Mongólía í kulda og sól

Þór Daníelsson sendifulltrúa

20. mar. 2007

Þór er sendifulltrúi Rauða krossins í Mongólíu og gegnir starfi yfirmanns Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC).

Mongólía er í norð-austur Asíu og hefur landamæri við Rússland í norðri og Kína í suðri og er því alveg landlukt. Landið er rúmlega 1,564,000 ferkílómetrar að stærð en til samanburðar þá er Ísland um 103,000 ferkílómetrar. Höfuðborg Mongólíu er Ulaanbaatar og er réttnefnd kaldasta höfuðborg heimsins. Þar er árlegur meðalhiti -1 gráða á celcius og þykir nokkuð gott miðað við aðra staði í Mongólíu. Annars eru sumrin heit, þurr og þægileg. Mongólía er líka kallað „land hins óendalega bláa himins” enda eru um 250 dagar af sól á ári.

Íbúar Mongólíu eru áætlaðir um 2,8 milljónir og um helmingur er undir 18 ára aldri. Helstu trúarbrögð eru Búddismi-Lamaistar 50%, trúleysingjar 40%, Shamanistar og kristnir 6% og Múslimar 4%. Helstu atvinnuvegir Mongólíu í gegnum tíðina eru búfjárrækt (hirðingjar) og landbúnaður. Landið er gríðarlega auðugt af náttúruauðæfum og má þar nefna: olíu, kol, kopar, tin, nikkel, sink, wolframstál, fosfat, gull, silfur og járn.

Stjórn Genghis Khans

Mongólar öðluðust fyrst frægð á 13. öld undir stjórn Genghis Khan, þegar þeir náðu undir sig stórum hluta af Asíu og austurhluta Evrópu, og voru komnir að Búdapest í Ungverjalandi þegar best lét. Eftir andlát Khans var veldinu skipt upp í nokkur valdamikil mongólsk lönd en þegar leið á 14. öldina flosnaði stórveldið upp og Mongólar snéru endanlega til baka á steppurnar sem í dag er Mongólía. Seinna varð Mongólía undir stjórn Kínverja en árið 1921 fengu þeir sjálfstæði með hjálp Rússa. Kommúnísk stjórn var sett á árið 1924. Við upplausn Sovétríkjanna gömlu árið 1990 varð Mongólía endanlega sjálfstætt ríki með lýðræðislegu stjórnarfyrirkomulagi.

Aukin framleiðsla og hátt heimsmarkaðsverð á gulli og kopar síðustu árin hefur rétt mikið við efnahag landsins sem var í mikilli niðursveiflu árin á undan. Samverkandi þættir eins og miklir þurrkar og harðir vetur, sem hafa stráfellt búfé hirðingja, settu hundruð þúsunda manna á hálfgerðan vergang. Frjálshyggjustefna ríkisstjórnarinnar þ.m.t. einkavæðing sem margir voru mótfallnir hjálpaði til að keyra tímabundið efnahag landins niður. Í dag hefur efnahagsuppsveiflan gert það að verkum að mikið er byggt af íbúðarhúsnæði, skrifstofu- og verslunarhúsnæði sem og hótelum. Mikið framboð er af neysluvarningi þ.m.t. dýrum bifreiðum sem aka nú á götum höfuðborgarinnar.

37 Rauða kross deildir starfa í Mongólíu

Rauði kross Mongólíu var stofnaður árið 1939 þegar Mongólía var hluti af Sovétríkjunum gömlu. Í dag eru 37 Rauða kross deildir um gjörvalla Mongólíu þar með talið átta í hverfum í höfuðborginni Ulaanbaatar. Fjöldi deilda endurspeglar sýslukerfið (og hverfisskipulag höfuðborgarinnar) í Mongólíu (sýsla er „Aimag”) en auk þess eru yfir 900 svokallaðar grunndeildir í „soum” eða undir-sýslum Mongólíu. Segja má að þetta víðtæka net Rauða kross Mongólíu sé ekki aðeins sérstakt heldur geri það að verkum að félagið nær örugglega til þeirra sem minnst mega sín. Þó er undantekning með hirðingjana sem eru dreifðir um alla Mongólíu og er mjög erfitt og dýrt að ná til þeirra. Þeir eru staðsettir á milli fjalla og dala og líka langt út á steppum. Áætlað er að hirðingjar séu um 30% þjóðarinnar.

