Hátíðarstemmning í Hindane

Hlín Baldvinsdóttur

7. nóv. 2005

Nýja skrifstofa Rauða krossins í Hindane vígð 21. október, á degi rigningarinnar en það hefur varla rignt neitt að ráði síðan árið 2002, þannig að þetta var mikill gleðidagur.
Sjálfboðaliðar Rauða kross deildarinnar í Hindane í Mósambík vígja nýtt húsnæði. 

Það er ekki úr vegi, nú í byrjun vetrar, að láta hugann reika suður fyrir miðbaug þar sem sumarið er rétt að byrja.

Mósambíski Rauði krossinn hélt nýlega árlegan fund með samstarfsfélögum og tóku þátt í þeim fundi tveir fulltrúar frá Rauða krossi Íslands. Ferðin var jafnframt notuð til að heimsækja heilsugæsluverkefni sem Rauði kross Íslands hefur stutt frá árinu 2000, ásamt Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ). Mósambík er eitt af þróunarlöndum sem íslensk stjórnvöld hafa stutt í fleiri ár. 

Verkefnið fer fram í héraðinu Matutuine, í Hindane þorpunum en þar búa um fimm þúsund manns við erfið kjör. Það er Rauði krossinn í Mósambík sem sér um allar framkvæmdir og að sjálfsögðu með þátttöku sjálfboðaliða á staðnum. Auk þess að byggja upp þjónustu á sviði heilsugæslu með fyrirbyggjandi fræðslu, heimsóknum sjálfboðaliða á hvert heimili og byggingu heilsugæslustöðvar sem vígð var árið 2002 er einnig verið að styrkja innviði Mósambíska Rauða krossins á svæðinu. Eitt af því sem gert hefur verið í þeim tilgangi var að koma upp húsnæði fyrir sjálfboðaliða deildarinnar sem sinna verkefninu. Og nú í október síðastliðinn, við heimsóknina að norðan, var tækifærið notað og húsið vígt við hátíðlega athöfn. Sjálfboðaliðar og félagar Rauða krossins í Hindane hafa sjálfir lagt til vinnu við bygginguna en byggingarefni var greitt af verkefnisfé. 

Svæðið Matutuine er eitt af fátækustu héruðum í Mósambík en þar að auki herja náttúruhamfarir þar iðulega á íbúana, bæði flóð og þurrkar. Síðastliðin þrjú ár hefur varla komið dropi úr lofti og ástandið fer versnandi með degi hverjum. Starf sjálfboðaliðanna er ekki létt og hefur því mikið að segja að bæta aðstöðu þeirra. Félagsmenn og sjálfboðaliðar hafa nú stað til að hittast á, halda fundi og námskeið. Vígsla hússins bauð einnig upp á kærkomið tækifæri til þess að gera sér dagamun sem annars er sjaldgæft. 

Verkefnið mun halda áfram næstu tvö árin þar sem enn vantar talsvert upp á að Rauða kross deildin í Hindane geti sjálf haldið utan um þann hóp 89 sjálfboðaliða og félaga sem hafa tekið þátt í ýmsum þáttum þess fram að þessu. Fyrir utan ofangreint sjá sjálfboðaliðarnir um rekstur á skyndihjálparstöðvum sem eru á svæðinu og viðhaldi brunna, sem því miður gefa ekki mikið vatn þessa dagana. Stuðningur Rauða kross Íslands, ÞSSÍ og vinna starfsmanna og sjálfboðaliða Mósambíska Rauða krossins munu leggja áherslu á að efla deildarstarfið og samvinnu við yfirvöld og heilbrigðismálaráðuneytið í Mósambík þannig að íbúar geti sjálfir tekist á við lausn þeirra vandamála sem á þá herja.

Hægt er að skoða fleiri myndir frá hátíðarhöldunum. Myndirnar tók Elín R. Sigurðardóttir