Íslenskur sendifulltrúi þjálfar starfsfólk á sjúkrahúsi í Írak

21. júl. 2009

Alþjóða Rauði krossinn hefur starfað í Írak undanfarinn aldarfjórðung þrátt fyrir þau átök sem ríkt hafa í landinu og tekur virkan þátt í uppbyggingu heilbrigðisþjónustu í landinu. Gerð var fagleg úttekt á Al Sadr kennslusjúkrahúsinu (Al Sadr Teaching Hospital) í Najaf árið 2008. Í kjölfarið sendi Alþjóða Rauði krossinn teymi lækna og hjúkrunarfræðinga til að aðstoða við uppbyggingarstarfið.

Kennsla fyrir starfsfólk á sjúkrahúsinu

„Með verkefninu er stefnt að því að bæta bráðaþjónustu á kennslusjúkrahúsinu og gera starfsfólk betur fært um að sinna þjálfunarhlutverki sínu,“ segir Valgerður Grímsdóttir hjúkrunarfræðingur sem starfar með teyminu í Najaf. „Fyrsti hluti verkefnisins felst annars vegar í óformlegri kennslu fyrir starfsfólk bráðamóttöku, skurðstofu og gjörgæslu, og hins vegar í formlegum fyrirlestrum fyrir hjúkrunarfræðinga sjúkrahússins. Gert er ráð fyrir því að síðari hluti verkefnisins hefjist í lok þessa árs og starfsmenn fari þá sjálfir að kenna hjúkrunarfræðingum frá öðrum sjúkrahúsum í Írak.“ Valgerður for til Najaf í maí og kemur aftur í október á þessu ári.

Lífið í Najaf

Al Sadr kennslusjúkrahúsið í Najaf

Loftslag í Írak er mjög ólíkt því sem flestir Evrópubúar eiga að venjast. „Það var mikill og þykkur sandstormur hér í gærmorgun og mér er sagt að búast megi við tíðum sandstormum alveg fram í ágúst. Þá er oft ófært til og frá Najaf.“ sagði Valgerður. „Menningarlegt umhverfi er einnig mjög ólíkt því sem þekkist á Vesturlöndum og krefst stundum mikillar aðlögunarhæfni af hálfu sendifulltrúa. Við konurnar í teyminu erum alltaf í svörtum síðum kápum þegar við förum út, með allt hár hulið, í sokkum og helst ekki með sólgleraugu. Við megum reyndar nota sólgleraugu en þar sem við erum einu útlendingarnir hér þá dregur það óþarfa athygli að okkur. Við þurfum líka alltaf að taka með okkur túlka.“

Mikil þörf fyrir tækjabúnað og bætt vinnuskilyrði

Fimmtíu rúm eru á bráðamóttökunni þar sem Valgerður vinnur mest og tekið er á móti hér um bil 150 sjúklíngum á sólarhring. Al Sadr sjúkrahúsið veitir fyrst og fremst almenna þjónustu og þar eru alls 400 sjúkrarúm. Mjög miklar endurbætur hafa verið gerðar á sjúkrahúsinu en mikið verk er þó enn óunnið. „Hér gengur hægt að fá þau tæki sem við þurfum fyrir þjálfunina og það er margt í ólagi. Allt hefur þetta áhrif á verkefnið okkar og rekstur sjúkrahússins,“ sagði Valgerður. „Í gær var til dæmis ekkert rafmagn á bráðamóttökunni og þarafleiðandi engin loftkæling. Hitinn hér er svona 42 til 47 gráður þessa dagana.“

Bæta þarf hreinlætisvenjur á sjúkrahúsinu
 „Hér er ýmislegt öðruvísi en við eigum að venjast á sjúkrahúsum og víða er mikilla úrbóta þörf,“ segir Valgerður.„Sjúklingum hefur til dæmis ekki verið þvegið. Þeir fara í eigin fötum á skurðstofuna og skálmar eru togaðar upp eða sloppum lyft bara svo rétt sé hægt að komast að skurðsvæðinu. Oft eru sömu saumaáhöldin notuð á marga sjúklinga og rétt skolað af þeim með köldu vatni inn á milli. Sótthreinsun áhalda er almennt mjög ábótavant. Nálum og öðrum oddhvössum hlutum hefur fram að þessu verið hent í almennt rusl og stundum liggur þetta á víð og dreif á gólfinu. Þesskonar vinnubrögð skapa starfsfólki og aðstandendum sjúklinga mikla hættu og nú sjáum við til þess að notuð séu sérstök ílát til að henda gömlum hnífsblöðum og nálum. Þetta eru bara fáein dæmi um þann vanda sem við erum að fást við.“