Neyðarsjúkrahús Rauða krossins – starf fyrir þig?

28. jan. 2008

Hildur Magnúsdóttir er hjúkrunarfræðingur á Landspítala háskólasjúkrahúsi og hefur unnið tímabundin störf fyrir Rauða kross hreyfinguna í átta löndum í Asíu, Afríku og Evrópu við neyðarhjálp og aðstoð við endurhæfingu heilbrigðisþjónustu á stríðs – og náttúruhamfarasvæðum frá 1988. Síðast starfaði hún í Pakistan eftir jarðskjálftann í október 2005 þar sem hún byggði upp og stýrði öðru tveggja neyðarsjúkrahúsa Rauða krossins í landinu. Hún greinir hér frá starfsemi og starfi hjúkrunarfræðinga á slíkum sjúkrahúsum almennt og þar sem hún vann. Greinin birtist í Curator blaði hjúkrunarfræðinga.

Neyðareiningar Rauða kross hreyfingarinnar
Alþjóðasamband Rauða kross félaga (International Federation of Red Cross and Red Crescent Societies – IFRC - www.ifrc.org) er stærsta hjálparstofnun í heimi. IFRC er sá hluti Rauða kross hreyfingarinnar sem veitir aðstoð á svæðum þar sem orðið hafa náttúruhamfarir. IFRC byggir það starf á framlagi frá landsfélögum eins og Rauða krossi Íslands en framlagið er í m.a. í formi sérhannaðra neyðareininga sem kallast ERU (Emergency Response Unit). Þær innihalda allt sem þarf til að sinna skilgreindu sviði í nokkra mánuði; tæki og annað efni, starfsfólk, flutninga og fé. Ein slík eining er neyðarsjúkrahús (emergency hospital) en aðrar eru t.d.heilsugæslueining (basic health care unit), örsjúkrahús (rapid deployment emergency hospital, góða þýðingu vantar), vatns-og úrgangseining (water and sanitation), samskiptaeining (IT) og aðdráttaeining (logistics).

Neyðarsjúkrahús Rauða krossins til reiðu búin

 
Hildur við aðalsvæði spítalans; sjúkratjöld og þjónustudeildir. Hún er með nokkrum sjúklingum og aðstandendum.sem voru 15 tjöld; legudeildir og skurðstofa til beggja hliða. Jörðin var þakinn möl og tréstígar lagðir til að halda spítalanum hreinum. Einnig voru grafin afrennslisgöng fyrir regnið. Silfruðu tunnurnar fyrir utan tjöldin eru til handþvottar.
 

 Fótbrotinn drengur á barnadeild. Sömu rúm eru fyrir fullorðna, ansi mjó. Mikil áhersla var á að halda öllu umhverfi hreinu.

 
Rauða kross hjúkrunarfræðingar frá fjórum heimsálfum: Kenía, Ísland (Hildur), Pakistan og Nýja Sjáland. Til hægri er sjúklingur á leið inn á skurðstofu og það stendur öryggisvörður á bak við hjúkrunarfræðingana. Snjór í fjöllum Kasmír.
 
Leiktjald barnanna. Sálfélagslegt úrvinnsluteymi hafði þar bækistöð og sinnti bæði börnum og fullorðnum.
 

Pakistanskur hjúkrunarfræðingur flytur klíníska fræðslu fyrir innfætt starfsfólk.

 
Sjúklingur kemur á skurðstofu.
Í þessari grein ætla ég að lýsa fyrir ykkur neyðarsjúkrahúseiningunni sem norski og finnski Rauða krossinn eiga tilbúnar en ég byggði upp og stýrði slíkri einingu í Abbottabad í Pakistan eftir stóra jarðskjálftann í október 2005. Markmið ERU neyðarsjúkrahúsa er að veita vandaða grunnþjónustu til fórnarlamba hamfara í þrjá til sex mánuði eða þar til heimamenn eða aðrir geta tekið við. Vestræn gildi eru höfð að leiðarljósi en öll starfsemin eru aðlöguð að staðbundnum aðstæðum eins og hægt er.  Flestir sendifulltrúar (útlendingar) sem vinna á sjúkrahúsinu hafa sótt grunnnámskeið fyrir sendifulltrúa Rauða krossins auk sérstaks ERU námskeiðs. Í upphafi er eingöngu beinum fórnarlömbum sinnt (oftast áverkar) en þegar líða fer á fyrsta mánuðinn fara önnur bráð vandamál að aukast t.d. öndunarfærasýkingar vegna vosbúðar. Slíkir spítalar eru samansettir af 10-20 tjöldum því hægt er að setja þá saman eftir aðstæðum en alltaf eru til staðar skurðstofa, sótthreinsun, hágæsla, myndgreiningadeild (einfaldar og skuggaefnis röntgenmyndir), einföld rannsóknastofa, lyfjabúr, birgðatjald, eldhús og skrifstofa, hvert í sínu 45-90 fm. tjaldi. Síðan eru 3-6 tjöld fyrir legudeildir, hvert með 20 (háum og mjóum) rúmum og neyðarmóttaka/göngudeild. Setja þarf upp salerni og aðstöðu til baða og þvotta rúmfatnaðar og fatnaðar. Einnig þarf að tryggja nægt framboð á hreinu drykkjarvatni en vatnshreinsibúnaður getur fylgt spítalanum. Yfirleitt þarf að útbúa afrennsli regnvatns í kringum hvert tjald svo sjúkrahúsið fari ekki á flot í rigningu. Einingunni fylgir rafstöð sem er notuð til lýsingar og fyrir tæki (skurðstofa) ef ekki er annað í boði á staðnum. Einnig fylgir loftræsti- eða hitunarkerfi (eftir loftslagi) þar sem loft er tekið inn og annað hvort hitað eða kælt og því svo blásið inn í tjöldin.

