Harður vetur í vændum í Mongólíu eftir þurrkasumar

Francis Markus frá Alþjóða Rauða krossinum í Darkhan, Mongolia

16. okt. 2007

Mennirnir ellefu hafa unnið baki brotnu að heyskap frá morgni til kvölds á hverjum degi frá því að þeir slógu upp tjaldbúðum sínum hér um bil 200 km fyrir norðan Ulaanbaatar, höfuðborg Mongólíu. Það var hins vegar ekki vegna þess að þeir hefðu ekki lagt nógu hart að sér sem heyfengur þeirra var minni heldur en í fyrra heldur hafa veðurfarsbreytingar valdið því að heyfengur fer minnkandi ár frá ári.

Miklir þurrkar hafa valdið því að mjög illa hefur gengið að afla nægilegra heyja víðast um landið og séð er fram á að uppskerubresturinn muni bitna illa á mörgum þeirra sem minnst mega sín meðal íbúa landsins. Rauða kross hreyfingin hefur brugðist við þessum erfiðleikum með ýmsum hætti og þessi ellefu manna vinnuhópur er hluti af verkefni Rauða krossins í Mongólíu sem miðar að því að tryggja heyforða hjá fátækustu hirðingjafjölskyldum landsins í vetur. Um leið er það eitt af markmiðum verkefnisins að útvega atvinnulausum störf við heyskap um mesta annatímann. Svipuð verkefni eru í gangi um allt land, en uppskerubresturinn veldur því að árangur þeirra er mun minni en stefnt var að.

Ýmsar veðurfræðilegar rannsóknir benda til þess að harður vetur og vor kunni að fylgja í kjölfar þessa erfiða þurrkasumars. Það gerir góðan heyfeng þeim mun nauðsynlegri til að hægt sé að fóðra þær 36 milljónir búfénaðar sem beitt er á víðáttumiklum sléttum landsins. Íbúar landsins telja aðeins 2,5 milljónir manna og kvikfjárrækt er mikilvægasta atvinnugrein Mongólíu.

Það ástand þegar saman fara gríðarlegir kuldar og snjóleysi er kallað „svart dzud“ í Mongólíu. Slík skilyrði hafa myndast nokkrum sinnum á undanförnum árum og valdið felli bústofns í milljónatali. Þúsundir hirðingjafjölskyldna hafa misst aleiguna og geta ekki séð fyrir sér. „Hvítt dzud“ er það ástand hins vegar kallað þegar vetrinum fylgir mikið fannfergi og beitarleysi, en slíkt veldur einnig miklum felli og gerir hirðingjum erfitt að reka bústofn sinn á milli beitarlanda.

Togtuur er 54 ára gömul ekkja með fjögur börn. Hún er ein af þeim sem hefur fengið hey að gjöf hjá Rauða krossinum.
„Við gerum ráð fyrir að geta safnað hér um bil 75 tonnum af heyi áður en vetur gengur í garð, en það er um fjórðungi minna en upphaflega var áætlað,“ segir Otgonbayar, framkvæmdastjóri Rauða kross deildarinnar í Darkhan. Til samanburðar má geta þess að árið 2005 þegar verkefnið hófst söfnuðust 240 tonn af heyi. Á síðasta ári fengust aðeins 150 tonn.

„Ef mér tekst ekki að safna nægilegu heyi fyrir skepnurnar mínar gæti ég þurft að selja eitthvað af nautgripum og sauðfé í vetur,“ segir Togtuur, 54 ára ekkja með fjögur börn, en hún er ein af þeim sem fengið hefur hey að gjöf frá Rauða krossinum.

Togtuur skilur vel þá hættu sem stafar af veðurfarsbreytingum undanfarinna ára í Mongólíu. Þegar flóðin urðu á þessu svæði árið 2004 missti hún tjaldið sitt og allar aðrar eigur fjölskyldunnar. Í kjölfarið veiktist eiginmaður hennar og lést. Með stuðningi Rauða krossins og sendiráðs Bandaríkjanna hefur hún nú eignast nýtt tjald og getur séð sér farborða á ný. Einn af sonum hennar, Enkhbaatar er á meðal þeirra sem ráðnir hafa verið í heyskap á vegum Rauða krossins.

60% af því heyi sem aflað er með verkefninu er dreift til fjölskyldna sem eiga innan við 50 dýr. 20% af heyinu eru seld með verulegum afslætti til fjölskyldna sem eiga á bilinu 50-70 dýr, en þau 20% sem eftir eru fara til hæstbjóðanda á opnum markaði til að afla rekstrarfjár fyrir verkefni næsta árs.

 
 Ravdan Samdandobji framkvæmdastjóri mongólska Rauða krossins klæddur þjóðbúningi.
Alþjóða Rauði krossinn og Rauða kross félög ýmissa landa styðja dyggilega við bakið á mongólska Rauða krossinum til að efla getu hans til að bregðast við hamförum af þessu tagi. Meðal annars munu félögin styrkja rekstur sjö neyðarvarnarmiðstöðvar sem gera félaginu kleift að bregðast við hamförum á mun skjótari og árangursríkari hátt en verið hefur hingað til. Þetta skiptir meira máli en nokkru sinni fyrr ef takast á að veita þeim hirðingjum sem minnst mega sín þá hjálp sem þeir þurfa á að halda til að þrauka versnandi veðurfarsskilyrði í framtíðinni.

Þór Daníelsson starfar sem fulltrúi Alþjóðasambandsins í Mongólíu. Hann sér meðal annars um að samhæfa verkefni um uppbyggingu neyðarvarna sem systurfélög Rauða krossins og önnur samtök og stofnanir fjármagna til lengri tíma. Þór hefur nú starfað í Mongólíu í rúmt ár við aðsamhæfa verkefni Rauða kross félaga sem starfa með Rauða krossinum í Mongólíu.