Öryggisfulltrúi á vettvangi

Karl Sæberg Júlíusson sendifulltrúa

28. nóv. 2008

Karl Sæberg Júlíusson er starfsmaður Rauða kross Íslands en vinnur á vegum Alþjóðasambands Rauða krossins í Genf í Sviss. Í þessari grein lýsir hann störfum sínum sem öryggisfulltrúi Alþjóðasambandsins.

Mitt fyrsta verkefni fyrir Rauða krossinn var  að starfa sem öryggissendifulltrúi (en. security delegate) í Sahel svæðinu í Afríku fyrir Alþjóðasamband Rauða krossins árið 2005. Sahel svæðið nær meðal annars yfir löndin Níger, Búrkína Fasó, Malí og Máritaníu. Á þeim tíma var mikill matvælaskortur á svæðinu og milljónir manna stóðu frammi fyrir hungursneið. Bakgrunnur minn fyrir starfið var níu ára starf í lögreglu og sérsveit Ríkislögreglustjóra auk þess sem ég starfaði í eitt og hálft ár fyrir íslensku friðargæsluna á Srí Lanka. Í raun vissi ég harla lítið um hvað þetta nýja starf mitt í Níger og nærliggjandi löndum fólst.

Áður hafði ég aðstoðað Rauða kross Íslands við að undirbúa og halda öryggisnámskeið á Íslandi árið 2004 en ég lauk undirbúningsnámskeiði fyrir verðandi sendifulltrúa (BTC) árið 2000. Alþjóðasamband Rauða krossins leitaði til landsfélaga Rauða krossins og óskað eftir starfamanni sem gæti tekið þetta öryggisverkefni á hendur. Er ég horfi til baka þá var mjög vel að undirbúningi staðið af hálfu Rauða kross Íslands og fór ég meðal annars í læknisskoðun fyrir og eftir verkefnið, átti gott spjall við sálfræðing og var vel tækjum búinn m.a. gervihnattasíma, fartölvu, GSM síma og fleira.

 
 Karl við störf í Níger.
Erfiðar aðstæður í Banda Aceh (Indónesíu) eftir Tsunami flóðbylgjuna.
Utan við borgarhlið Timbúktú.

Ég starfaði í fjóra mánuði á Sahel svæðinu og var ásamt öðrum starfsmönnum Rauða krossins með höfuðstöðvar í landinu Níger. Níger er samkvæmt útreikningum Sameinuðu þjóðanna annað tveggja fátækasta land heims og þegar ferðast er út frá þéttbýli höfuðborgarinnar, Niamey, er örbirgðin gífurleg. Hlutverk mitt fólst í að skipuleggja og setja upp öryggiskerfi fyrir alþjóðlega sem innlenda starfsmenn Rauða krossins, koma á fjarskiptakerfi á Sahel svæðinu, setja upp öryggisreglur sem innihéldu reglur um dagleg ferðalög til þeirra svæða þar sem dreifing hjálpargagna og annarrar þjónustu fór fram, tryggja öryggi íbúðarhúsnæða, skrifstofu og vöruhúsa, samskipti við lögreglu og her auk reglna varðandi dreifingu hjálpargagna. Starfssvæðið í Sahel var á stærð við Vestur Evrópu og þurfti því að ferðast mikið á landi og með þyrlum. Lengsta ferðin var um 5.000 km til Timboktu í Malí þar sem við gistum að mestu undir berum himni í eyðimörkinni.

Það sem situr mest eftir í huganum er án efa að vita af því að fólk lét lífið af hungri eftir að hafa gengið marga daga í eyðimörkinni. Þegar komst loks undir læknishendur var það oft of máttfarið til að þrauka lengur. Vafalaust bjargaði starfsemi Alþjóða Rauða krossins hundruðum þúsunda lífa en Rauði krossinn var langstærsti dreifingaraðili hjálpargagna á svæðinu.