Sjúkrahúsið í Abbottabad Pakistan
Spítalinn í Abbottabad var með öllum þessum einingum en auk þess settum við upp barnaleiktjald, sjúkraþjálfun, bænahús, vaktherbergi, krikket/blakleikvöll og hvíldartjald fyrir innfætt starfsfólk sem einnig var notað til kennslu. Spítalinn var í 15 tjöldum og voru yfirleitt um 130 sjúklingar inniliggjandi fyrstu tvo mánuðina en þeim fór smá saman fækkandi og lokaði spítalinn um miðjan febrúar vegna þess að ekki var þörf á honum lengur. Spítalinn var staðsettur í garði háskólasjúkrahúss jarðskjálftasvæðisins en þar sem bærinn er í útjaðri skjálftasvæðisins höfðu orðið litlar skemmdir á honum sjálfum. Þó vildi svo illa til að hið 1000 rúma háskólasjúkrahús skemmdist það mikið að það var talið ótryggt og sjúklingar þorðu ekki að vera inni í byggingunni. Að beiðni heilbrigðisyfirvalda var því tjaldsjúkrahús Rauða krossins sent til að styðja við starfsemina. Tjaldsjúkrahúsið var hitað með blástursofnum frá Noregi en einnig lögðum við gasleiðslur í jörðu og keyptum gasofna því norsku ofnarnir biluðu oft.  Einnig lögðum við rennandi vatn og rafmagn sem við fengum sem framlengingu frá kerfi háskólasjúkrahússins eins og gasið. Við gátum því byggt venjuleg vatnssalerni fyrir sjúklingana en slíkt er einsdæmi í svona sjúkrahúsum, oftast eru notaðir kamrar sem fylgja einingunni.

Starfsfólk
Útlendingar (sendifulltrúar Rauða krossins) stýra þessum sjúkrahúsum og mynda grunn mönnunina en innfæddir eru bæði í störfum ófaglærðra og faglærðra. Yfirleitt eru hlutfallslega flestir starfsmenn erlendir í byrjun en strax er farið í að ráða og þjálfa innfædda með því markmiði að þeir taki við hluta starfsins. Hlutfall innfæddra starfsmanna fer eftir framboði þeirra en oftast er framboðið lítið a.m.k. í byrjun. Neyðarsjúkrahús eru venjulega staðsett á eða rétt við hamfarsvæðin. Þetta þýðir að heilbrigðisstarfsfólk svæðisins hefur einnig látið lífið, slasast eða misst heimili sín. Ef það hefur sloppið við slíkt er líklegt að það þurfi að sinna nákomnum ættingjum eða það er andlega ekki í stakk búið til að vinna. Stundum tekst að afla fólks í gegnum heilbrigðisyfirvöld frá svæðum sem ekki urðu illa út. Þar sem sjúkrahúsið í Abbottabad var í útjaðri skjálftasvæðisins gekk vel að fá innfædda hjúkrunarfræðinga og því var hlutfall erlendra hjúkrunarfræðinga lágt. Þegar mest var um að vera störfuðu um 110 innfæddir á sjúkrahúsinu og 20 útlendingar (í ýmsum störfum) þar af tveir íslenskir hjúkrunarfræðingar fyrir utan mig. Erlenda starfsfólkið var: 10 hjúkrunarfræðingar, tveir skurðlæknar (annar þeirra var yfirlæknir), einn barnalæknir, einn svæfingalæknir, skrifstofustjóri, lyfjafræðingur, hjúkrunarforstjóri, spítalaforstjóri og svo voru tæknimenn með í byrjun til að setja upp tjöldin og annan búnað. Innfætt starfsfólk sinnti hjúkrun (hjúkrunarfræðingar og aðstoðarfólk), sjúkraþjálfun, þrifum, eldhússtörfum og matseld, myndgreiningu og rannsóknastofu, öryggisgæslu, þvottum almennu viðhaldi, skrifstofustörfum, akstri og sálfélagslegri úrvinnslu og stuðningi.

