Mestu flóð í sunnanverðri Afríku í 50 ár

22. apr. 2009

Frá því í febrúar 2009 hefur úrkoma verið langt yfir meðallagi í sunnanverðri Afríku. Namibía og Angóla hafa þurft að þola mestu flóð í 50 ár. Í Angóla og Namibíu hefur yfir hálf milljón manna orðið fyrir skakkaföllum vegna flóðanna, um hundrað og tuttugu manns látið lífið og þúsundir fjölskyldna hafa þurft að yfirgefa heimili sín.

Til að styðja flóðaaðgerð Rauða krossins mun íslenskur sendifulltrúi, Baldur Steinn Helgason starfa í tvo mánuði á svæðisskrifstofu Alþjóða Rauða krossins í sunnanverðri Afríku og stjórna þar innkaupum og flutningum neyðarbirgða vegna flóðaaðgerða á svæðinu. Að auki er hluti starfsins fólginn í því að bæta vinnuferli í birgðastjórnun og innkaupum hjá Rauða krossinum í sunnanverðri Afríku.

Landsfélög Rauða krossins í sunnanverðri Afríku hafa öll brugðist við afleiðingum flóðanna með eigin mætti. Löndin sem hafa orðið verst úti hafa í kjölfarið biðlað til Alþjóða Rauða krossins til að aðstoða við neyðaraðgerðir sem miða að því að aðstoða þá sem misst hafa heimili sín við að byggja sér tímabundin skýli, tryggja íbúum flóðasvæða aðgang að hreinu vatni, en einnig að stuðla að auknu almennu hreinlæti til að fyrirbyggja útbreiðslu sjúkdóma.