Íslenskur sendifulltrúi tekur þátt í kennslu fyrir hermenn í Búrúndí

1. okt. 2007

Hrafnhildur Sverrisdóttir starfar sem sendifulltrúi í sendinefnd Alþjóðaráðs Rauða krossins í Búrúndi þar sem hún starfar að vernd þeirra sem ekki taka þátt í stríðsátökum. Eitt af aðalverkefnum sendinefndarinnar síðustu ár hefur verið að þrýsta á stjórnvöld landsins um að virða Genfarsamningana bæði á stríðs- og friðartímum.

Starfið hefur meðal annars leitt til þess að hinn 18. september síðastliðinn innleiddu hermálayfirvöld í Búrundi alþjóða-mannúðarlögin inn í námskrá herskóla. Búrúndi hefur verið aðili að Genfarsamningunum síðan 1971 og aðili að viðbótarbókunum I og II síðan 1993. Aðild Búrúndi að Genfarsamningunum gerði yfirvöldum skylt að stuðla að sem mestri útbreiðslu á efni samninganna, bæði til almennings og hermanna í landinu.

Til að hermálayfirvöldum í Búrúndi takist sem best til við kennslu mannúðarlaganna í framtíðinni, hefur sendinefnd Alþjóðaraðsins staðið að sérstakri þjálfun yfirmanna hersins í kennslu á mannúðarlögunum. Þeir munu í framtíðinni taka að sér reglulega kennslu efnisins fyrir óbreytta hermenn í herskólum landsins. Samhliða þessu verkefni Alþjóðaráðsins, hefur Hrafnhildur, ásamt samstarfsmönnum sínum, staðið fyrir fræðslunámskeiðum um mannúðarlögin fyrir hermenn í landinu.

Á þessum námskeiðum sjá þeir yfirmenn hersins, sem þegar hafa hlotið þjálfun, um kennslu mannúðarlaga á meðan sendifulltrúar Alþjóðaráðsins taka að sér að kynna mannúðarstörf Rauða krossins sem byggjast á Genfarsamningunum sem og þau mannúðarverkefni sem Rauði krossinn stendur að í Búrúndi.

Ásamt námskeiðunum, felast störf Hrafnhildar í því að heimsækja fanga og kanna aðstæður þeirra í fangelsum landsins í þeim tilgangi að bæta aðbúnað þeirra og til að koma í veg fyrir pyntingar, aftökur án dóms og laga og mannshvörf.