Verkefni til að bæta matvælaöryggi í Malaví

19. maí 2009

Rauði kross Íslands hefur um nokkurra ára skeið stutt alnæmisverkefni malavíska Rauða krossins í Chiradzulu héraði í suðurhluta Malaví. Þeir sem njóta góðs af verkefninu eru alnæmissjúkir og börn sem misst hafa foreldra sína af völdum þessa skelfilega sjúkdóms. Til stendur að bæta fleiri þáttum við verkefnið og frá og með þessu ári verður þeim skjólstæðingum sem búa við mestar þrengingar veittur stuðningur til að tryggja að þeir hafi næga fæðu.

„Gerð var könnun á fæðuöryggi á heimilum hér í Chiradzulu héraði árið 2008. Í ljós kom að það er töluverð hætta á hungursneyð meðal alnæmisveikra, munaðarlausra barna og annarra úr hópi þeirra sem minnst mega sín. Til að bregðast við þessari hættu þróaði malavíski Rauði krossinn verkefni til að bæta matvælaöryggi með stuðningi frá Rauða krossi Íslands,” segir Hólmfríður Garðarsdóttir heilbrigðisráðgjafi Rauða kross Íslands í Malaví. Hólmfríður hefur verið í Malaví frá því í október 2008 og veitir einnig ráðgjöf um tilhögun samstarfsverkefna Rauða kross Íslands í Mósambík og Suður-Afríku.

Samfélagsgarðar og stuðningshópar fyrir alnæmissjúka
Aðalmarkmið verkefnisins er að tryggja það að 900 heimili í Nkalo í Chiradzulu hafi öruggan aðgang að mat. Dreift er áburði og fræjum til skjólstæðinga til að þeir geti ræktað sætar kartöflur, maís, sojabaunir, lauk, engifer og annað grænmeti.

Munaðarlaus börn njóta góðs af verkefnum Rauða krossins.

„Skjólstæðingar fá aðstoð frá sjálfboðaliðum Rauða krossins til að rækta heimilisgarða, en vegna þess að mikill skortur er á landi í Nkalo verða stofnaðir svokallaðir samfélagsgarðar þar sem alnæmissjúkir og stuðningshópar þeirra geta lagt sitt af mörkum til ræktunarinnar og notið góðs af henni. Skortur er á vatni í Chiradzulu og Rauði krossinn mun veita aðstoð sína við að byggja upp áveitur,” segir Hólmfríður.

Maís er helsta fæða Malvíbúa en verkefninu er ætlað að auka úrval næringaríkrar fæðu til að bæta heilsufar og líðan alnæmissjúkra. Þegar uppskera er góð er hægt að selja það sem afgangs verður og nýta afraksturinn til frekari aðstoðar við skjólstæðinga.

Námskeið um meðferð matvæla og fleira
Kenndar verða ýmsar geymslu- og matreiðsluaðferðir sem bæta nýtingu, næringarinnihald og hreinlæti, því að mjög mikilvægt er að alnæmissjúkir njóti næringarríkrar og heilnæmrar fæðu. Lögð er áhersla á að kenna fólki að neyta réttra fæðutegunda í samræmi við næringarþörf.

„Fólk hefur ekki nóg af eldiviði og við erum líka að kenna fólki að nýta eldsneyti betur með því að nota sparneytin eldstæði. Það er stuðningshópur alnæmisveikra í Chiradzulu sem framleiðir þessi eldstæði. Jafnframt verður settur upp fræbanki fyrir þá sem ekki eiga nóg af fræjum til sáningar, til dæmis ef uppskerubrestur hefur valdið því að þeir hafi ekki getað safnað fræjum árið áður,” segir Hólmfríður. „Við vonumst sannarlega til að þessi og önnur verkefni Rauða krossins hérna í Malaví muni stuðla að aukinni vellíðan og sjálfstæði þeirra sem eiga erfiðast með að afla sér fæðu.”