Tveir íslenskir sendifulltrúar taka þátt í hjálparstarfi vegna flóða í Namibíu

4. maí 2009

Rúmlega hálf milljón manns í Namibíu og Angóla hefur orðið fyrir miklu tjóni vegna mestu flóða sem orðið hafa í Sambesí fljóti í fjörutíu ár. Þúsundir hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín og hafast nú við í búðum þar sem mikil hætta er á sjúkdómum. Sex vikur eru liðnar frá því að flóðin hófust og um það bil 54.000 manns bíða þess enn að geta snúið aftur heim til sín.

Tveir sendifulltrúar frá Rauða krossi Íslands, þau Baldur Steinn Helgason og Huld Ingimarsdóttir, taka þátt í hjálparstarfinu. Þau hafa umsjón með flutningi á bílum og neyðargögnum frá Harare til neyðaraðstoðarteymis breska Rauða krossins í Caprivi-héraði í Namibíu. Hjálpargögnin eru ætluð um 12,000 fórnarlömbum flóðanna í fimm búðum.

Fjöldahjálparteymi mun sjá allt að 20.000 manns fyrir hreinlætisaðstöðu og gera ýmsar aðrar ráðstafanir til að koma í veg fyrir meltingarfærasjúkdóma og aðra kvilla sem stafa af ónógu hreinlæti. Mikil hætta er talin á því að sjúkdómar brjótist út.

Spáð er meiri rigningu og flóðum í næstu viku, og það munu líða mánuðir uns vatnið hefur sigið nægilega til að fólk geti snúið aftur til síns heima. Mjög mikilvægt er að fólkið haldi heilsu þannig að uppbyggingarstarf gangi greiðlega þegar það kemur aftur heim.