Fjárskortur hamlar blóðsöfnun Rauða krossins í Mongólíu

Greinin er eftir Francis Markus hjá Alþjóða Rauða krossinum í Mongólíu

19. nóv. 2007

Sjálfboðaliðarnir á myndinni eru frá Chingeltei deild  mongólska Rauða krossins, sem er í einu af hverfum Ulaanbaatar, höfuðborgar landsins. Sjálfboðaliðarnir hafa það hlutverk að fjölga í hópi þeirra sem gefa blóð reglulega og nota til þess meðal annars upplýsingabæklinga sem hvetja fólk til þess að leggja sitt af mörkum. Bæklingarnir sem konurnar halda á eru meðal síðustu eintaka af því upplagi sem landsfélagið á af þessu mikilvæga upplýsingariti og það er ekki til nægilegt fé til að prenta meira. Sjálfboðaliðarnir segja að upplýsingaefni af þessu tagi sé nauðsynlegt til að hægt sé að sannfæra fólk um að gefa blóð þrátt fyrir ótta þeirra við hvassar nálar eða heilsutjón.
Nemendur skóla fyrir heilbrigðisstarfsfólk í Bayangol hverfi gefa blóð. Mongólski Rauði krossinn vinnur ötult starf við að fjölga þeim sem gefa blóð reglulega, en alvarlegur skortur á fjármagni til að framleiða kynningarefni um blóðgjöf gerir félaginu  starfið mjög erfitt.
Meðal heiðursmerkja sem hinn aldraði Horloo hefur fengið er viðurkenning fyrir að hafa gefið blóð reglulega um árabil. Horloo sem er 74 ára vann áður í orkuveri í borginni en er nú kominn á eftirlaun.
Auglýsing frá mongólska Rauða krossinum í einu af hverfum Ulaanbaatar þar sem háskólanemar eru margir. Fólk er hvatt til að gefa blóð og bjarga mannslífum jafnvel þó að það þekki ekki fólkið sem njóta mun góðs af því. Læknar við blóðbanka ríkisins segja að mikill skortur sé á blóði, sérstaklega á sumrin þegar skólar eru lokaðir og nemendur í fríi. Hlutfall háskólanema meðal þeirra sem gefa blóð í Mongólíu er mjög hátt.
Í skóla nokkrum fyrir heilbrigðisstarfsmenn í Ulaanbaatar, ekki langt frá járnbrautarstöðinni í höfuðborg landsins er kominn kaffitími hjá nemendum. Sjálfboðaliðar Rauða krossins í Mongólíu  hafa á undanförnum misserum unnið ötullega að því að safna fólki til að gefa blóð og eftir ítarlega kynningu á þessu lífsnauðsynlega málefni meðal nemenda kjósa flestir að fara inn í eina af kennslustofum skólans þar sem verið er að safna blóði í stað þess að skjótast eftir matarbita eða fá sér kaffisopa. Það munar sannarlega um framlag nemendanna og í þessum skóla einum tókst starfsmönnum blóðbankans í Ulaanbaatar að safna blóði úr nærri 80 manns. 

Það er hins vegar fremur auðvelt að safna blóði meðal vel upplýstra ungmenna í skólum landsins en því miður er árangurinn af blóðsöfnunarátaki mongólska Rauða krossins ekki alltaf jafn mikill. Sjálfboðaliðar sem hafa umsjón með átakinu segja að oft þurfi að beita fólki umtalsverðum fortölum, annað hvort vegna þess að  það óttist hvassar nálar eða hafi áhyggjur af því að það kunni ef til vill að verða fyrir heilsutjóni. „Við reiðum okkur mikið á skóla og stór fyrirtæki til að gefa blóð. Á sumrin þegar þessir aðilar eru í fríi er oft mikill skortur á blóði,“ segir Dr Alimaa, aðstoðarforstjóri blóðbankans.

