn sér við hlið. Karlarnir hafa það náttúrulega gott, þeir geta klæðst hvítum serkjum og eru margir mjög tignarlegir með klútana á höfði sér (kallast ougal). Yfir öllu hljóma svo bænaköllin úr moskunum.

 

Umferðin er eitthvað sem ekki er hægt að lýsa. Hér eru engin götuljós sem virka, fáar götulöggur og ef ljósin virka fer enginn eftir þeim. Það er bara keyrt af stað inn í bílamergðina. Bílarnir eru flestir að hruni komnir. Svo eru líka auðvitað hesta- og asnakerrur og rútur og oft mætir maður einhverju farartæki á móti umferð.

 

Úr Þúsund og einni nótt

Fólkið sem ég hef kynnst er mjög vingjarnlegt, geysilega gestrisið og vill allt fyrir mann gera. Það er eins gott að vera ekkert óþolinmóður þegar maður fer t.d. að skoða spítala. Maður þarf að setjast með stjóranum, þar er alltaf fullt af fólki og maður verður að fá te og spjalla. Á deildunum tekur það sama við; te og spjall um hitt og þetta áður en erindið er rætt. Og maður fer ekki í nema 2 heimsóknir á dag því fæstir eru við eftir kl. 13 á daginn. Það er samt dálítið skrítið að sumir karlmannanna taka ekki í hendur manns, heldur nikka til manns. Ég veit ekki hvort mér tækist að venja mig við það!

 

Margir eru náttúrulega daufir yfir ástandinu og sjá ekki alveg framtíðina fyrir sér. Þó er það sameiginlegt flestum að fólkið þurfi að fá sjálft ráðstöfunarréttinn yfir landinu sem fyrst. Flestir eru jákvæðir gagnvart Rauða krossinum. ?Þeir lofa litlu en gera mikið," sagði einn. Góð meðmæli það!

 

Það er ævintýri að keyra yfir árnar Tígris og Efrat, horfa á döðlupálmaskóginn og ímynda sér fortíðina, söguna og ævintýrin úr Þúsund og einni nóttu. Hitinn er gríðarlegur (46 stig í skugga) og fer vaxandi. Maður skýst á milli húsa hér og er alveg búin að vera. Ef ekki væru loftræstingar væri ég dáin! Á nóttunni fer oft rafmagnið og þá vakna ég upp rennandi af svita. Ég ætla aldrei að kvarta yfir hitastiginu á Íslandi aftur! Maður verður að drekka minnst 4 lítra af vatni á dag, annars fær maður mjög slæman höfuðverk. Vinnudagarnir eru mjög langir, maður mætir kl. 8 og fer ekki heim fyrr en 6-7. Skriffinnska er mikil og valdafyrirkomulagið líkist of mikið hernum. Frídagurinn er auðvitað föstudagur og maður er alveg ruglaður að vikan byrji á laugardegi.

 

Vonandi lagast ástandið hér. Lögleysunni verður að linna, það verður að fara að byggja upp kerfið og öryggið ef ekki á allt að fara úr böndunum. Fólkið hér á það virkilega skilið að lifa í friði, raunverulegu frelsi og öryggi.


 

Guðbjörg Sveinsdóttir sendifulltrúi

Bagdad