„Erfitt en áhugavert"

12. mar. 2008

Samnorrænt sendifulltrúanámskeið er haldið í Munaðarnesi þessa vikuna. 25 þátttakendur frá Norðurlöndunum og Póllandi taka þátt í námskeiðinu, þar af níu á vegum Rauða kross Íslands.

Á námskeiðinu læra tilvonandi sendifulltrúar um grundvallarmarkmið og tilgang Rauða kross hreyfingarinnar, sögu hennar og um Rauða kross merkið. Þeir kynnast starfi landsfélaga, Alþjóðasambandsins og Alþjóðaráðs Rauða krossins. Markmiðið með námskeiðinu er að gera tilvonandi sendifulltrúa sem best í stakk búna til að sinna hjálparstarfi á vettvangi vegna neyðarástands í kjölfar náttúruhamfara eða vegna stríðsátaka en líka til að starfa að langtíma þróunarsamvinnu með systurlandsfélögum. Þeir fá fræðslu um heilsufarsvandamál sem upp geta komið, um öryggismál og um daglegt líf sendifulltrúa á vettvangi.

Fulltrúar frá Alþjóðaráðinu og Alþjóðasambandinu flytja fyrirlestra á námskeiðinu sem og starfsfólk og sendifulltrúar Rauða kross Íslands. Þátttakendur vinna í hópum við raunhæf verkefni og vinnudagurinn er langur eða frá kl. 9 á morgnana til kl. 22 á kvöldin.

Ásdís Bjarnadóttir, þátttakandi lýsir námskeiðinu sem erfiðu en áhugaverðu og að það veiti góða innsýn inn í störf Rauða krossins. Hún segir gott að fá að kynnast þeim flóknu aðstæðum sem bíða sendifulltrúa á vettvangi.