Þremur mánuðum síðar var förinni heitið til fjallahéraða Norðvestur Pakistan þar sem stór jarðskjálfti reið yfir. Talið er að um 150.000 manns hafi látist auk þess sem mörg hundruð þúsund manna urðu heimilislaus um miðjan vetur. Ég starfaði í Pakistan í tvo mánuði og voru aðstæður gjörólíkar Sahel svæðinu eins og gefur að skilja. Aðstæður til hjálparstarfs voru mjög erfiðar þar sem koma þurfti hjálpargögnum til lítilla þorpa hátt upp í fjallshlíðum en vegir og brýr höfðu skemmst mikið auk þess sem fimbulvetur skall fljótlega á og frost fór upp í 20 stig á næturna á flestum stöðum.

Síðan í janúar 2006 hef  ég starfað hjá öryggisdeild Alþjóðasambands Rauða krossins (security unit) í Genf, en við erum þrír sem störfum þar. Í stuttu máli felst starf okkar í að tryggja sem mest öryggi alþjóðlegra og innlendra starfsmanna í þeim 89 löndum sem Rauði krossinn starfar, auk allra þeirra sjálfboðaliða sem aðstoða við hin ýmsu verkefni. Samtals eru um 15 til 20 þúsund manns sem falla undir okkar ábyrgð ár hvert. Við förum reglulega í vettvangskannanir til ýmissa landa þar sem við metum öryggisástandið samkvæmt upplýsingum frá ýmsum aðilum, þjálfum starfsfólk, greinum áhættu, aðstoðum við gerð neyðaráætlana t.d. þegar yfirgefa þarf svæði eða land í skyndi vegna slæms öryggisástands eða vegna bráðra veikinda, auk þess kynnum við nýju starfsfólki öryggisreglur er það kemur til Genfar á leið í sendiverkefni erlendis. Við fáum einnig ótal fyrirspurnir daglega frá Rauða kross félögum eða sendinefndum um víða veröld varðandi ráðleggingar tengdar öryggismálum. Einnig gefum við út vikulegt fréttablað til Rauða kross félaga um heim allan þar sem farið er yfir helstu atburði liðinnar viku sem haft geta áhrif á starfsemi okkar og þau öryggisatvik sem upp hafa komið tengt starfsfólki Rauða krossins.

Síðastliðin þrjú ár hef ég ferðast til um eða yfir 30 landa í einnar til tveggja vikulangar ferðir til að halda þjálfanir eða meta hvort öryggi starfsmanna sé nægilega tryggt til að unnt sé að halda starfsemi áfram. Sum þessara landa (svæða) búa við stríðsástand s.s. Suður Súdan, Srí Lanka, Líbanon og Afganistan; en einnig lönd þar sem mikið er um alvarlega glæpi s.s. Jóhannesarborg, Nærobí og fleiri. Alvarlegustu atvik sem starfsmenn lenda í tengjast þó að mestu bílslysum og vopnuðum ránum en minna stríðsátökum. Að meðaltali er tilkynnt um 200 alvarleg atvik til öryggisdeildarinnar árlega en síðustu fjögur ár hefur enginn starfsmaður verið drepinn af ásetningi þó svo að átt hafi sér stað banaslys. Við höldum úti gagnagrunni með öllum þeim öryggistilvikum sem tilkynnt eru og greinum síðan hvert tilvik og leggjum til ráð og tillögur um úrbætur. Allar sendinefndir hafa sínar eigin öryggisreglur en þær þurfa að vera samþykktar af öryggisdeildinni og síðan þarf hver og einn starfsmaður á vettvangi að undirrita reglurnar.

Alþjóðasamband Rauða krossins tekur öryggi starfsfólks mjög alvarlega ekki einungis til að viðhalda góðu orðspori félagsins heldur einnig vegna þess að ef upp koma alvarleg öryggisatvik gætum við hugsanlega þurft að hætta starfsemi á svæðinu sem bitnar mest á þeim sem við veitum þjónustu.
 
Að lokum vil ég þakka Rauða krossi Íslands kærlega fyrir veitta aðstoð og stuðning sem mér hefur verið sýndur í gegnum árin.