Blóðgjöf og heyöflun helstu áhersluverkefni í Mongólíu

13. sep. 2007

Landið og þjóðin
Mongólía er víðfemt og strjálbýlt land sem liggur milli Rússlands í norðri og Kína í suðri. Landið er sjöunda stærsta land heims eða um 1.56 milljón ferkílómetrar. Íbúar þess eru um 2,5 milljónir. Um helmingur þeirra býr í höfuðborg landsins Ulaanbaatar sem er kaldasta höfuðborg heims með meðalhita upp á um 1 gráðu á selsíus.

Rauði kross Mongólíu
Rauði kross Mongólíu (RKM) var stofnaður árið 1939. Félaginu er skipt upp í 37 deildir, einni í hverri sýslu (Aimag) og níu hverfisdeildir í höfuðborginni. Í hverri sýslu eru svo yfir 20 héruð (Soum). Net sjálfboðaliða RKM nær til allra þessara héraða sem eru 902 samtals og í hverju þeirra er Rauða kross skrifstofa. Yfirleitt eru skrifstofurnar ýmist hluti af heilsugæslustöð bæjarins eða bæjarskrifstofum.

Langtímamarkmið Rauða kross Mongolíu er að vera landsfélag sem getur staðið á eigin fótum án utanaðkomandi aðstoðar. Til þess þarf það að hafa traustan fjárhagslegan grunn, öflugt og vel menntað starfsfólk, fjölmennan hóp sjálfboðaliða og geta tekið þátt í starfi Alþjóðahreyfingar Rauða krossins.

Heilbrigði og umönnun
Mörg helstu verkefni RKM endurspegla áherslur Alþjóðahreyfingar Rauða krossins á sviði heilbrigði og umönnunar. Má þar nefna skyndihjálp, öflun blóðgjafa, heimsóknaþjónustu til aldraðra, fatlaðra og alnæmissjúkra, upplýsingagjöf um smitleiðir alnæmis og rekstur stöðva þar sem fólk getur farið í blóðrannsókn t.d. vegna gruns um alnæmi eða kynsjúkdóma. Þessar stöðvar eru reknar í samstarfi við heilsugæslustöðvar og spítala.

Blóðgjafar
Að fá fólk til að gefa blóð er eitt af áhersluverkefnum RKM en samkvæmt lögum sem sett voru árið 2000 er það á ábyrgð félagsins. Blóðgjafar í landinu er hlutfallslega mjög fáir og blóðið sem gefið er er oft lélegt að gæðum. Samkvæmt Alþjóða heilbrigðismálastofnunni (WHO) er áætlað að allt upp undir 50% af Mongólum séu með lifrabólgu A, B og / eða C.

Blóðbankar í landinu eru búnir mjög fátæklegum tækjakosti. Afleiðingin er sú að ekki er unnt að taka blóðprufu áður en nýr blóðgjafi er tekinn inn í kerfið heldur eru teknir allt að 450 cl. af blóði í hvert sinn og ef blóðið er ónothæft þá er því einfaldlega hent.
 
Verkefni RKM er því mjög brýnt. Eitt af því sem hefur verið gert er að prenta og dreifa bæklingum til námsmanna í menntaskólum landsins um nauðsyn blóðgjafar. Fjármagn til prentunar og dreifingar bæklinganna hefur fengist frá Rauða kross félögum í öðrum löndum en ríkisstjórnin hefur ekki lagt til fjármagn til verkefnisins. Nú vinnur RKM að því að fá alþjóðastofnanir sem starfa í landinu í samstarf um verkefnið jafnframt því að þrýsta á yfirvöld í landinu til þess að beina fjármunum til þessa mikilvæga starfs.

Vatnsverkefni
Eitt af stóru verkefnum RKM er rekstur vatnsbúða í Gerhverfum í Ulaanbaatar. Gerhverfin eru tjaldbúðir hirðingja sem hafa neyðst til að flytja til borgarinnar vegna skorts á beitilandi fyrir búfénað. Í þessum hverfum búa um 500.000 manns án vatnsveitu.
Í vatnsbúðum Rauða krossins geta íbúarnir keypt gott neysluvatn í miklu magni á lágu verði. Þetta mikilvæga verkefni er unnið í samstarfi við hollenska Rauða krossinn og stefnt er að því að borgaryfirvöld í Ulaanbaatar taki við rekstrinum árið 2009.

Neyðarvarnir
Eitt af stærstu verkefnum RKM er að efla neyðarvarnir. Mongólíu er skipt upp í sjö landssvæði og eru neyðarvarnarstöðvar Rauða krossins í þeim öllum. Sem hluti af neyðarvörnum hefur verið útbúið svokallað heyverkefni sem felst í því að sjálfboðaliðar RKM slá hey og koma í hús fyrir vetrarbyrjun. 15 deildir sjálfboðaliða Rauða krossins vinna nú að þess háttar verkefnum og búast má við að enn fleiri deildir sinni því árið 2008.

Deildirnar sem taka þátt í heyverkefni fá til afnota traktor, sláttuvél, heyrökunartæki og heyböggunartæki. Deildir syðst í Gobi eyðimörkunni hafa hingað til ekki tekið þátt í verkefninu þar sem þar er ekkert gróðurlendi en lagt hefur verið til að þessar deildir fái til afnota þau tæki sem til þarf  sem og vörubifreið til heyverkefnis. Hugmyndin er að þær slái hey í annarri sýslu og flytji það síðan til Gobi.

