Við öðlumst þekkingu og færni sem nýtist líka þegar við förum út í samfélagið aftur

Helenu Laatio hjá Alþjóða Rauða krossinum í Baganur í Mongólíu

7. jún. 2007

Rauði krossinn fræðir fanga í Mongólíu um alnæmi og önnur heilbrigðismál ásamt því að aðstoða þá við að aðlagast lífinu utan fangelsisveggjanna eftir afplánun refsingar.

Átakanleg sýn blasir við komu í fangelsi bæjarins Baganuur, sem er í tveggja klukkustunda akstursleið frá höfuðborginni Ulan Baatar. Augu ungu mannanna sem sitja í þröngum klefunum stara út i tómið. Þeir eru í haldi fyrir ýmsar sakargiftir en þó aðallega fyrir þjófnað og innbrot, en sumir fyrir morð. Stysti dómurinn sem hægt er að afplána í Mongólíu er fimm ár, en tæpur helmingur þeirra 540 fanganna í Baganuur býst við að vera í strangri gæslu í 15 ár eða lengur.

Fangelsisyfirvöld vinna náið með deildum Rauða krossins í Mongólíu að því að draga úr áhættuhegðun í fangelsum landsins undir yfirskriftinni „Förum heil heim”. Farið var af stað með verkefnið árið 2004 en markmið þess er upplýsa fanga um alnæmi. Rauði krossinn sá um blóðskimun sem leiddi í ljós að enginn fanganna var HIV-smitaður en tíu prósent fangana greindust með kynsjúkdóminn sárasótt. Rauði krossinn tók þátt í að fjármagna meðferð við sjúkdómnum en vegna fjárskorts var henni hætt árið 2005. Á síðasta ári fjármögnuðu Alþjóða Rauði krossinn og Rauði kross Finnlands verkefnið þannig að hægt var að hefja meðferð á ný.

Auk þess að fræða fanga um heilbrigði hefur Rauði krossinn aðstoðað fyrrverandi fanga við að aðlagast lífinu utan fangelsisveggjanna eftir afplánun dóma. Er þetta eini stuðningurinn sem ungir afbrotamenn fá í Mongólíu sem oft enda á götunni eftir fangelsisvist og fara þaðan beint í fangelsi á nýjan leik.

Fangar fræða fanga
Mikilvægur hluti verkefnisins „Förum heil heim” er að þjálfa fanga í jafningjafræðslu. Félagsráðgjafar kenna þeim skyndihjálp og fleira gagnlegt. 45 fangar starfa nú við jafningjafræðslu í fangelsinu í Baganuur.

 Fangar sem sjá um jafningjafræðslu ræða við starfsmann Alþjóða Rauða krossins um verkefnið „Förum heil heim".
„Flestir sem starfa við jafningjafræðslu hafa hegðað sér vel í fangelsinu sem getur hjálpað til við að milda dóm þeirra,” segir H. Oureysuran, sem hefur stýrt fangelsinu í mörg ár. „Þeir hugsa meira um sjálfa sig og almennt hreinlæti og sjálfsálit þeirra hefur aukist.”

Auk skyndihjálparþjálfunar skipuleggur Rauði krossinn einnig íþróttaviðburði og keppnir fyrir fangana, einnig óformlega umræðuhópa sem hjálpar þeim og skapar gott andrúmsloft.

Hingað til hafa yfir 700 fangar notið heilbrigðisfræðslu Rauða krossins í Baganuur.

„Þetta er mjög gagnlegt því við öðlumst þekkingu og færni sem hjálpar okkur þegar við förum „út í sólina”,” eins og ungur fangi sem vinnur við jafningjafræðslu lýsir stundinni þegar fangar eru látnir lausir.

Rauði kross Íslands
Þór Daníelsson, yfirmaður Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Mongólíu, og sendifulltrúi Rauða kross Íslands var með í för þegar fangelsið var heimsótt. Tilgangur heimsóknarinnar var að meta aðstæður fanganna og eins að athuga hvort Rauði krossinn gæti hugsanlega mætt öðrum þörfum þeirra. Má þar nefna að margir þeirra eiga ekki fjölskyldur og hafa þar af leiðandi ekki fengið utanaðkomandi heimsókn í fjölda mörg ár. Nýlega var fangelsið sett á svokallaðan „heimsóknarlista” hjá Rauða krossi Mongólíu en þá eru þeir fangar sem hafa ekki fengið heimsókn í fimm ár eða lengur heimsóttir af sjálfboðaliða Rauða krossins sem færir þeim nauðsynjarvörur og veitir þeim sálrænan stuðning. Þetta frumkvæði hefur reynst mjög vel.