Eftir að Mongólía fékk sjálfstæði gekk þjóðfélagið í gegnum mikil harðindi. Það efnahags- og félagslega öryggisnet, sem Rússar höfðu byggt upp, hrundi í raun á einni nóttu. Má þar nefna samvinnufélög sem flosnuðu upp og verksmiðjum sem var lokað eða þær einkavæddar með þeim afleiðingum að atvinnuleysi varð landlægt á stuttum tíma. Hirðingjar sem höfðu starfað í samvinnufélögum þurftu nú að sjá einir um sín dýr. Þegar Dzud (Dzud er ofurkuldar og snjókoma sem ganga yfir vetrartímann. Hitastigið getur farið niður í mínus 50 til 60 gráður á celsíus.)gekk nokkrum sinnum yfir Mongólíu á síðasta áratug féll á aðra milljón dýra meðal annars vegna þess að hirðingarnir höfðu ekki tök á að safna nógu miklum birgðum af heyi fyrir veturinn. Áhrif þessara efnahags- og veðurumbreytinga hefur gert það að verkum að um 500.000 manns hafa flosnað upp og flutt til höfuðborgarinnar Ulaanbaatar á síðustu 8 árum. Úthverfi höfuðborgarinnar er því að mestu leyti eitt tjalda- og kofahverfi með mjög takmarkaða innviði. Til dæmis er þar hvorki rennandi vatn og rafmagn.

Helstu verkefni tengjast Dzud

Á þessu tímabili hefur Rauði kross Mongólíu gengið í gegnum miklar skipulagsbreytingar með það að markmiði að efla innra skipulag sitt og ná betur til skjólstæðinga sinna. Helstu verkefni Rauða kross Mongólíu eru tengd forvörnum vegna Dzud þ.e.a.s. uppbyggingu viðbragðsmiðstöðva og einnig reka fleiri og fleiri deildir stórtækar sláttuvélar með tilheyrandi búnaði til að geta haft neyðarbirgðir af heyi yfir háveturinn.

Rauði krossinn vinnur öflugt forvarnarstarf með unglingum og er með viðtækar kynningar í skólum landsins sem byrja á lægstu skólastigum og jafnvel á barnaheimilum. Nokkur þúsund börn eru félagar í svokallaðari barnadeild Rauða kross Mongólíu. Eitt af hlutverkum mongólska Rauða krossins er að afla blóðgjafa og er þar sérstaklega einblínt á ungt fólk í menntaskólum og háskólum landsins. Rauði krossinn safnar þó ekki blóði sjálfur.

Heimsóknarþjónusta aldraðra er eitt áhersluverkefna Rauða krossins en félagslega kerfið hér í Mongólíu er enn í molum. Auk þess að heimsækja aldraðra einstaklinga er einnig reynt að brjóta upp einangrun fólks með því að reka litlar félagsmiðstöðvar í Ger tjöldum (Ger er nafn á hefðbundnu Mongólsku hringtjaldi en rekja má uppruna þess yfir 1000 ár aftur í tímann (sjá mynd). Þess má geta að Genghis Khan notaði risa Ger, sem hann hafði upp á vagni sem um 30 uxar drógu þegar hann stofnaði veldi sitt er náði yfir allt Kína og vestur að Ungverjalandi) í höfuðborginni sem og öðrum byggðarkjörnum / sýslubæjum um gervalla Mongólíu.

Mongólski Rauði krossinn er með fræðsluverkefni fyrir fanga um kynsjúkdóma og eyðni og er eitt verkefnið að heimsækja sérstaklega þá fanga sem eiga ekki fjölskyldu eða vini. Sumir þessara fanga hafa ekki fengið heimsókn í yfir fimm ár. 

Enn eitt verkefna Rauða krossins hér, fjármagnað af hollenska Rauða krossinum, er að byggja vatnsstöðvar við tjaldahverfi Ulaanbaatar. Vatnið í stöðvarnar kemur af tankbifreiðum og þær eru í raun eins og vatnsbúð sem selur neysluvatn á nokkra aura lítrann. Þetta hefur gert það að verkum að fólk í tjaldahverfunum þarf ekki að ganga langa vegalengd eftir vatni, sem jafnvel frýs á leiðinni.

Þessi upptalning er eingöngu hluti fjölda og víðtækra verkefna sem Rauði kross Mongólíu sér um.

