Íslenskur sendifulltrúi stjórnar matvæladreifingum í Simbabve

15. júl. 2009

Alþjóða Rauði krossinn hefur á undanförnum mánuðum átt náið samstarf við Alþjóðamatvælastofnunina (WFP) um dreifingu matvæla til hér um bil 200.000 manns í Simbabve. Stofnunin hefur lagt Alþjóða Rauða krossinum til matvæli fyrir 14-15 milljónir Bandaríkjadala, eða sem svarar um það bil tveimur milljörðum íslenskra króna. Alls útvegar Alþjóðamatvælastofnunin mat fyrir um sex milljónir Simbabvebúa. Þessum matvælum dreifa Rauði krossinn og fleiri samstarfsaðilar síðan áfram til nauðstadda meðal almennings.

Íslenskur sendifulltrúi stjórnar matvæladreifingum
Huld Ingimarsdóttir sendifulltrúi Rauða kross Íslands var ráðin yfirmaður matvæladreifinga i Simbabve í september á síðasta ári, en áætluðum dreifingum lýkur í september á þessu ári. Verkefnið er stærsta verkefni Alþjóða Rauða krossins (IFRC) og kostar í heild um það bil 32 milljónir Bandaríkjadala, eða sem svarar rúmum fjórum milljörðum íslenskra króna. Þar með talið er framlag Alþjóðamatvælastofnunarinnar.

„Alls hefur Alþjóða Rauði krossinn til umráða þrjú stór vöruhús og 110 30 tonna vörubíla,“ segir Huld. „Maturinn frá Alþjóðamatvælastofnuninni er fyrst fluttur í vöruhús Rauða krossins, en þaðan eru öll matvælin síðan keyrð út til skjólstæðinga um allt land.“

Huld Ingimarsdóttir stýrir matvæladreifingunni í Simbabve.

Hluti af verkefninu felst einnig í því að bæta hreinlæti og vatnsöflun í þremur héruðum, þar á meðal í því að setja upp 400 vatnsdælur. Jafnframt er nauðstöddum hjálpað að hjálpa sér sjálfir með því að dreifa fræjum til 28.000 heimila. Verst settu heimilin hafa einnig stundum fengið geitur og 600 sjálfboðaliðar hafa fengið hjól til að geta sinnt hjálparstörfum. Skjólstæðingar verkefnisins eru fyrst og fremst börn sem eru munaðarlaus eða búa við mikla erfiðleika af öðrum ástæðum.

Búist er við áframhaldandi harðindum á næsta ári
„Við gerum ráð fyrir því að verkefninu ljúki í september á þessu ári en næstu mánuðir þar á eftir verða sennilega enn erfiðari fyrir almenning í landinu,“ segir Huld. „Vöruskorturinn var hræðilegur á síðasta ári, lítið var til bæði af útsæði og áburði en verslanir voru nánast tómar. Þetta breyttist svo til batnaðar í febrúar á þessu ári þegar byrjað var að nota Bandaríkjadali sem gjaldmiðil í landinu. Verðlag er hins vegar orðið gríðarlega hátt. Fólk hefur ekki efni á vörum í búðum og hefur þurft að selja geitur sínar og annan búfénað til þess að eiga fyrir mat. Ástandið er verst úti á landi og víða er fólk svo illa statt að það borðar útsæðið sem við dreifum frekar en að svelta heilu hungri. Það eru sífellt fleiri sem deyja vegna matarskorts.“

Heilbrigðis- og menntakerfi í molum
Dánartíðni vegna sjúkdóma er einnig mjög há. Heilbrigðiskerfið er hrunið því að nánast allir læknar og hjúkrunarfólk er farið. Alnæmi er mjög útbreitt og kólera hefur orðið þúsundum að bana á undanförnum misserum. „Raunverulegar tölur um vannæringu og hungurdauða eru mun hærri heldur en fram kemur í opinberum tölum,“ segir Huld „Slæmt næringarástand dregur úr mótstöðuafli fólks þannig að margir deyja af völdum sjúkdóma sem þeir hefðu að öðrum kosti staðið af sér. Margir fá ókeypis alnæmislyf, en þau koma oft að litlu haldi vegna þess hve næringarástand sjúklinga er yfirleitt slæmt.“

„Kennarar og margir fleiri eru hættir að mæta til vinnu. Kaupið þeirra dygði ekki einu sinni fyrir farinu á vinnustað með strætisvagni,“ bætir Huld við. “Meðan hluti af kennurum þraukaði enn borguðu foreldrar skólabarna þeim með mat, en nú hefur kennsla að mestu lagst af í ríkisskólum. Simbabvebúar voru fyrrum ein best menntaða þjóð Afríku, en nú er svo komið að einungis forréttindastéttir landsins hafa aðgang að skólum. Einkaskólakerfið blómstrar raunar fyrir hina ríku. Það sama á við um heilbrigðisþjónustu, hún er bara fyrir þá sem geta borgað fullu verði í einkageiranum.“

Simbabve er yndislegt land, þrátt fyrir alla erfiðleikana

„Simbabve hefur þurft að þola mikla samfélagshnignun á undanförnum árum,“ segir Huld að lokum. „Hins vegar er mikilvægt að gleyma því ekki að þrátt fyrir alla erfiðleikana er þetta yndislegt land, og mjög gott að búa hér í Harare. Glæpir eru fremur fátíðir, sérstaklega ef borið er saman við ýmsar aðrar borgir í Afríku. Bæjarlífið hefur tekið miklum framförum á undanförnum mánuðum og götumarkaðirnir eru að koma aftur. Fólk er almennt brosmilt, kurteist og þægilegt í viðmóti. Simbabvebúum líður almennt vel og láta ekki erfiðleikana buga sig. Það eru fyrst og fremst þeir sem minnst mega sín sem þjást og þurfa að fá hjálp til að lifa þrengingarnar af.“