Michael Schulz verður fulltrúi sendinefndar Rauða krossins hjá Sameinuðu þjóðunum

15. ágú. 2005

Michael Schulz hefur verið skipaður fulltrúi við sendinefnd Alþjóðasambands Rauða krossins í New York. Michael verður næstráðandi í nefndinni sem hefur áheyrnarstöðu hjá Sameinuðu þjóðunum í New York. Skipað er í stöðuna til tveggja ára.

Michael hefur unnið síðustu 25 ár við hjálparstörf fyrir Rauða krossinn. Síðast vann hann fyrir Rauða kross Íslands þegar hann fór sem sendifulltrúi til Palestínu og gegndi stöðu formanns sendinefndar Alþjóða Rauða krossins og Rauða hálfmánans.

Sendinefnd Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans í New York  er tengiliður hreyfingarinnar við Sameinuðu þjóðirnar og undirstofnanir þeirra. Hlutverk sendinefndarinnar er að vera tengiliður hreyfingarinnar við sendinefndir ríkja og koma á framfæri áherslumálum Rauða kross hreyfingarinnar innan Sameinuðu þjóðanna. Þegar áföll verða tekur sendinefndin þátt í að samhæfa störf Alþjóðasambandsins og Sameinuðu þjóðanna á vettvangi.

Vegna málsvarastarfs sendinefndarinnar í New York er starfsemi Rauða kross hreyfingarinnar til umfjöllunar í ýmsum ritum Sameinuðu þjóðanna, þ.á.m. í mikilvægum ályktunum og í skýrslum Kofi Annans til þings Sameinuðu þjóðanna. Síðastliðin sex ár hafa störf landsfélaga Rauða krossins og Alþjóðasambandsins verið til umræðu í einum 50 ritum Sameinuðu þjóðanna. Störf sendinefndarinnar hafa einnig leitt til þess að 45 forystumenn landsfélaga hafa komið sínum sjónarmiðum að hjá þingi Sameinuðu þjóðanna, hjá ECOSOC og hjá öðrum mikilvægum stofnunum Sameinuðu þjóðanna í New York. Sendinefndin hefur einnig unnið að því að tryggja fjárhagslegan stuðning við Alþjóðasambandið og landsfélög.