Tilgangur heyverkefnisins er sá að til séu birgðir af heyi þar sem hætta er á Dzud (mongólskt nafn sem getur þýtt bæði hvítur dauði og svartur dauði), þ.e.a.s. gífurlegri snjókomu eða ofurfrosti á hverju ári. Þess má geta að hirðingjar í Mongólíu eiga ekki útihús fyrir dýrin sín en setja stundum upp lauslegar girðingar eða grjótveggi. Þeir allra fátækustu (sem mælist eftir því hve fá dýr þeir eiga) safna sjaldan heyi eða hafa hreinlega ekki tök á að slá hey og staða þeirra er því mjög slæm þegar illa árar.  RKM hefur ákvörðunarrétt um hversu mikið af heyi er gefið og hversu mikið er selt sem fjáröflun fyrir deildina. Reynslan af þessu verkefni sem og áhrif á samfélagið hefur verið mjög góð.

Skrifstofa Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Mongólíu
Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans styður við landsfélagið í Mongólíu meðal annars með því að senda starfsmann á svæðið sem aðstoðar landsfélagið við að byggja upp starfssemi sína, síðast en ekki síst á sviði fjáröflunar og í að afla fjármagns til ýmissa verkefna erlendis frá þar sem fjáröflun innanlands er almennt enn nokkuð veikburða. Starfsmaðurinn hefur aðstöðu inn á landsskrifstofu mongólska Rauða krossins í höfuðborginni.

RKM hefur notið aðstoðar Rauða kross í öðrum löndum við ýmis verkefni. Í svokölluðu  tvíhliða samstarfi hefur starfsmaður Alþjóðasambandsins komið að samningum sem milligönguaðili. Hlutverk hans er þá að hafa eftirlit og / eða samhæfa verkefni. Hann sér með öðrum orðum til þess að ekki verði um tvíverknað á framkvæmdum verkefna að ræða. 

Skrifstofa Alþjóðasambandsins í Mongólíu hefur milligöngu um 50% alls fjárstuðnings sem RKM fær frá Rauða kross félögum í öðrum löndum. Hin 50% fær RKM með beinum tvíhliða samningum við önnur landsfélög. Alls nemur upphæð aðstoðar Rauða kross hreyfingarinnar við RKM árið 2007 vel yfir tvær milljónir svissneskra franka.

Í Beijing í Kína er staðsett svæðisskrifstofa Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans fyrir Austur-Asíu og í Kuala Lumpur í Malasíu er yfirsvæðisskrifstofa fyrir Asíu og Kyrrahafið. Á þessum skrifstofum eru ýmsir sérfræðingar að störfum sem veita landsfélögum tæknilega aðstoð á sviði heilbrigði og umönnunar, neyðarvarna og neyðaraðstoðar, á fjármálasviði og á sviði þróunar og uppbyggingar félagasamtaka.

RKM getur kallað eftir aðstoð sérfræðinga við undirbúning og framkvæmd verkefna og til að efla þekkingu og færni sjálfboðaliða og starfsmanna. Starfsmaður Alþjóðasambandsins í Mongólíu hefur milligöngu um aðstoðina og hefur samskipti við sérfræðinga Alþjóðasambandsins á svæðisskrifstofunum. Hann veitir sérfræðingunum svo einnig nauðsynlega aðstoð og samhæfir störf þeirra með RKM.

Starfsmaður Alþjóðasambandsins í Mongólíu er málsvari RKM og kynnir starsemi félagsins og vinnur að fjáröflun meðal annars í viðræðum við erlenda erindreka og erlendar stofnanir með aðsetur í landinu. Hann tekur þátt í mánaðarlegum samráðsfundum þar sem fulltrúar Sendiráða og Alþjóðastofnanna koma saman og ræða helstu mál. Þessi vettvangur er kjörinn kynningarvettvangur um verkefni RKM og aðstæður sem félagið býr við.

Sem dæmi um árangur af kynningar- og fjáröflunarverkefnum má nefna að: Alþjóðaþróunardeild Breska utanríkisráðuneytisins (DFID) fjármagnar verkefni MRK á sviði neyðarvarna fyrir milligöngu Alþjóðasambands Rauða krossins; UNPF (United Nation Population Fund) hefur fjármagnað alnæmisverkefni RKM; að tyrkneska þróunarsamvinnustofnunin og alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) athuga nú möguleika á samstarfi við RKM við að fjölga blóðgjöfum í landinu.

Rauði kross Íslands
Rauði krossinn á Íslandi aðstoðar Rauða krossinn í Mongólíu með því að leggja til starfskrafta Þórs Daníelssonar sem eina fulltrúa alþjóðasambands Rauða krossins í Mongólíu. Þór, sem hefur BA gráðu í viðskiptafræðum og stundar mastersnám í þróunarfræðum við Háskóla Íslands, hefur gegnt starfi fulltrúa alþjóðasambands Rauða krossins í Mongólíu frá því í september 2006. Hann lýkur störfum í september 2008. Áður starfaði Þór á landsskrifstofu Rauða kross Íslands sem verkefnisstjóri fjáröflunar.

Þór Daníelsson Sendifulltrúi Rauða kross Íslands sem er fulltrúi Alþjóða Rauða krossins Í Mongólíu fór nýverið um landið og heimsótti sjálfboðaliða og starfsmenn Rauða krossins til undirbúnings verkefna- og fjárhagsáætlunar fyrir árin 2008 og 2009. Þór tók myndir á ferð sinni um landið sem lýsa vel ástandinu í landinu sem og starfi Rauða krossins.