Einstakur árangur í baráttunni við malaríu í Sambíu

12. maí 2009

Samkvæmt nýjum upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) hefur dauðsföllum af völdum malaríu fækkað um 66% í Sambíu. Athuganir stofnunarinnar gefa til kynna að markmiðum malaríuátaksins Roll Back Malaria hafi verði náð. Með átakinu var stefnt að því að fækka dauðsföllum vegna malaríu um 50% frá árinu 2000 til 2010. Roll Back Malaria er samstarfsverkefni Alþjóða Rauða krossins, Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og fleiri aðila.

„Síðastliðna mánuði höfum við unnið með fulltrúum frá heilbrigðisráðuneytum þrjátíu Afríkulanda við að undirbúa dreifingu flugnaneta. Malaría er ein helsta dánarorsökin í þessum löndum og á undanförnum fjórum árum höfum við dreift samtals fimm og hálfri milljón flugnaneta til barna yngri en fimm ára. Ætlunin er að dreifa þar að minnsta kosti hundrað milljónum neta til ársins 2015,” segir Hlín Baldvinsdóttir sendifulltrúi en starf hennar er hluti af malaríuátakinu Roll Back Malaria. Hlín býr yfir mikilli reynslu á sviði malaríuvarna og hefur frá árinu 2006 meðal annars aðstoðað kanadíska Rauða krossinn við að skipuleggja dreifingu flugnaneta í Síerra Leóne, Malí, Madagaskar, Tógó, Keníu og Nígeríu.

„Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni deyja tvö börn yngri en 5 ára úr malaríu hverja einustu mínútu. Það eitt að dreifa flugnanetum til þeirra sem á þeim þurfa að halda bjargar þúsundum barna frá því að verða þessum hættulega sjúkdómi að bráð,” sagði Hlín. „Dreifing á flugnanetum til barnafjölskyldna er talin höfuðástæða þess hve mikill árangur hefur náðst í Sambíu. Á árunum 2006 til 2008 var 3,6 milljónum flugnaneta dreift í landinu og á því stutta tímabili fækkaði dauðsföllum af völdum malaríu um 47%. Malaríuverkefnin í Sambíu hafa gengið mun betur en búist var við. Það varð til þess að á alþjóðlega malaríudeginum 28. apríl síðastliðinn var Sambía kynnt sem fyrirmynd í baráttunni við þennan hættulega sjúkdóm.”

Auk þeirrar miklu vinnu sem Hlín hefur unnið á sviði malaríuvarna tekur hún einnig þátt í uppbyggingu landsfélagsins í Gambíu, sérstaklega með tilliti til fjármálauppbyggingar og stefnumótunar. Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands og deildir á Vesturlandi, Vestfjörðum, Suðurlandi og Suðurnesjum eiga vinadeildasamstarf við deildir Rauða krossins í Gambíu. Hlín hefur stutt við þessi samstarfsverkefni deildanna en þau felast meðal annars í sölu á notuðum fötum sem safnað er á Íslandi, ungmennaskiptum og þjálfun sjálfboðaliða og starfsmanna.