Milljón sjálfboðaliðar og öflug neyðaraðstoð en þörf á uppbyggingu

Ómar Valdmarsson sendifulltrúa í Indónesíu

8. okt. 2004

Ómar Valdimarsson við störf sín í Austur Tímor.
Sendifulltrúar Rauða kross Íslands veita ýmist neyðaraðstoð í kjölfar náttúruhamfara eða stríðsátaka eða þeir aðstoða landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans við að byggja upp starfsemi sína. Helstu verkefni í þessari þróunaraðstoð eru á sviði heilsugæslu, neyðarvarna og neyðaraðstoðar og við útbreiðslu mannúðarhugsjónar Rauða kross hreyfingarinnar en einnig á sviði fjármála og uppbyggingar landsfélaganna. 

Ómar Valdimarsson blaðamaður hefur starfað fyrir Rauða kross Íslands frá árinu 1991. Hann hóf störf sem sendifulltrúi fyrir félagið sem upplýsingafulltrúi í Tansaníu árið 1996. Hann hefur síðan þá starfað vítt um heiminn fyrir Rauða kross hreyfinguna og þekkir innviði hennar orðið mjög vel.

Í september 2003 hélt Ómar til starfa í Indónesíu þar sem hann starfar að uppbyggingu landsfélags Rauða krossins. Það sem af er þessu ári hefur mestur tími Ómars farið í eitt stærsta þróunarverkefni landsfélagsins til þessa, það er að búa til stefnu og starfsáætlun til næstu fimm ára eða 2005-2009. Nú er því verkefni senn að ljúka og gert er ráð fyrir að niðurstaðan verði rædd og samþykkt á aðalfundi félagsins í byrjun desember.

Samhliða verkefninu hafa lög indónesíska Rauða krossins verið til endurskoðunar. Ómar segir það ekki auðvelt verk en engu að síður mjög skemmtilegt. Fjöldi fólks um allt land hafi verið virkjaður til að taka þátt í verkefninu og margir lagt sitt af mörkum. 

?Indónesíski Rauði krossinn er gríðarlega stórt félag og á sumum sviðum mjög öflugt og sterkt, ekki síst þegar kemur að neyðaraðstoð í kjölfar náttúruhamfara sem eru tíðar hér. Ég hef einhvers staðar heyrt talað um að á degi hverjum verði 2,75 hamfarir einhvers staðar í landinu,? segir Ómar.

Samkvæmt skrám indónesíska Rauða krossins hefur félagið um milljón sjálfboðaliða. Ómar útskýrir að í Indónesíu séu 33 fylki og að í hverju fylki starfi Rauða kross deild. ?Svo eru um 360 byggðadeildir þar undir og þar fyrir neðan um 2.500 hreppadeildir,? segir hann og heldur áfram: ?Deildirnar eru mjög misjafnlega á veg komnar. Á Jövu, þar sem flest fólk býr og þar sem velferð er meiri en annars staðar, eru deildirnar margar vel starfandi. Í dreifðari byggðum, svo sem á Kalimantan, sem er indónesíski hluti Borneo, og á Papúa, eru margar deildir aðeins til á pappír. Það er mjög miður því þarfirnar eru óendanlegar og margt sem Rauði krossinn gæti gert til góða. Starf mitt felst einmitt að hluta til í því að virkja fólk til starfa á þessum svæðum. Það er krefjandi verk og tímafrekt en gefandi þegar árangur næst.? 
 
Fyrri störf Ómars fyrir Rauða kross Íslands:
? Upplýsingafulltrúi Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans á svæðisskrifstofu í Austur-og Suðaustur Asíu, í Kuala Lumpur/Bangkok, ágúst 1999 ? júlí 2003
? Ráðgjafi/verkefnisstjóri í upplýsingamálum fyrir alþjóðasambandið á eftirtöldum stöðum:
- Papua Nýja Gínea/Kyrrahafssvæðið 1999.
- Íran 1998.
- Zimbabwe/Svæði sunnanverðrar Afríku 1998.
- Indland 1997.
? Upplýsingafulltrúi Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Ngara, Tansaníu 1996.
? Frétta- og greinaskrif fyrir Rauða kross Íslands 1991-1996.