Alþjóða Rauði krossinn og landsfélög styðja starfið

Hlutverk Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Mongólíu er meðal annars að samhæfa aðgerðir og samskipti við þau landsfélög sem vinna tvíhliða með Rauða krossi Mongólíu og þeirra sem kjósa að vinna gegnum fjölþjóðakerfi Alþjóðasambandsins. Skrifstofan sinnir einnig ráðgjafahlutverki, samskiptum við erlendar og innlendar stofnanir eins og ráðuneyti, Sameinuðu þjóðirnar og sendiráð. Skrifstofan tilheyrir svæðisskrifstofunni í Peking en þar eru sérfræðingar á hinum ýmsu sviðum sem kallaðir eru til þegar þörf er á. Í Kuala Lumpur í Malasíu er sérstök þjónustumiðstöð fyrir skrifstofur sambandsins sem tilheyra Asíu- og Kyrrahafsdeildinni (þ.m.t. Mongólía).  Þar er meðal annars fjármálaúrvinnsla, greining og innkaupadeild og sérstök skýrsludeild sér um að samhæfa skýrslur til þeirra sem styðja starfsemina. Einnig starfa sérfræðingar á sviði þróunarmála í Kuala Lumpur. Skrifstofan í Mongólíu er lítil.  Fyrir utan fjármálastjóra og bílstjóra er eingöngu einn sendifulltrúi að staðaldri. Ef Dzud skellur á er kallað eftir sendifulltrúum sem koma tímabundið til aðstoðar við framkvæmd neyðaraðgerða.

Gullgrafarar freista gæfunnar

Eitt verkefna Rauða krossins í Mongólíu er að sjá um skyndihjálparfræðslu og fræðslu um kynsjúkdóma til frjálsra gullgrafara.

Nýlega heimsótti ég svæði sem nefnist Bor tolgoi og October tolgoi í Selenge sýslu sem er í norður Mongólíu en það svæði er ríkt af gulli í jörðu niðri. Þar skammt frá er stórt kanadískt fyrirtæki með stóra og háþróaða vinnslu sem framleiddi níu tonn af gulli á síðasta ári. Á þessu svæði finnst sem sagt gull og freistast margir til að leita gæfunnar og grafa jarðgöng þar sem eingöngu er hægt að skríða á fjórum fótum með poka af sandi eða grjóti upp á yfirborðið.
 
Hlutverk hins venjulega gullgrafara er ýmisskonar en þó á sér stað ákveðin hlutverkaskipting á þessum stöðum. Í raun er um að ræða óhefðbundið samvinnufélag þar sem fólk skiptir sér upp í hópa. Á meðan eitt teymi er í göngunum að brjóta grjót og færa út úr göngunum sér annað teymi um að setja hnullungana með gullkornunum í litla mulningsvél sem mylur steinana í vatni og kvikasilfri. Kvikasilfur er mjög öflugt eitur og eftir situr gullið. Mengun frá þessari iðju er í raun á við lítið umhverfisslys.

Annað svæði sem ég fór til var Sharyn Gol sem tilheyrir Darkhan sýslu sem líka er í Norður-Mongólíu. Þar eru aðstæður til að ná gulli úr jörðu töluvert öðruvísi. Grafnar eru lóðréttar holur allt að 50 metra niður og mokað upp sandi og grjóti. Grjót er aðskilið frá sandinum og sandurinn borinn niður að næstu á. Áin var frosin þegar svæðið var heimsótt í febrúarmánuði en búið var að brjóta vakir í ísinn og þar voru þrír hópar að skola sandinn og ná litlum gullflögum úr honum.

Ljóst er að aðstæður þessara frjálsu gullgrafara eru mjög slæmar og tekjur ansi misjafnar. Áætlað er að á sumrin séu um 100.000 frjálsir (og ólöglegir) gullgrafarar að störfum í Mongólíu en annars starfa þeir allan ársins hring. Þessu ástandi má líkja við villta vestrið á sínum tíma, þar sem tjaldaþorp eru sett upp með tilheyrandi búðum.
 
Algengt er að námsmenn reyni að afla tekna á sumrin með því að taka þátt í þessu hættulega gullgrafarakapphlaupi. Dauðsföll eru algeng þar sem göngin eru oft óstyrkt og eiga til að hrynja. Nýlega náðist að bjarga níu mönnum úr einum göngunum eftir að þau  höfðu hrunið. Ef ekki hefðu verið stórvirkar vinnuvélar í nágrenninu er ljóst að þeir hefðu allir dáið.

Sérstakt námu-neyðarteymi fer á milli náma og ráðleggur fólki um öryggi eins og að styrkja göng. Þetta teymi er styrkt af mongólska ríkinu. Þó gullgrafararnir séu ólöglegir þá er reynt að bæta aðstæður þeirra og umhverfi.

Sjá nánar um starf Þórs Daníelssonar í Mongólíu.

Nánari upplýsingar um Rauða kross Mongolíu, verkefni þeirra o.s.frv. má finna á eftirfarandi vefslóð: http://www.redcross.mn/english/

Nýjustu upplýsingar um framgang verkefna er hægt að sjá á pdf skjali dagsett 26. febrúar 2007, á eftirfarandi vefslóð:
http://www.ifrc.org/docs/appeals/annual07/MAAMN00104.pdf

Veffang Þórs hjá Alþjóðasambandinu í Mongólíu er: thor.danielsson@ifrc.org

 Sjá myndir: