Að haga sér í samræmi við aðstæður

14. maí 2007

Öryggis- og streitustjórnunarnámskeið var haldið fyrir Veraldarvakt Rauða krossins í Bláfjöllum helgina 4. – 6. maí. 19 þátttakendur sóttu námskeiðið en markmið þess var að undirbúa sendifulltrúa fyrir störf á vettvangi.

Kynntar voru öryggisreglur Rauða kross hreyfingarinnar og rætt var um þær aðstæður sem upp kunna að koma við hjálparstörf erlendis og sem kunna að hafa áhrif á öryggi starfsmanna. Rætt var um orsakir og afleiðingar streitu og þátttakendum kynntar aðferðir til að draga úr streitueinkennum.

Þátttakendur rifjuðu upp þekkingu sína í skyndihjálp, kunnáttu í akstri jeppa, notkun gervihnattasíma, GPS staðsetningartækis, áttavita og talstöðva. Þeim voru einnig kynnt heilsufarsleg vandamál sem upp kunna að koma á vettvangi og hvernig hægt er að fyrirbyggja smit og veikindi. 

Fræðilegir fyrirlestrar voru fluttir á námskeiðinu, unnið var í hópum að úrlausn raunhæfra verkefna þar sem þátttakendur þurftu að kljást við siðferðilegar spurningar og verklegar æfingar fóru fram utandyra þar sem líkt var eftir aðstæðum á vettvangi.

Fyrirlesarar á námskeiðinu komu m.a. frá aðalstöðvum Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC) í Genf, landsskrifstofu Rauða kross Íslands, Landhelgisgæslunni og Símanum.  

Fjöldi sjálfboðaliða tóku þátt í verklegum æfingum utandyra sem og sérsveit Ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslan. Rauði krossinn fékk jeppa til afnota á námskeiðinu frá Toyota og skýli Svifflugfélags Íslands.

Rauði krossinn kann öllum sem að námskeiðinu komu bestu þakkir fyrir.