Fatagjafir koma að góðum notum í Kabúl

14. des. 2004

Rauði kross Íslands sendi föt til Afganistan. Hluti fatasendingarinnar var sérstaklega flokkaður og pakkaður fyrir börn á sjúkrahúsi sem Steina Ólafsdóttir sendifulltrúi Rauða krossins vann á.

Rauði kross Íslands stóð fyrir fatasöfnun á Lækjartorgi í maí sl. þar sem óskað var eftir hlýjum fatnaði á konur og börn í Afganistan. Almenningur brást vel við og söfnuðust um 10 tonn af fatnaði.

Þremur vikum síðar lenti á flugvellinum í Kabúl flugvél frá utanríkisráðuneytinu full af hjálpargögnum frá Rauða krossi Íslands og Hjálparstarfi kirkjunnar. Örn Ragnarsson formaður fataflokkunarstöðvar Rauða kross Íslands var með í för og afhenti fulltrúum Alþjóðasambands Rauða krossins og Indira Ghandi barnaspítalans hjálpargögnin.

Íslenskur sendifulltrúi, Steina Ólafsdóttir, starfaði á barnaspítalanum við endurhæfingu mænuskaddaðra barna. Hún tók við 182 kössum með barnafötum og var þeim aðallega dreift í Kabúl. Kassarnir innihéldu m.a. sérútbúna ungbarnapakka sem sjálfboðaliðar í Kópavogsdeild og Árnesingadeild bjuggu til. Einnig komu frá handavinnuhópi sjálfboðamiðstöðvar Reykjavíkurdeildar og félagsstarfi aldraðra í Norðurbrún 1 og Hvassaleiti handprjónuð teppi, treflar, sokkar og húfur. .

Mikið er um mænuskaddaða einstaklinga í Afganistan og fæstir þeirra geta unnið fyrir sér. Þeir eiga mörg börn og eru bláfátækir. Bæklunarsetur Alþjóðasambands Rauða krossins í Kabúl rekur heimaþjónustu þar sem sjúkraþjálfarar heimsækja þessa einstaklinga og sjá til þess að þeir geti bjargað sér sem best heima. Þeir tóku með sér fatnað sem þeir gáfu á þá staði.

Tvenn hjálparsamtök nutu einnig góðs af fatasendingunni. SERVE samtökin sem hjálpa blindum, heyrnarlausum og andlega- og líkamlega fötluðum börnum og LE PELICAN samtökin (French Humanitarian Organisation) sem reka skóla fyrir fátæk börn. 

Fötluðu börnin á Indira Gandhi barnasjúkrahúsinu í Kabúl fengu einnig talsvert af fatnaði úr sendingunni og það sem eftir var sent til Faizabad þar sem Alþjóðasambandið rekur bæklunarsetur og þangað sem annars staðar er full þörf á fatnaði því nóg er af börnunum sem þurfa á aðstoð að halda.

Sjá myndir sem Steina tók við afhendinguna: