Við hættum ekki að hjálpa

Kristján Sturluson framkvæmdastjóra og Þóri Guðmundsson sviðsstjóra Rauða kross Íslands

19. feb. 2009

Störf íslenskra sendifulltrúa Rauða krossins um þessar mundir endurspegla á vissan hátt stöðu mannúðarmála í heiminum. Þau sýna líka að á meðan við Íslendingar glímum við stöðugt harðneskjulegri afleiðingar fjármálakreppunnar hér heima, þá leggjum við okkar af mörkunum til að lina þjáningar þeirra sem hafa það ennþá verra.

Pálína Ásgeirsdóttir er í Jerúsalem og samhæfir aðstoð Alþjóða Rauða krossins við stríðssærða í Gaza. Það er starf sem krefst þrotlausrar einbeitni og veitir litla hvíld. Framundan eru störf á sjálfum vígvellinum. Hugur okkar er með henni og þeim sem hún er að hjálpa.

Maríanna Csillag og Hildur Magnúsdóttir eru við störf í Simbabve, þar sem þær taka þátt í neyðaraðgerðum vegna kólerufaraldurs sem þegar hefur lagt hátt í fjögur þúsund manns í gröfina. Þar vinna þær með heimamönnum við að greina kólerutilfelli, hlúa að hinum sjúku og varna því að fleiri sýkist. Fyrir er í landinu Huld Ingimarsdóttir, sem stýrir matvæladreifingu Alþjóða Rauða krossins þar. Það er nefnilega bæði kólerufaraldur og hungursneyð í Simbabve.

Fleiri sendifulltrúar Rauða kross Íslands starfa í Afríku. Nína Helgadóttir hefur umsjón með heilbrigðisverkefnum í Mósambík, sem unnin eru meðal annars fyrir stuðning Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Á sama tíma vinnur Hólmfríður Garðarsdóttir í Malaví að baráttunni gegn alnæmi, sem Íslendingar hafa á undanförnum árum gefið fé til í söfnunum félagsins. Markmið þeirra verkefna er að hlúa að fólki þegar það er veikt, aðstoða börn þeirra sem deyja og koma í veg fyrir útbreiðslu alnæmis með fræðslu til ungs fólks.

Enn annar Afríkusendifulltrúi Rauða kross Íslands er Hlín Baldvinsdóttir en hennar skjólstæðingar eru meðal annars börn sem stríð í Sierra Leone hefur leikið grátt en fá fyrir stuðning frá Íslandi tækifæri til að koma undir sig fótunum á ný. Hlín er sérfræðingur um fjármál og stjórnun. Hennar starf er að sjá til þess að fé frá Íslandi nýtist sem best.

Frá Genf er Karl Sæberg Júlísson öryggisfulltrúi Alþjóða Rauða krossins á stöðugum þönum um heiminn og gætir að öryggi hjálparstarfsmanna. Hann kemur í veg fyrir vandamál og tryggir þannig að hjálparstarfið gangi snurðulaust fyrir sig. Davíð Lynch er einnig í Genf þar sem hann tekur þátt í að samhæfa neyðaraðstoð Alþjóða Rauða krossins víðs vegar um heiminn næstu mánuði. Í New York er Michael Schulz á vegum Rauða kross Íslands að tala máli mannúðar gagnvart ríkjum hinna Sameinuðu þjóða.

Í austurvegi eru íslenskir sendifulltrúar einnig að störfum. Þór Daníelsson stýrir hjálparstarfi Alþjóða Rauða krossins í Mongólíu, landi þar sem vetrarhörkur og þurrkar, sem heimamenn kalla dzud, hafa fellt búsmalann á undanförnum árum. Og á Kyrrahafseyjum er Helga Bára Bragadóttir að vinna að alþjóðlegri samningagerð sem hefur það að markmiði að hjálparstarf í kjölfar hamfara gangi hraðar og betur fyrir sig. 

Okkar fólk á vettvangi hefur í farteskinu gífurlega reynslu og þekkingu á hjálparstarfi. Hjúkrunarfræðingar okkar hafa hlúð að fórnarlömbum stríða, jarðskjálfta og flóða. Stjórnendur okkar höfðu reynslu úr fyrirtækjarekstri áður en þeir fóru að stýra hjálparstarfi. Öll eru þau sérfræðingar í að bjarga mannslífum og gera líf þeirra sem þjást aðeins bærilegra.