Sólveig Þorvaldsdóttir til neyðarstarfa í Filippseyjum á vegum Rauða kross Íslands

4. des. 2006

Sólveig Þorvaldsdóttir heldur til Filippseyja í dag til neyðarstarfa á vegum Rauða krossins vegna fellibylsins Durians sem gekk yfir landið aðfaranótt föstudagsins 30. nóvember. Óttast er að allt að eitt þúsund manns hafi farist þegar aurskriður féllu á fjölda bæja í kjölfar úrfellis sem fylgdi fellibylnum. Talið er að um 40.000 manns hafi misst heimili sín þegar veðurofsinn gekk yfir miðbik eyjaklasans.

Sólveig er ein af níu manna neyðarteymi Alþjóðasambands Rauða krossins sem heldur utan í dag til að aðstoða filippseyska Rauða krossinn við neyðaraðstoð. Sjálfboðaliðar Rauða krossins hafa verið að störfum á hamfarasvæðunum frá því að hörmungarnar gengu yfir, og hafa þrjú neyðarteymi filippseyska Rauða krossins þegar hafið dreifingu hjálpargagna til íbúa á svæðinu.

Sólveig hefur starfað um árabil að neyðarvörnum innanlands, og fór meðal annars sem fulltrúi á vegum Sameinuðu þjóðanna vegna jarðskjálfanna í Tyrklandi árið 1999 og í Gujarat á Indlandi árið 2001, og til Haíti vegna fellibyls árið 2004. Þetta er í fyrsta sinn sem hún tekur þátt í neyðarstörfum á vegum Rauða krossins, en hún sótti námskeið Alþjóða Rauða krossins í neyðarhjálp nú í október sem fulltrúi Rauða kross Íslands.

Sólveig mun stjórna dreifingu hjálpargagna og verður að störfum með neyðarteymi Rauða krossins í um það bil einn mánuð. Samkvæmt upplýsingum filippseyska Rauða krossins þarf að koma sem fyrst hreinu drykkjarvatni, matvælum, teppum og segldúki til þeirra sem lifðu hörmungarnar af. Durian er fjórði fellibylurinn sem skellur á Filpsseyjum síðan í lok september.

Hægt er að styðja starf Rauða krossins á Filippseyjum með því að hringja í söfnunarsíma Rauða krossins 907 2020.