Alþjóðleg þjálfun í sálrænum stuðningi eftir hamfarir

15. nóv. 2011

„Að hjálpa okkur að vera sátt við okkur sjálf og geta tekist á við umhverfi okkar."

Þannig lýsti haítískur skjólstæðingur Rauða krossins mikilvægi sálræns stuðnings vikurnar og mánuðina eftir jarðskjálftann á síðasta ári. Alþjóðlegt námskeið í sálrænum stuðningi eftir hamfarir var haldið í byrjun nóvember.

Rauði krossinn á Íslandi, Svíþjóð og Finnlandi stóðu sameiginlega að námskeiðinu. Þátttakendur voru sjö manns frá hverju landi sem þjálfaðir voru til starfa við sálrænan stuðning eftir hamfarir.

Um tuttugu sjálfboðaliðar Snæfellsbæjardeildar Rauða krossins aðstoðuðu við þjálfunina, með því að leika þolendur eða sjálfboðaliða Rauða krossins í skaðalandinu. Námskeiðið fór fram að Gufuskálum, æfingamiðstöð Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Snæfellsnesi.

Jóhann Thoroddsen sálfræðingur leiddi námskeiðið af hálfu Rauða kross Íslands. Hann hefur unnið að sálrænum stuðningi í kjölfar jarðskjálfta bæði hér á landi í Íran og á Haítí.  

„Alvarlegir atburðir hafa sálræn áhrif sem oft geta íþyngt meira en líkamlegir áverkar," sagði Jóhann þegar námskeiðið fór fram. „Ef fólk fær sálrænan stuðning í byrjun þá auðveldar það því að vinna úr erfiðum upplifunum."

„Hér eru saman komnir kennarar, sálfræðingar, leikskólakennarar, reyndir sendifulltrúar og fólk sem er að taka fyrstu skrefin - en samt setur umfjöllunarefnið okkur öll á sama upphafspunkt," sagði Jóhann. „Við erum líka með frábæra leiðbeinendur."

Alla námskeiðsdagana var vindstrekkingur sem hélt þátttakendum á námskeiðinu innandyra. Þar voru hamfarir settar á svið á meðan rokið skók sterkbyggð húsin.

„Veðrið hér á Gufuskálum gerir það að verkum að þetta er eins og að vera við hjálparstarf á hamfarasvæði," sagði Jóhann.

Aðalþjálfari námskeiðsins var Jerome Grimaud, verkefnisstjóri sálræns stuðnings Alþjóða Rauða krossins á Haítí. Jerome hefur starfað við sálrænan stuðning á Haítí frá fyrstu vikunum eftir skjálftann, sem varð 12. janúar, 2010. Rauði kross Íslands er aðili að verkefninu og fékk til þess fjárstuðning frá utanríkisráðuneytinu.

Eftir námskeiðið verða íslensku þátttakendurnir félagar í teymi sem getur starfað á tjaldsjúkrahúsum Alþjóða Rauða krossins, en þau eru meðal annars staðsett í Finnlandi, Noregi og Þýskalandi. Tjaldsjúkrahúsin eru hönnuð með það fyrir augum að hægt sé að hefja störf í þeim á hamfarasvæðum, hvar sem er í heiminum, innan þriggja daga frá því að beðið er um þau.

Á námskeiðinu lærðu þátttakendur meðal annars um mat sálrænna þarfa í kjölfar hamfara  og viðbrögð við þeim s.s. skipulag stuðnings við þá mest berskjölduðu á hamfarvettvangi. Slíkur stuðningur felur t.a. .m. í sér uppsetningu verkefna fyrir börn og unglinga sem tímabundið hafa fallið utan dægradvalar eða skólakerfis. Staðsetning slíkra verkefna er oftast í eða við flóttamannabúðir og tjaldspítala sem reknir eru af Rauða krossinum.

Þátttakendur heimsóttu einnig 3. og 4. bekk í grunnskólanum á Hellissandi og skipulögðu dægradvöl og leik með krökkunum eina kennslustund.