Mongólski Rauði krossinn stefnir að því að safna 900 nýjum blóðgjöfum á næstu tveimur árum, en fjárskortur veldur því meðal annars að ekki er hægt að fjármagna prentun upplýsingarita og bæklinga um blóðgjöf. „Stundum þurfum við að ljósrita efnið en satt að segja tapar það áhrifamætti sínum mjög mikið á því,“ segir einn af sjálfboðaliðum Rauða krossins í Chingeltei hverfi í Ulaanbaatar.  Til að fjármagna megi átak mongólska Rauða krossins til að safna fleiri blóðgjöfum vantar jafnvirði um það bil 9 milljóna íslenskra króna.

Langur listi með umsóknum frá sjúkrahúsum á svæðinu bíður afgreiðslu á skrifstofu blóðbankans og því miður eru mjög margir umsækjendur sem ekki er hægt að útvega blóð. Sérstaklega hafa blæðarar átt erfitt með að fá nauðsynlega meðferð. Ekkert storknunarefni er framleitt í Mongólíu og skortur á þessum lífsnauðsynlegu aðföngum varð til þess að á síðasta ári lést ungur maður af völdum innri blæðinga. „Flestir blæðarar í Mongólíu deyja fyrir þrítugt,“ segir Gankhlung, sem er yngri bróðir hins látna. Gankhlung er 28 ára gamall og þjáist af sama sjúkdómi.

Um það bil helmingur blæðara í Mongólíu eru börn og á barnaspítala í vesturhluta Ulaanbaatar liggja nokkur ungabörn þungt haldin, sum þeirra með vökva í æð. „Við getum ekkert gefið þeim annað en blóðvökva,“ segir Dr Purevsuren, einn af sérfræðingunum sem sinnir börnunum. „Það kemur ekki í staðinn fyrir storknunarefnið, en það hjálpar dálítið. Því miður eigum við mjög lítið af blóðvökva, þannig að við getum ekki látið þau hafa eins mikið og þau þurfa. Við skiptum því sem við höfum á milli þeirra eftir því hvar þörfin er brýnust.“

„Sífellt fleiri slasast alvarlega í bílslysum og þurfa á blóðgjöf að halda þannig að þörfin fer sífellt vaxandi,“ segir D. Enkhtsetseg, verkefnastjóri blóðsöfnunar hjá Rauða krossinum í Mongólíu. „Og ef stórslys ber að höndum, þá er mjög erfitt að útvega nógu mikið blóð. Þetta fengum við að reyna í júní á þessu ári þegar skelfilegt þyrluslys átti sér stað og 14 manns létu lífið.“

 „Ef Rauði krossinn hefði meira fjármagn til að dreifa upplýsingabæklingum og öðrum gögnum til blóðgjafa gætum við notað hærra hlutfall af því blóði sem safnast auk þess sem auðveldara væri að afla nýrra blóðgjafa,“ segir Dr Alimaa, læknir í blóðbankanum. Mjög oft er ekki hægt að nota blóðið sem gefið er vegna þess að blóðgjafar eru smitaðir af lifrarbólgu eða hafa ekki farið eftir leiðbeiningum um mataræði áður en það gaf blóð.

Árið 2000 voru sett lög sem fólu Rauða krossinum í Mongólíu  fulla ábyrgð á því að afla nægilegs fjölda fólks til að gefa blóð, en fjárskortur hefur hamlað starfinu mjög mikið. Vonir standa hins vegar til þess að á komandi misserum takist landsfélaginu að uppfylla skyldur sínar betur.  „ Í neyðarbeiðni Alþjóða Rauða krossins til styrktar hjálparstarfi í Mongólíu á næstu tveimur árum er mun meiri  áhersla lögð á að fjármagna þessa lífsnauðsynlegu starfsemi,“ segir Þór Daníelsson sendifulltrúi Rauða kross Íslands sem nú starfar fyrir Alþjóða Rauða krossins í Ulaanbaatar. „Við höfum átt gott samstarf við ýmis erlend landsfélög um árabil og með samstilltu átaki allra samstarfsaðila til að fjármagna þetta verkefni ætti landsfélagið að geta uppfyllt skyldur sínar að fullu.“