Uppbygging sjúkrahúss í Afganistan

11. ágú. 2009

Frá því í lok júní á þessu ári hefur Magnús H. Gíslason verkfræðingur og sendifulltrúi Rauða kross Íslands starfað á vegum Alþjóða Rauða krossins við að endurnýja raflagnir í Mirwais sjúkrahúsinu í Kandahar í suðausturhluta Afganistans.

Sjúkrahúsið er aðalverkefni Alþjóða Rauða krossins í Kandahar
„Megnið af starfsemi Alþjóða Rauða krossins í Kandahar  tengist Mirwais sjúkrahúsinu með einhverjum hætti. Þetta er mjög stór spítali, sem byggt var af Kínverjum upp úr 1970 á sjö hektara lóð. Alls eru þar 400 sjúkrarúm, en fjölgar síðar í 550 rúm. Spítalinn þjónar um það bil 3,5 milljónum manna, aðallega héruðunum Kandahar og Helmand,“ segir Magnús, en hlutverk hans við enduruppbyggingu sjúkrahússins felst meðal annars í því að fara yfir teikningar, bjóða verk út til verktaka og hafa eftirlit með þeim. Gert er ráð fyrir því að verkefni Magnúsar taki um það bil 6 mánuði.

Áhersla á skurðstofur og deildir fyrir konur
„Skurðstofurnar eru mikilvægasti hluti rekstrarins, sérstaklega eftir að stríðsrekstur færðist í aukana í nálægum héruðum,“ segir Magnús. „Gerðar eru um 600 skurðaðgerðir á mánuði og fer þeim fjölgandi.

Rauði krossinn leggur líka sérstaka áherslu á að byggja upp deildir fyrir konur og börn. Konur hafa að jafnaði fengið takmarkaða læknisþjónustu í Afganistan. Mikil andstaða er við því meðal heimamanna að leyfa karlkyns læknum að skoða konur, um leið og mjög fáar konur starfa sem læknar eða hjúkrunarfræðingar.“

Uppbyggingarstarf við erfið skilyrði
„Við sendifulltrúarnir erum 26 talsins, en þar af er helmingurinn úr heilbrigðisstéttum, aðallega læknar og hjúkrunarfólk,“ segir Magnús. „Jafnframt erum við hér nokkrir verkfræðingar sem sinnum uppbyggingarstarfi. Meðal annars erum við að endurbæta byggingar á spítalasvæðinu og reisa nýjar. Vatns- og frárennslismálum þarf líka að koma í lag og endurnýja raflagnir. Rafmagnið kemur í minn hlut.“

Heimsóknir til fanga, leitarþjónusta og mannúðarlög

„Starf sendifulltrúa Alþjóða Rauða krossins hér í Kandahar er ekki hættulaust og ferðafrelsi er mjög takmarkað,“ segir Magnús. „Mest á ferðinni eru þeir sem sinna skráningu særðra og týndra, sem og heimsóknum í fangelsin. Heimsóknir til fólks sem er í haldi afganskra yfirvalda og alþjóðlegra herja í landinu eru helsta forgangsverkefni Alþjóða Rauða krossins á þessu svæði. Það er líka lögð mikil áhersla á að sameina fjölskyldur og að leita að fólki sem misst hefur samband við ástvini sína vegna átakanna í landinu.“

Útbreiðsla á alþjóðlegum mannúðarlögum

Kennsla og útbreiðsla á virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum eru einnig meðal mikilvægustu forgangsverkefna Alþjóða Rauða krossins í Afganistan. Bæði þar og í öðrum löndum þar sem ófriðarástand ríkir halda sendifulltrúar uppi nánum samskiptum við forsvarsmenn stríðandi fylkinga. Þeir kynna fyrir þeim grundvallarþætti Genfarsamninganna og hvetja til þess að ákvæðum þeirra sé framfylgt. Markmið þeirra er að tryggja mannúðlega meðferð og réttindi bæði fórnarlamba og þátttakenda í vopnuðum átökum. Þann 12. ágúst heldur Rauði kossinn upp á 60 ára afmæli Genfarsamninganna, en þeir eru mikilvægasti þáttur alþjóðlegra mannúðarlaga.