Ormur í drykkjarvatni

Áslaugu Arnoldsdóttur

12. ágú. 2009

Þegar rætt er um Genfarsamningana dettur sjálfsagt fáum í hug holóttur sveitavegur í Eþíópíu. En samningarnir leggja ríkjum meðal annars þá skyldu á herðar að hleypa Alþjóða Rauða krossinum inn í fangelsi þar sem þau geyma óvini sína. Þar kemur sveitavegurinn til sögunnar – og ég sem einn af fulltrúum Alþjóða Rauða krossins í landinu á þessum tíma.

Erindi okkar er að fara í stærsta fangelsi landsins og fylgja eftir föngum sem hafa verið handteknir í tengslum við innanlandsófrið í landinu. Að lokinni heimsókninni vonast ég til að hafa séð hvernig heilbrigðiskerfið innan fangelsisins virkar og hvort þörf sé á aðstoð frá Rauða krossinum.
Við byrjum á að ræða við fangelsisstjórann, sem kemur sér beint að efninu.

„Það eru ormar í drykkjarvatninu, hvað getið þið gert til að hjálpa okkur?“ segir hann. Við ákveðum í samráði við fangelsisstjórann að senda tæknimann frá Rauða krossinum til að athuga hvað er hægt að gera í sambandi við vatnið.

Eftir fundinn förum við inn í sjálft fangelsið sem er eins og lítið þorp. Fangaklefarnir eru opnir 12 tíma á dag og fangarnir sitja flestallir úti við. Angan af nýlöguðu kaffi leggur um fangelsið og okkur er boðið upp á bolla. Kaffið er sterkt og sætt, gott veganesti fyrir daginn.

Við byrjum á að skoða hvern krók og kima: Salerni, eldhús, sturtur, klefa. Á eftir okkur myndast halarófa af forvitnum föngum. Sumir eru hugrakkari en aðrir og rétta fram höndina til að heilsa. Aðrir kalla „Systir, hvernig hefur þú það í dag?“ Þeir hlæja þegar ég reyni að svara þeim á þeirra eigin máli.

Við komum í klefa sem er notaður fyrir sjúklinga. Á klefagólfinu liggur maður sem er ekkert nema skinn og bein. Hann heitir Mitiku og er alnæmissmitaður. Mitiku á augljóslega ekki langt eftir og ég fer á skrifstofu fangelsisstjórans til að biðja um flutning fyrir hann á sjúkrahús. Hann lætur það eftir mér eftir töluvert stapp.

Næst á dagskránni er fundur með nefnd skipaðri föngunum sjálfum þar sem farið er yfir stöðu mála. Þeir kvarta líka undan vatninu: „Það eru margir með niðurgang núna, vatnið er ekki gott.“ Nokkrir koma og biðja okkur um aðstoð við að hafa samband við fjölskyldur sínar. Kollegi minn verður eftir til að aðstoða við það.

Dagur í eþíópsku fangelsi er ein birtingarmynd Genfarsamninganna, sem hafa verndað fórnarlömb átaka í 60 ár. Um þessar mundir eru tólf þúsund kollegar mínir í Alþjóða Rauða krossinum um allan heim að framfylgja samningunum með ýmsum hætti. Sumir fylgjast með heilbrigði stríðsfanga á meðan aðrir ræða við fanga í einrúmi og skrá þá svo hægt sé að rekja hvað um þá verður. Enn aðrir koma hjálpargögnum til almennra borgara á átakasvæðum, bera skilaboð milli ástvina hafa milligöngu um fangaskipti eða upplýsa hermenn um skyldur þeirra samkvæmt samningunum.

Í fyrra heimsóttu sendifulltrúar Alþjóða Rauða krossins tæplega 500.000 fanga og ræddu þar af einslega við 35.892. Af þessum föngum voru 21.046 heimsóttir og skráðir í fyrsta sinn. Starfið er unnið á grundvelli Genfarsamninganna. Ef þeir væru ekki til staðar er erfitt að ímynda sér að ríkisstjórnir leyfðu óháðum aðilum eins og Rauða krossinum að fylgjast með fangelsum sínum.

Hvað fangana í Eþíópíu varðar, þá skipti líklega mestu fyrir þá að vita að fylgst var með þeim og aðbúnaði þeirra. Og vonandi munaði líka einhverju að losna við ormana úr drykkjarvatninu.

Höfundur er sendifulltrúi Rauða kross Íslands og hefur framfylgt Genfarsamningunum á vettvangi átaka fyrir Rauða krossinn.