Enn veitt aðstoð til fórnarlamba flóðbylgnanna í Sri Lanka

Sólveigu Ólafsdóttur

1. júl. 2005

Fatima og fjölskylda hennar.
Átök milli hersveita stjórnvalda og frelsishers Tamila hafa markað djúp spor í líf fólks í Tincomalee-héraði í Sri Lanka þrátt fyrir að samið hafi verið um vopnahlé árið 2002. Fólk hefur misst heimili sín, aðrir hafa týnst og fjölskyldur hafa sundrast. Margir hafa misst ástvini, heimili og lífsviðurværi síðustu ár og hafa orðið fyrir miklu sálfræðilegu tjóni vegna stríðsátakanna.

Þetta fólk varð svo fyrir enn einu áfallinu 26. desember sl. þegar flóðbylgjan mikla skolaði burtu strandbæjum víðs vegar á Sri Lanka. Þorp voru jöfnuð við jörðu og nærri 40 þúsund manns létu lífið. Um 500 þúsund manns á eyjunni misstu heimili sín.

Í desember sl. hafði Alþjóða Rauði krossinn brugðist við flóðum í Trincomalee með neyðaraðstoð til fólksins í héraðinu. Dreifingu hjálpargagnanna var að ljúka þegar flóðbylgjan stóra reið yfir. Þrír starfsmenn ráðsins sluppu naumlega þegar bátur sem þeir voru á lenti í flóðbylgjunni. Á nokkrum mínútum sukku hundruð fiskibáta í héraðinu og mörg þorp voru lögð í rúst. Um þúsund manns létu lífið.

Á nokkrum klukkustundum hafði Alþjóðaráðið og Rauði kross Sri Lanka hafið gríðarlega neyðaraðstoð. Landssamtök Rauða krossins og Rauða hálfmánans víðs vegar um heiminn brugðust skjótt við og veittu aðstoð. Fimmtán ára vera Alþjóða Rauða krossins á Sri Lanka og reynsla þeirra við vinnu á átakasvæðum í norður- og austurhluta landsins tryggði Rauða kross hreyfingunni aðgang að fórnarlömbum um alla eyjuna.

Tvöfaldur harmleikur

Sú saga sem Fatima Sharif hefur að segja er dæmigerð fyrir þá harðneskju sem fólkið í Trincomalee hefur þurft að horfast í augu við síðustu ár. Hún er fórnarlamb bæði stríðsins og flóðanna og hefur í þeim misst bæði ástvini og heimili.

Eins og staðan er hjá henni í dag býr hún enn í tjaldi sem fjölskylda hennar fékk frá Alþjóðaráðinu eftir flóðbylgjurnar. Hún er ein af mörgum sem misstu heimili sín í þessum hörmungum.

Þegar starfsmenn Rauða krossins koma að heimasækja hana virðist hún undir það búin að fá slæmar fréttir. Maðurinn hennar hvarf árið 2003 og þá sneri hún sér til Alþjóða Rauða krossins. Starfsmennirnir tilkynna henni það að þrátt fyrir mikla leit bæði hjá stjórnvöldum og meðal frelsishersins hafi hann enn ekki fundist. Mál hans mun því enda meðal þúsunda annarra mála sem fjalla um týnt fólk. Meira getur Rauði krossinn ekki gert nema að nýjar upplýsingar fáist.

Það er erfitt fyrir Fatimu að fá þessar fréttir. ?Fyrsta áfallið kom eftir að maðurinn minn hvarf. Eftir það hefur lífið orðið enn erfiðara,? segir hún.

Horft til framtíðar

Fjölskylda hennar er enn að jafna sig á áfallinu eftir flóðin. Fatima vann sem þjónustustúlka í Sádi-Arabíu þegar flóðbylgjan skall á Trincomalee í þeim tilgangi að fá tekjur til að framfleyta fjölskyldunni. Hún kom strax til Sri Lanka um leið og hún fékk fréttirnar. Hún fann börnin sín þrjú, sem eru tveggja, fimm og átta ára, á lífi. Elsta barninu var bjargað úr sjónum en systir Fatimu, sem gætti barnanna þegar ósköpin dundu yfir, missti fimm ára son sinn. Nú finnst Fatimu að hún geti aldrei yfirgefið börnin sín aftur ? hún verði að vera á staðnum til að sjá um þau.

Þau búa hjá foreldrum hennar í Muthur, sem er múslimaþorp í Trincomalee. Þau hafa ákveðið að vera þar áfram þrátt fyrir að tjöld þeirra séu þau einu sem eftir eru af neyðarbúðunum sem reistar voru í miðjum bænum í kjölfar hamfaranna. Þau vilja ekki flytja í bráðabirgðahúsnæði sem stendur þeim til boða þar sem þau byggju þá of langt frá eina staðnum sem getur fært þeim lífsviðurværi ? of langt frá markaðnum og sjónum.

Eins og svo margir aðrir treystir þessi fjölskylda fyrst og fremst á þá aðstoð sem hún fær frá yfirvöldum og hjálparstofnunum á staðnum. Á meðan heldur fólk í norður- og austurhluta landsins áfram að treysta á aðstoð Rauða krossins. Sex mánuðum eftir að flóðbylgjan reið yfir er starf Alþjóða Rauða krossins smátt og smátt að breytast frá neyðaraðstoð yfir í að vinna í ýmiss konar áætlunum sem hrinda á í framkvæmd á þessu ári.

Á næstu mánuðum mun Rauði krossinn stuðla að enduruppbyggingu til hagsbóta bæði fyrir fórnarlömb flóðanna og stríðsátakanna. Byggja á upp lífsviðurværi fyrir fólkið, tryggja því vatn, hreinlætisaðstöðu og heilbrigðisþjónustu auk þess sem unnið verður með Rauða kross hreyfingunni að uppbyggingu til lengri tíma.