Rauði krossinn byggir upp bráðaþjónustu í Nígeríu

14. júl. 2009

Sendifulltrúi Rauða kross Íslands á leið til Abuja
Höskuldur Friðriksson sjúkraflutningamaður býr yfir dýrmætri þekkingu á sviði bráðaþjónustu

Þriðjudaginn 14. júlí fer Höskuldur Sverrir Friðriksson bráðatæknir til Abuja í Nígeríu til að aðstoða við uppbyggingu sjúkraflutninga fyrir Alþjóða Rauða krossinn (ICRC). Áætlað er að hann komi aftur 20. ágúst

Gerð verður úttekt á ástandinu og lagðar fram tillögur um uppbyggingarstarf
„Fyrsta verk mitt er að skoða aðstæður og leggja mat á þá þörf sem er til staðar. Síðan mun ég leggja fram tillögur um búnað og þjálfun sjúkraflutningamanna og hlutverk Rauða krossins í Nígeríu í bráðaþjónustu landsins,“ segir Höskuldur sem verið hefur sjúkraflutningamaður í meira en 20 ár og býr yfir dýrmætri sérmenntun á sviði bráðalækninga. Höskuldur hefur áður tekið þátt svipuðum verkefnum og hér um ræðir, meðal annars í Líbanon þar sem hann vann fyrir íslensku friðargæsluna að þjálfun sjúkraflutningamanna. Höskuldur er jafnframt sérfræðingur í óbyggðalækningum.

Yfirþyrmandi erfiðleikar á sviði heilbrigðismála
Almennt ástand í Nígeríu hefur batnað mikið á undanförnum árum og Alþjóða Rauði krossinn starfrækir þar ýmis verkefni á sviði heilbrigðismála. Heilsufar landsmanna er þó enn mjög slæmt og meðallífslíkur ekki nema tæplega 47 ár. „Mikil þörf er fyrir bætta heilbrigðisþjónustu í landinu, þar á meðal sjúkraflutninga og aðra neyðarþjónustu,“ segir Höskuldur. „Sjúkdómar á borð við kóleru, heilahimnubólgu, lifrarbólgu og taugaveiki eru landlægir. Nígería er eitt versta malaríusvæði i heimi og dánartíðni af hennar völdum er gríðarleg. Alnæmi er einnig útbreitt. Íbúar Nígeríu eru um það bil hundrað og fimmtíu milljónir og fólksfjölgun með því mesta sem gerist í heiminum.“

Öryggisástand er víða slæmt í Nígeríu

Starfsskilyrði í Nígeríu eru víða hættuleg vegna hárrar glæpatíðni en sendifulltrúum er séð fyrir eins góðum aðbúnaði og starfið leyfir. „Alþjóða Rauði krossinn hefur mikla reynslu af því að tryggja öryggi starfmanna sinna og það vegur margfalt upp á móti erfiðleikunum hvað þróunarstarf af þessu tagi er gefandi,“ segir Höskuldur. „Ég er mjög ánægður að fá tækifæri til að leggja mitt af mörkum í mannúðar starfi Rauða krossins og hlakka til að takast á við ný og krefjandi verkefni. Það sem ég kvíði mest er að fá ekki að hitta dóttur mína allan þennan tíma.“