Íslenskur sendifulltrúi tekur við starfi yfirmanns spítalaþjónustu Alþjóða Rauða krossins

11. apr. 2005

Pálína að störfum í Austur Tímor þar sem hún stjórnaði spítala á árunum 2000 og 2001.
Pálína Ásgeirsdóttir sendifulltrúi tekur við starfi yfirmanns spítalahjúkrunarþjónustu Alþjóða Rauða krossins í Genf um næstu mánaðarmót.

Pálína mun starfa að uppbyggingu Rauða krossins í þeim löndum þar sem félagið aðstoðar sjúkrahús. Pálína hefur langa reynslu af störfum fyrir Rauða krossinn en síðan 1985 hefur hún unnið sem almennur hjúkrunarfræðingur, svæfingarhjúkrunarfræðingur og stjórnandi.

Síðast liðin tvö ár vann hún sem framkvæmdastjóri á fjórum spítölum í Afganistan með aðsetur í Kabúl. Jafnframt starfaði hún fyrir hönd Rauða krossins með Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni, svo og stórum styrktaraðilum sem styrkt hafa uppbyggingu hjúkrunarþjónustu í Afganistan.