Sendifulltrúi Rauða kross Íslands til Afganistans

Halldóra Þórsdóttir. Greinin birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 4. júlí

4. júl. 2009

•    Boðaður með tveggja vikna fyrirvara til uppbyggingarstarfa á sjúkrahúsi
•    Magnús Gíslason heldur í þriðja sinn til Afganistans með hugvitið að vopni

Magnús Hartmann Gíslason, sendifulltrúi Rauða kross Íslands, er nýfarinn til borgarinnar Kandahar í suðurausturhluta Afganistans. Þar mun magnús, sem er rafmagnsverkfræðingur, starfa ásamt tuttugu manna teymi á vegum Alþjóða Rauða krossins, við að endurnýja raflagnir í stóru sjúkrahúsi. Magnús mætir þó ekki með neinn tækjabúnað heldur aðeins hugvitið.

„Ég vinn verkið ekki sjálfur því aðalatriðið er að menn læri hvernig á að fara að,” segir Magnús. Þannig má draga úr kostnaði og byggja upp tækniþekkingu á staðnum. Mun erfiðara er fyrir sjúkrahús að halda við búnaði þegar öll uppbyggingarvinna hefur verið unnin af aðkomumönnum. Á sjúkrahúsinu sem hér um ræðir eru 300 rúm og jafnframt eina vel búna skurðstofan í landshlutanum.

Magnús er enginn nýgræðingur á sviði hjálparstarfs. Hann hefur tvisvar sinnum farið til Kabúl, höfuðborgar Afganistans, árin 2003 og 2004, til sambærilegra verkefna. Síðastliðið ár hefur Magnús verið á viðbragðslista hjá Veraldarvaktinni, sem heldur skrá yfir fólk sem býður sig fram til sjálfboðastarfa með skömmum fyrirvara. Nú var hann boðaður með tveggja vikna fyrirvara. Kandahar er um hundrað kílómetra frá átakasvæðum og öryggisástand er þar talið fremur gott.

„Auðvitað er samt hættuástand. Rauði krossinn reynir að passa vel upp á sitt fólk og maður fer varlega. Fjölskyldan er svolítið smeyk, eins og gengur. En maður velur ekki verkefnin sjálfur, núna vantar fólk í Afganistan og þá fer maður þangað,“ segir Magnús að lokum.