Meðferð sjúklinga og hjúkrunarþátturinn
Þegar við höfðum um 130 sjúklinga voru sex 90 fm tjöld fyrir legudeildir; þrjú barnatjöld, tvö kvennatjöld og eitt karlatjald en konur og börn voru í meirihluta þeirra sem slösuðust. Við byggðum sturtur með rennandi heitu og köldu vatni og þvoðu sumar konurnar einnig fötin sín þar en til þess höfðu þær líka kalt vatn úr krönum úti á lóð. Margir karlanna, bæði göngufærir sjúklingar og aðstandendur, fóru á rakarastofu hinum megin götunnar í bað en það er siður í Pakistan. Dagurinn á svona spítala hefst kl. 7:30 með stuttum fundi allra erlendra starfsmanna þar sem yfirmenn fara yfir það markverðasta og deila áætlun dagsins. Síðan fer hver til sinna starfa, teymi hjúkrunar eru mynduð og farinn er stofugangur. Á morgunvakt voru venjulega þrír erlendir deildarhjúkrunarfræðingar auk hjúkrunarforstjóra og hjúkrunarfræðings í 45 fm hágæslutjaldi sem tók 5-10 sjúklinga sem flestir stöldruðu stutt við eftir svæfingar. Einnig voru tveir skurðstofuhjúkrunarfræðingar. Unnið var á þrískiptum vöktum. Á morgunvakt voru að auki um 10 innfæddir hjúkrunarfræðingar og um 10 ófaglærðir aðstoðarmenn í aðhlynningu. Innfæddu hjúkrunarfræðingarnir og aðstoðarfólkið veitti aðhlynningu þeim sem voru veikastir en hver sjúklingur fékk að hafa einn ættingja hjá sér og sá hann um daglega aðhlynningu, næringu og hreyfingu ef ástand sjúklings var gott. Hinir erlendu stýrðu hjúkruninni, báru ábyrgð á 40-60 sjúklingum auk þess að þjálfa innfædda bæði við rúmstokkinn og í formlegri fræðslu og ganga stofugang. Stofugangur var ýmist daglega eða sjaldnar eftir mönnun og ástandi sjúklinga og skurðaðgerðir voru gerðar eftir stofugang. Misjafnt var hvor innlendu eða erlendu hjúkrunarfræðingarnir sá um lyfjagjafirnar. Fyrirmæli lækna voru skrifleg en neyðarsjúkrahús Rauða krossins byggjast á staðlaðri einfaldri meðferð hvað varðar hjúkrun og lækningar. Á ERU sjúkrahúsum er haldið uppi mikilli rútínu vegna þess hve hátt hlutfall starfsmanna er ófaglærður og því ófærir um að meta hvað er nauðsynlegt að gera. Fastar daglegar hitamælingar allra sjúklinga og rútínu dagleg skráning á hægðalosun eru dæmi um þetta. Spítalinn opnaði með japönsku teymi lækna og hjúkrunarfræðinga en síðar komu fleiri þjóðerni inn. Japanir eru mjög vinnusamir og var frábært að vinna með þeim í þessum erfiðum aðstæðum og manneklu því þeir vildu helst ekkert eiga frí og voru alltaf ljúfir og jákvæðir í framkomu. Þeirra veikleiki var að vilja ekki úthluta verkefnum og treysta ekki innfæddu hjúkrunarfræðingunum. Það gekk því illa í byrjun að nýta hina innfæddu og virtist sem þeir vildu bara sitja og spjalla. Það var ekki fyrr en við ákváðum að líta á „leti” þeirra eða „vankunnáttu” sem okkar vandamál en ekki þeirra að þeir gátu sýnt hvað í þeim bjó. Þeir fengu meiri ábyrgð og voru þeir bestu gerðir að vaktstjórum. Við höfðum líka verið með fasta fræðslufundi um klínísk efni og hófu þeir að taka að sér hluta hennar. Við höfðum þrjá mjög góða innfædda sjúkraþjálfa sem komu frá háskólasjúkrahúsinu. Þeir mátu alla sjúklinga og sinntu sjálfir hluta þeirra en kenndu ættingjum að sinna þeim léttari. Á þessu sjúkrahúsi var andlega þættinum sinnt markvissar en venjulega er gert. Við höfðum sértjald sem bænahús (moska) fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk og var það mikils metið. Einnig réðum við fimm manna sálfélagslegt stuðningsteymi sem samanstóð af klínískum sálfræðingum og ráðgjöfum og var vant að vinna saman. Markmiðið var að veita sjúklingunum sálræna úrvinnslu, stuðning og dægradvöl og styðja þá til samskipta. Teymið hafði bækistöð í barnatjaldinu og sinnti börnunum þar í gegnum leik og með fræðslu. Við keyptum leikföng og fengum gefins sjónvarp og myndbandstæki þar sem börnin fengu að horfa á teiknimyndir. Á kvöldin var tjaldið helgað fullorðnum sem gátu komið þangað í slökunartíma, lesið dagblöð og tímarit, horft á kvikmyndir og spjallað. Einnig var smá vísir að bókasafni þar sem m.a. voru nokkur eintök af Kóraninum. Á þriðja mánuði fórum við svo að aðstoða þá sem enn voru hjá okkur við að fara að huga að lífinu fyrir utan sem undirbúning fyrir útskrift – „heim” á skjálftasvæðið í hrunin hús.  Undir lokin hófum við smá iðjuverkefni fyrir konur: við útveguðum þeim efni til að sinna keramikmálun, saumi og prjóni en þær höfðu sjálfar valið þær iðjur. Gert var mat á þjónustunni meðal sjúklinga í lokin og kom það mjög vel út og það sem mér þótti vænst um að heyra var hve hjúkrunin kom vel út og að spítalinn fékk þann stimpil að vera sjúklingamiðaður.

