Íslenskur sendifulltrúi Rauða krossins á leið til Íraks

6. maí 2009

Valgerður Grímsdóttir, hjúkrunarfræðingur, heldur til Íraks þann 7. maí á vegum Rauða kross Íslands til að starfa fyrir Alþjóða Rauða krossinn. Valgerður verður staðsett í borginni Najaf, sem er um 160 km suður af Bagdad. 

Valgerður mun vinna við sjúkrahúsið í borginni, einkum við þjálfun innlendra heilbrigðisstarfsmanna og við eflingu bráðaþjónustu þar. Valgerður hefur tvisvar áður unnið sem sendifulltrúi fyrir Rauða kross Íslands - í bæði skiptin í Pakistan: árið 1996 í borginni Quetta og svo í Kasmírhéraði árið 2005 vegna jarðskjálfta sem grönduðu um 80.000 manns.

Najaf er ein helgasta borg Shía múslíma og hefur oft verið vettvangur átaka síðan Bandaríkjamenn réðust inn í Írak árið 2003. Að mati Alþjóða Rauða krossins er ástandið á staðnum þó orðið það stöðugt að öryggiskröfum vegna starfa alþjóðlegra sendifulltrúa sé fullnægt.