Lyf, birgðir og skráning
Vöruhús okkar var í risatjaldi á lóðinni þar sem lager og fyrirferðarmiklar vörur voru geymdar. Á ERU sjúkrahúsum er staðlaður lyfjalisti notaður og ekki leyft að víkja frá honum. Hver læknir getur því ekki notað sitt uppáhaldslyf og hjúkrunarfræðingar hafa ekki úrval af vörum til sárameðferðar.  Slíkt er ómögulegt vegna þess hve fagfólk kemur frá mörgum löndum og jafnvel heimsálfum og stoppar stutt við (2-8 vikur) hvert.  Því fleiri tegundir því hægar gengur starfið og þeim meiri hætta er á mistökum vegna þess að hinir þekkja ekki viðkomandi lyf. Algengt er að þetta skapi óánægju fagmanna sem eru vanir að geta fengið nokkurn veginn það sem þeir vilja heima hjá sér. Hinn daglegi lyfja- og vörulager var opinn allan sólarhringinn í 90fm tjaldi undir umsjón lyfjafræðings. Þar var nákvæm skráning á allri lyfjanotkun og eftirritunarskyld og ávanabindandi lyf geymd í læstum skáp. Hjúkrunarfræðingarnir gáfu lyfjafræðingnum upplýsingar um lyfjafyrirmæli og kom hann síðan með lyfin í legutjöldin. Skráning hjúkrunar er mun minni en á Íslandi. Hvorki er skráð hjúkrunarsaga né gert hjúkrunarferli. Vandamál önnur en ástæða innlagnar eru aðeins skráð ef þau eru sýnileg. Hver sjúklingur hefur möppu með nokkrum stöðluðum blöðum. Fyrst ber að nefna lyfja/hitablað svipað því sem við notum og skráum ýmislegt annað á t.d. þegar dren og saumar eru teknir, hægðir og aðgerðir. Einnig er fyrirmælablað læknis, aðgerðarblað og matsblað fyrir ástand við komu. Röntgenmyndir eru geymdar við rúmstokkinn í umslagi. Við útskrift fær sjúklingurinn A5 blað með sögu og fyrirmælum. Í Abbottabad gerðu sjúkraþjálfarnir og sálfélagsstuðnings teymið sín mats- og framvindublöð en hjúkrun notaði aðeins lyfja/hitablaðið og munnlegar upplýsingar.

Hefurðu áhuga á svona starfi?
Það er stórkostleg fagleg og persónuleg upplifun að vinna á svona sjúkrahúsi. Það reynir mikið á mann og maður sér og reynir margt sem gleður en einnig hluti sem hryggja. Ég hvet alla hjúkrunarfræðinga sem hafa áhuga á svona starfi að láta draum sinn rætast. Ýmis störf önnur en vinna á svona sjúkrahúsi eru líka í boði fyrir hjúkrunarfræðinga. Krafist er nokkurra ára starfsreynslu á starfssviðum sem nýtast vel. Sendifulltrúar þurfa að hafa mjög góða aðlögunarhæfileika og lausnamiðuð viðhorf og skilja sitt persónulega og faglega egó eftir heima því á svona sjúkrahúsum er það stöðlun, raunsæi og hópsálin sem þarf að stýra starfinu. Haldin eru einnar viku sendifulltrúanámskeið á 2ja ára fresti á Íslandi en mögulegt er einnig að Rauði kross Íslands sendi fólk á námskeið á hinum Norðurlöndunum. Upplýsingar gefur aðalskrifstofa Rauða kross Íslands.